Norrænt rafíþróttamót

Norrænt rafíþróttamót

Dagana 6.-7. nóvember síðastliðinn var norræna rafíþróttamótið Nordic E-Sport United haldið gegnum Netið, og tóku þátt félagsmiðstöðvar bæði frá Íslandi og Danmörku.

Félagsmiðstöðin Órion á Hvammstanga tók þátt á mótinu, og fóru æfingar fram gegnum netið undir leiðsögn Jóhannesar G. Þorsteinssonar og Aðalsteins Grétar Guðmundssonar, en þeir hafa séð um „Rafíþróttir í Húnaþingi“ sem er félag fyrir alla í Húnaþingi sem hafa áhuga á tölvuleikjaspilun. Þar að auki var Aleksandar Milenkoski fenginn til að halda smá námskeið fyrir krakkana, en hann hefur m.a. keppt í Counter-Strike: Global Offensive (betur þekktur sem CS:GO) í íslensku rafíþróttadeildinni.

Æfingar fóru fram í nokkrar vikur fram að mótinu, og tóku krakkar í 8. – 10. bekk þátt í æfingunum þar sem spilað var CS:GO og Fortnite.

Af mótinu ber þar helst að nefna þá Arnar Finnboga Hauksson og Elvar Orra Sæmundsson úr Grunnskóla Húnaþings vestra sem tóku þátt í CS:GO í tvíliðaleik. Elvar þurfti því miður frá að hverfa í miðri keppni, og þá tók Sindri Þorvaldsson við af honum til loka keppninnar. Þeim þremur gekk nokkuð vel og enduðu á að lenda 2. sætinu í sínum flokki.

Þau sem hafa áhuga á rafíþróttum eða tölvuleikjum almennt er bent á Facebook síðu „Rafíþrótta í Húnaþingi“. Að lokum má þess geta að næsta á döfinni hjá félaginu er að halda „innanbæjarmót“ í Húnaþingi, en það verður auglýst betur þegar nær dregur.

Var efnið á síðunni hjálplegt?