Stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgöngu og byggðamála - mál til umsagnar - Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Málsnúmer 2504035

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1243. fundur - 28.04.2025

Lagt fram erindi frá Alþingi sem sendir til umsagnar stefnur og aðgerðaráætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, 271. mál.
Frumvarpið miðar að því öðru fremur að færa alla stefnumörkun og áætlanagerð á sviði samgöngu-, byggðamála og fjarskipta undir eitt ráð, stefnuráð, sem leysir af hólmi samgönguráð, byggðamálaráð og húsnæðis- og skipulagsráð. Byggðarráð Húnaþings vestra gerir alvarlegar athugasemdir við þau áform. Málefnasvið það sem heyra myndi undir nýtt stefnuráð er afar breitt sem getur komið niður á gæðum áætlana sökum skorts á sérþekkingu. Byggðarráð tekur heilshugar undir umsögn Byggðastofnunar þar sem varað er við að lögð verði af sérstök stefna í byggðamálum (byggðaáætlun). Það er mat ráðsins að með því að fella byggðaáætlun undir aðrar áætlanir ráðuneytisins sé lítið gert úr mikilvægi stefnumörkunar hins opinbera á sviði byggðamála þegar í raun þyrfti að gera slíkri stefnumótun enn hærra undir höfði en nú er gert. Byggðaáætlun hefur ótvírætt sannað gildi og mikilvægi sitt á undanförnum árum. Vinnulag við gerð hennar hefur aukinheldur reynst vel og hafa áætlanirnar notið stuðnings í meðferð Alþingis þvert á flokka. Það væri því að mati byggðarráðs stórt skref afturábak að rýra gildi áætlunarinnar með framangreindum hætti. Landsbyggðirnar mega ekki við slíkri afturför. Byggðarráð leggst gegn því að þessi hluti frumvarpsins nái fram að ganga. Ekki eru gerðar athugasemdir við breytingar sem lúta að aðlögun gildissviðs að breyttu málefnasviði ráðuneytisins.
Var efnið á síðunni hjálplegt?