Verum á varðbergi og sýnum náungakærleika

Verum á varðbergi og sýnum náungakærleika

Nú er páskahelgin að ganga í garð og þessa helgi er fólk oft búið að skipuleggja samveru með sínu nánasta fólki fjölskyldu og vinum, en nú er staðan allt önnur. Við erum hvött til að vera heima og ferðast um innan veggja heimilisins, nota tæknina til að hitta fjölskyldu og vini og alltaf er gott að fara í göngutúra.

Það reynir mikið á fjölskyldulífið og líf einstaklinga á þessum tímum. Ég gæti komið með fullt af hugmyndum til ykkar um ýmiskonar afþreyingu en samfélagsmiðlar hafa alveg séð um það og getur það einnig verið álag að hafa ekki hugmyndaflug eða þann metnað til að gera eins og hinir og við förum að gera kröfur á okkur að „standa“ okkur á þessum tíma. Vera fyrirmyndir, syngja, gera æfingar, leika við börnin, taka til, mála og svo margt margt fleira. Við verðum að standa með okkur og vanda okkur við að fara ekki í að metast við aðra, hvað aðrir eru að gera í kringum okkur og láta það draga okkur niður ef við upplifum að við séum ekki eins og hinir. 

Það sem skiptir mestu máli núna er að við stöndum saman um páskana og höldum okkur heima við og leggjumst ekki í ferðarlög nema innanhúss, notum góða veðrið sem búið er að spá um páskana í göngutúra og útiveru i nærumhverfinu. Óhófleg áfengisneysla getur ýtt undir óæskilega hegðun og því gott að forðast það svo að ekki komi upp pirringur sem gæti leitt til ofbeldis.

Það er hægt að gera mjög margt án þess að setja okkur í fjárhagslega erfiðleika eða koma okkur í vandræði þar sem við þurfum að stóla á starfsmenn í framlínunni eins og lögreglu, heilbrigðis- og barnaverndar starfsmenn.

Við ætlum að standa saman og passa upp á hvort annað. Ef við höfum minnsta grun um t.d. heimilisofbeldi ber okkur að tilkynna það þannig að hægt verði að styðja við þær fjölskyldur sem í því lenda, bæði þolendur og gerendur.

Ég hvet okkur því öll að vera á varðbergi gagnvart hvort öðru og sýnum náungakærleika. Við erum jú öll í sama liðinu. 

Gleðilega páska.

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir
sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

 

 

 

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?