Breyting á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026-Víðihlíð

Málsnúmer 2506015

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisráð - 376. fundur - 05.06.2025

Hér með er óskað eftir breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026. Fyrirhugað er að endurskilgreina landnotkun á tilteknu svæði meðfram þjóðvegi 1, í nágrenni félagsheimilisins Víðihlíðar, þannig að svæðið verði skilgreint sem svæði fyrir ferðaþjónustu. Um er að ræða 23.585 m² landsvæði.

Markmið breytingarinnar er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytta starfsemi tengda ferðaþjónustu, svo sem gistingu, afþreyingu og þjónustu við ferðamenn. Liggur svæðið vel við þjóðveginum og býður þannig upp á góðan aðgang og sýnileika, sem er mikilvæg forsenda fyrir uppbyggingu á þessu sviði.

Óskað er eftir að breytingin verði tekin til umfjöllunar í skipulagsferli sveitarfélagsins og að gerð verði sú breyting á aðalskipulagi sem þarf til að svæðið verði formlega skilgreint sem ferðaþjónustusvæði.
Skipulags- og umhverfisráð Húnaþings vestra fjallaði um fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 við Víðihlíð. Ráðið telur að um sé að ræða óverulega breytingu á aðalskipulagi í skilningi 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin felur ekki í sér veruleg áhrif á landnotkun, umhverfi, samfélag eða hagsmuni annarra og er í samræmi við meginmarkmið og stefnu aðalskipulagsins. Ráðið fer fram á að gengið verði frá samningum við alla eigendur lóðarinnar áður en að skipulagið verði auglýst.

Var efnið á síðunni hjálplegt?