Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142004 um erfðafjárskatt

Málsnúmer 2512012

Vakta málsnúmer

Landbúnaðarráð - 222. fundur - 03.12.2025

Landbúnaðarráð Húnaþings vestra gerir alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem fjármálaráðuneytið hyggst gera á lögum nr. 14/2004 um erfðafjárskatt.
Samkvæmt lögunum eins og þau standa í dag skulu fasteignir vera taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Með fyrirhuguðum breytingum, gangi þær í gegn, verður land hins vegar miðað við markaðsverð nema telja megi að mismunur þess og fasteignamats sé óverulegur. Tiltekið er í greinargerð sem fylgir frumvarpinu að þessi breyting sé fyrirhuguð þar sem að fasteignamat reynist oft vera langt undir markaðsverði. Engin rök eða dæmi fylgja með þessari fullyrðingu, ekki er tiltekið hver eigi eða hvernig eigi að meta hvort mismunur markaðsverðs og fasteignamats sé óverulegur og hvergi er tilgreint hvernig á að meta markaðsverð. Fasteignamat á samkvæmt lögum að endurspegla markaðsverð og HMS reiknar slíkt meðal annars út frá seldum eignum í aðdraganda uppreiknings fasteignamats, sem á sér stað einu sinni á ári. Erfitt er að sjá rök fyrir því að aðrar reglur eigi að gilda um land en aðrar fasteignir.
Ljóst er að breyting þessi kemur fyrst og fremst niður á bændum. Erfingjar bænda eru oft á tíðum næsta kynslóð bændastéttarinnar og er því verið að gera kynslóðaskipti í búskap enn erfiðari en þau eru nú þegar. Breyting á við þessa getur hæglega orðið til þess að erfingjar neyðist til að selja jarðir sem þeir erfa þar sem erfðafjárskattur af þessu mjög svo óskilgreinda markaðssverði reynist vera mun hærri skattaskuld en búrekstur stendur undir, og opnar þetta því enn frekar á að jarðir fari úr búrekstri og seljist til fjársterkra einstaklinga sem hyggjast hvorki byggja jarðir sínar né stunda á þeim rekstur af neinu tagi.
Landbúnaðarráð hvetur fjármálaráðuneytið til að hverfa frá fyrirhuguðum breytingum.
Var efnið á síðunni hjálplegt?