Velferðarsjóður Húnaþings vestra fékk höfðinglega gjöf

Frá vinstri :Sr. Magnús Magnússon fulltrúi kirkjunnar, Skúli Einarsson, Ólöf Ólafsdóttir, Sveinbjörg…
Frá vinstri :Sr. Magnús Magnússon fulltrúi kirkjunnar, Skúli Einarsson, Ólöf Ólafsdóttir, Sveinbjörg Pétursdóttir varafulltrúi RKÍ og Jenný Þórkatla Magnúsdóttir fulltrúi félagsþjónustunnar.

Velferðarsjóður Húnaþings vestra fékk á miðvikudaginn höfðinglegan styrk að fjárhæð 370 þúsund krónur frá Tannstaðabakkahjónunum Ólöfu Ólafsdóttur og Skúla Einarssyni. Fjárhæðin er annars vegar afrakstur sölu á bútasaumsteppum sem Ólöf hafði saumað og selt vítt og breitt frá miðju sumri og nú síðast á jólamarkaðnum á Hvammstanga. Og hins vegar var um að ræða hluta aksturskostnaðar sem Skúli hafði fengið endurgreiddan frá Sjúkratryggingum Íslands vegna tíðra Reykjavíkurferða á haustdögum í tengslum við geislameðferð.

Í tilkynningu þakkar stjórn sjóðsins hjónunum á Tannstaðabakka fyrir höfðinglega gjöf og þann fallega hug sem að baki lægi og loks stilltu stjórnin og hjónin sér upp fyrir ljósmyndara eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Var efnið á síðunni hjálplegt?