11. október 2022

Vikan 3.-9. október 2022

Heima er svo sannarlega best. Það var ánægjulegt að vera heimavið alla þessa viku. Ég kom því meiru í verk en vikuna á undan þar sem ég var utan héraðs 3 heila daga.

Vinnuvikan hófst eins og margar síðustu vikur á fundi aukins byggðarráðs vegna fjárhagsáætlunargerðar. Í þetta skiptið var farið yfir styrkbeiðnir til félags-, menningar- og atvinnumála fyrir árið 2023. Auglýst var eftir umsóknum á vef sveitarfélagsins og barst sem fyrr fjöldi umsókna. Það er alltaf jafn ánægjulegt að upplifa þá miklu grósku í menningarlífi sveitarfélagsins. Það kom því ekki á óvart að í niðurstöðum íbúakönnunar frá árinu 2020 er viðhorf íbúa til menningarstarfs í sveitarfélaginu sína það þriðja besta á landinu öllu í Húnaþingi vestra, á eftir Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg. Það er svo sannarlega eitthvað til að vera stoltur af.

Eftir hádegið var svo fundur með stjórn Leigufélagsins Bústaðar hses. Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri þess félags en stjórnina skipa Ingveldur Ása Konráðsdóttir, formaður, Friðrik Már Sigurðsson, varaformaður og Magnús Magnússon. Þar sem þetta var fyrsti fundur eftir að ég hóf störf var bókað um breytingu á framkvæmdastjóra og mér falin prókúra félagsins. Auk þess var íbúð að Lindarvegi 5e úthlutað. Fjórar umsóknir bárust.

Framkvæmdaráð hélt sinn vikulega fund í lok vinnudags og sem fyrr var farið yfir helstu mál á döfinni.

Seinnipart dags komu þingmenn kjördæmisins svo í heimsókn og hittu sveitarstjórn í kjördæmaviku. Þessir fundir eru nauðsynlegir til að fara yfir helstu mál og áherslur sveitarfélagsins. Umræður á fundinum voru með ágætum. Samgöngumálin voru eins og áður ofarlega á blaði, einnig var rætt um atvinnumál og þar með stöðu landbúnaðar, orkumálin bar á góma, einnig málefni fatlaðs fólks, svo fátt eitt sé talið. Að þingmannafundi loknum kynnti Haraldur Benediktsson alþingismaður hugmyndir um nýja nálgun í samgöngumálum sem hann svo kynnti á íbúafundi degi síðar. Var sá fundur fjölsóttur og fóru þar fram góðar umræður um þá möguleika sem kynntir voru. Sveitarstjórn mun halda áfram að vinna að málinu af krafti í þeirri vona að það flýti framkvæmdum við Vatnsnesveg.

Heimsókn þingmanna Norðvesturkjördæmis, hér er fólk í þungum þönkum.

Þriðjudagurinn einkenndist af styttri fundum og skrifborðsvinnu til skiptis. Ég átti m.a. fund með fulltrúa Vegagerðarinnar sem heldur utan um almenningssamgöngur. Þar ræddi ég möguleika um að taka aftur upp akstur á leggnum Hvammstangi – Norðurbraut sem lagður var af án samráðs fyrir nokkru. Því miður var lítill árangur af þeim fundi. Vegagerðin er víðar að minnka leiðakerfi sitt og taka út lítið notaða styttri leggi. Það þarf því að leita annarra leiða til að leysa málið. Við gefumst ekkert upp!

Stuttu síðar litu í heimsókn þau Sæunn Stefánsdóttir forstöðukona Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands og Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður setursins á Norðurlandi vestra. Kynntu þau starf setursins og möguleika til samstarfs. Það var sérstaklega ánægjulegt að heyra af því að frá og með 1. september er raunveruleg starfsstöð setursins á Hvammstanga. Það er von okkar að í sameiningu getum við eflt starfsemi setursins og fjölgað störfum fyrir háskólamenntaða í sveitarfélaginu.

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðukona stofnunar Rannsóknarsetra Háskóla Íslands og Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður setursins á Norðurlandi vestra. Það blés aðeins á ráðhúströppunum þegar myndin var tekin.

Næsti fundur var ekki síður áhugaverður en ég fundaði með Daníel E. Arnarssyni formanni samtakanna 78. Tilefni fundarins var að skoða möguleika á aðstoð samtakanna við endurskoðun jafnréttisáætlunar sveitarfélagsins sem ný sveitarstjórn ber að gera innan árs frá því að hún tekur til starfa. Sú bón um aðstoð var auðsótt og ræddum við jafnframt möguleika á frekara samstarfi. Daníel sagði mér að hann hefði búið á Hvammstanga einn vetur og verið hér í Grunnskólanum sem ég vissi ekki af. Þræðir sveitarfélagsins liggja víða.

Síðar um daginn fundaði öldungaráð og ég heilsaði örstutt upp á ráðið í upphafi fundar þar sem fundurinn var sá fyrsti eftir að ég tók við starfi sveitarstjóra. Guðmundur Haukur Sigurðsson var á fundinum kjörinn formaður ráðsins og Jóna Halldóra Tryggvadóttir, varaformaður. Ráðið er skipað sjö fulltrúum. Af fundargerðinni að merkja lætur ráðið sig málefni eldri borgara sveitarfélagsins sig varða á mjög breiðu sviði og er það vel. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs er starfsmaður ráðsins. Fundargerð fundarins er hér.

Það sem eftir lifði þriðjudags var varið í ýmis mál. Starfsmannamál, yfirferð tölvupósts, samþykkt reikninga, skoðun á verkefnalistanum o.s.frv. Það virðist vera lögmál að um leið og eitt atriði er strikað út af verkefnalistanum þá bætast að minnsta kosti tvö önnur við ;)

Miðvikudagurinn var fjölbreyttur eins og aðrir dagar. Í bítið hitti ég fulltrúa Kormáks þar sem við fórum yfir þær hugmyndir sem fram eru komnar um aðstöðuhús í Kirkjuhvammi. Fyrstu teikningar liggja fyrir og félagið er nú að afla fjár til verksins. Tölvupósturinn fékk þar á eftir svolitla athygli sem og undirbúningur fundar landbúnaðarráðs, m.a. fór ég yfir tölur um refa og minkaveiði í sveitarfélaginu en refaveiðin hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og þar með kostnaður við hana. Ég kvittaði undir bunka af veiðiskýrslum sem sendar eru inn til Umhverfisstofnunar vegna veiðanna. Aðalheiður Einarsdóttir á skrifstofu sveitarfélagsins heldur utan um þetta bókhald af myndarbrag. Ég átti svo góðan fund með leikskólastjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs um málefni leikskólans Ásgarðs.

Eftir hádegið kíkti ég í heimsókn í Sláturhúsið. Davíð framkvæmdastjóri leiddi mig þar um framleiðslulínuna ásamt Guðna kjötiðnaðarmanni. Vinnustaðurinn er sá lang stærsti í sveitarfélaginu í sláturtíð. Stærstur hluti starfsmanna eru erlendir verkamenn en flestir þeirra koma hingað ár eftir ár. Það var virkilega áhugavert að fræðast um þessa mikilvægu starfsemi í sveitarfélaginu.

Fimmtudagurinn hófst svo á fundi um fjölmenningarverkefni sem sveitarfélagið fékk styrk til og ég hef falið Þórunni Ýr starfsmanni okkar á skrifstofu að leiða áfram. Hún fór yfir nokkrar spennandi hugmyndir og ég hlakka til að sjá þær verða að veruleika. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að auka þátttöku fólksins okkar af öðru þjóðerni í samfélaginu. Ég átti í framhaldinu fund með formanni landbúnaðarráðs, Sigríði Ólafsdóttur, þar sem við undirbjuggum fund ráðsins sem var svo á dagskrá eftir hádegið. Ráðið fundar að jafnaði mánaðarlega. Aðrir ráðsmenn eru Ingimar Sigurðsson, varaformaður, Halldór Pálsson, Guðrún Eik Skúladóttir og Dagbjört Diljá Einþórsdóttir. Guðrún Eik er nú í fæðingarorlofi og því sat Ármann Pétursson varamaður fundinn. Dagbjört Diljá var sömuleiðis fjarverandi og sat Dagný Ragnarsdóttir varamaður fundinn í hennar stað. Meðal dagskrárliða var sala rjúpnaveiðileyfa, erindi frá fjallskiladeildum, áætlun vegna refaveið fyrir næstu ár og uppgjör refaveiða fyrir þetta ár. Auk þess var starfsáætlun ráðsins lögð fram. Fundargerð fundarins er hér.

Eins og vant er hófst föstudagurinn með fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Yfir vikuna safna ég saman lista af málum sem ræða þarf. Á föstudögum förum við svo í gegnum þann lista ásamt því að stilla upp fundarboði fyrir byggðarráðsfund mánudagins á eftir. Afar góðir og gagnlegir fundir. Strax að þeim loknum er föstudagskaffi í ráðhúsinu en við skiptumst á að koma með eitthvað með kaffinu á föstudögum. Það er nauðsynlegt að setjast aðeins niður og eiga góða stund saman og ekki spillir fyrir að hafa eitthvað gott að maula á meðan.

Ég sinnti ýmsum málum það sem eftir lifði föstudags. Ég hitti íbúa í einni af íbúðum sveitarfélagsins, skrifaði og setti inn fréttir á heimasíðuna, samþykkti reikninga, hlustaði með öðru eyranu á ráðstefnu um úrgangsmál, undirbjó byggðarráðsfund mánudagsins og drög að fundargerð, yfirfór fundarboð sveitarstjórnarfundar þriðjudagsins og drög að fundargerð sem sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs vinnur. Yfirfór fyrirkomulag skipulags- og byggingarfulltrúamála í samstarfi okkar og Austursýslunnar, skipulagði fundi í kringum ferð sveitarstjórnar í næstu viku á fjármálaráðstefnu sveitarfélagsins í Reykjavík og margt, margt fleira. Framvegis verður lokað eftir hádegi á föstudaginn á skrifstofu sveitarfélagsins til að hægt verði með góðu móti að framkvæma styttingu vinnuvikunnar. Sveitarstjóri hefur sjaldnast tök á að taka út styttingu vinnuvikunnar enda dugar hefðbundinn vinnutími sjaldast til að ljúka nauðsynlegum verkum. Ég kvarta nú alls ekki yfir því og munu föstudagarnir klárlega nýtast vel í uppsóp eftir vikuna og skipulag þeirrar næstu.

Á persónulegum nótum: Á föstudagskvöldinu var okkur systkinum, mökum og börnum boðið í mat á Hótel Laugarbakka. Mamma, Aðalheiður Gunnarsdóttir frá Laxárdal í Hrútafirði ásamt sínum manni, Kristjáni Erni Frederiksen, gistu á hótelinu í nokkra daga. Halli bróðir og fjölskylda komu norður og því var upplagt að smala öllum saman í kvöldmat. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að við áttum þarna frábæra kvöldstund og fengum framúrskarandi mat og þjónustu. Það er ómetanlegt að hafa aðgengi að eins mörgum veitingastöðum og við höfum hér í sveitarfélaginu sem eru leyfi ég mér að segja hver öðrum betri. Hótel Laugarbakki er einn þeirra. Sjávarborg er orðinn landsþekktur veitingastaður og laðar fólk af þjóðveginum inn á Hvammstanga, þau eru orðin þekkt fyrir frábæran fisk, hamborgararnir eru með því besta sem gerist og Surf and turf salatið er að mínu mati besta salat landsins. Veitingastaðurinn North West í Víðigerði er líka algerlega frábær staður og er orðinn viðkomustaður margra á ferðum sínum á þjóðvegi 1, við rúllum þangað reglulega í kótilettur og borgara. Svo má ekki gleyma Sjoppunni á Hvammstanga. Á mínu heimili eru reglulega pantaðar pizzur þaðan sem eru afar góðar og franskarnar eru eins og krakkarnir segja eitthvað annað góðar. Að síðustu vil ég nefna Staðarskála sem flestum er að góðu kunnur en þar komum við oft við og pulsum okkur upp eða fáum okkur kjötsúpu. Ég vil þakka því fólki sem stendur í stafni þessara fyrirtækja kærlega fyrir framúrskarandi mat og þjónustu. Það eru lífsgæði í því fólgin að hafa val um þetta marga góða veitingakosti í sveitarfélaginu.

Ég brá mér afsíðis rétt fyrir kvölmatinn á Hótel Laugarbakka því ég fékk ábendinu um að RARIK hefði fyrr um daginn fjarlægt varaaflsstöðina sem staðsett hafði verið við RARIK húsið á Hvammstanga. Það þykknaði satt að segja í mér við þær fréttir enda appelsínugul viðvörun í kortunum. Þessar fréttir kölluðu því á símtal. Ég fékk þær skýringar að gámurinn hefði verið fluttur austar þar sem ráð var gert fyrir enn meiri hvelli en hér. Ég fékk líka þær upplýsingar um að í Hrútatungu væru nú tvær varaaflsvélar. Það var huggun harmi gegn. Ég fékk það svo staðfest á laugardagsmorgninum hjá Landsneti. Ég var líka í sambandi við lögregluna á Norðurlandi vestra föstudag, laugardag og sunnudag vegna veðursins. Ég vil þakka öllum þessum aðilum, RARIK, Landsneti og Lögregluembættinu fyrir gott starf í kringum veðurviðvörunina. Það er sannarlega gott að vita af þessum aðilum á vaktinni og greinilegt að dreginn hefur verið lærdómur af veðrinu í desember 2019. Sem betur fór fór mun betur en á horfðist hjá okkur og raunar annarsstaðar á landinu líka. Veðrið hér varð betra en spáð hafði verið og ekki heyrði ég af tjóni í sveitarfélaginu.

Á laugardagskvöldinu leit ég síðan við í hófi sem haldið var í húsnæði Handbendis brúðuleikhúss í Eyrarlandi. Var hófið haldið í tilefni af brúðulistahátíðarinar HIP Fest sem haldin var um helgina. Það var gaman að hitta Gretu, Sigurð og listamennina og sjá þær breytingar sem gerðar hafa verið á húsnæðinu. Veit ekki hvort fólk áttar sig á því að þar er rekið atvinnuleikhús. Ekki mörg sveitarfélög á landsbyggðinni sem státa af slíkri starfsemi sem er auk þess marg verðlaunuð. Handbendi er m.a. handhafi Eyrarrósarinnar, viðurkenningar sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Það er klárlega eitthvað til að vera stoltur af. Ég vil óska Gretu, Sigurði og listamönnunum öllum til hamingju með vel heppnaða hátíð.

Var efnið á síðunni hjálplegt?