Ljósleiðari – staða framkvæmda í Húnaþingi vestra

Ljósleiðari – staða framkvæmda í Húnaþingi vestra, nóvember 2016

Sótt var um styrk til lagningar ljósleiðara í Húnaþingi vestra í verkefnið Ísland Ljóstengt í apríl sl.  Annars vegar var sótt um styrk vegna lagningar í Miðfirði, Hrútafirði, Fitjárdal og Víðidal og hins vegar vegna lagningar um Vatnsnes.  Styrkur fékkst fyrir fyrrnefnda verkefninu en sótt verður aftur um styrk vegna Vatnsness og Vesturhóps á næsta ári.  Verkið hefur verið unnið í samstarfi við Mílu ehf.

Víðidalur

Víðidalur með hitaveitu Þeir aðilar í Víðidal sem fá hitaveitu á þessu ári getað reiknað með að hafa möguleika á tengingu við ljósleiðara í upphafi næsta árs.  Þeir aðilar í Víðidal sem fá hitaveitu á næsta ári geta reiknað með að hafa möguleika á tengingu við ljósleiðara í upphafi árs 2018

Fitjárdalur.  Leiðin hefur verið teiknuð og fornleifaskráð.  Eftir á að semja við verktaka um lagningu, er á áætlun 2017

Línakradalur

Lagningu ljósleiðara er lokið í Línakradal og á þeim bæjum sem þar eru í kring og hafa notendur möguleika á tengingu við ljósleiðara.

Hrútafjörður

Hrútafjörður norðan Reykjatanga: Aðilar í Hrútafirði norðan Reykjatanga sem fengu hitaveitu á síðasta ári hafa enn ekki tækifæri til að tengjast þar sem Míla ehf. þarf að uppfæra búnað í símstöð og eru samningaviðræður þess lútandi í gangi.  Stefnt er að lagningu ljósleiðara að Bálkastöðum á Heggstaðanesi á næsta ári.

Hrútafjörður sunnan Reykjatanga:  Áætlað er að leggja hitaveitu í Hrútafirði sunnan Reykjatanga árið 2018 / 2019 ef rannsóknir sýna að nægilegt vatn náist á svæðinu.  Þá verður lagður ljósleiðari samhliða og hann tengdur við símstöð á Stað. 

Hrútafjörður vestan.  Míla hefur lagt ljósleiðarastreng með Orkubúi Vestfjarða á flesta bæi norðan við Laugarholt.  En enn á eftir að leggja í Víkurbæi og er það verk á áætlun á þessu ári. Einnig á eftir að leggja frá dæluhúsi á Laugarholti suður að Fjarðarhorni ásamt Borðeyri.  Stefnt er að því á næsta ári.

Reykjatangi:  Verktaki er að leggja ljósleiðara á Reykjatanga.  Búið er að leggja í neðri hlutann og klárast efri hlutinn í haust.

Miðfjörður

Þeir aðilar sem fengu hitaveitu í Miðfirði á síðasta ári hafa nú allir kost á að tengjast ljósleiðara.  Einhverjir eiga eftir að greiða stofngjald og semja við fjarskiptafyrirtæki um þjónustuna og eru þeir hér með hvattir til að gera það hið fyrsta.  

Melstaður, Svertingsstaðir, Barð og Sandar í Miðfirði fá hitaveitu á næsta ári og verður ljósleiðari lagður samhliða.  Þeir aðilar ættu að geta tengst ljósleiðara í upphafi árs 2018.

Vesturárdalur, Miðfjörður innri.   Lagður hefur verið ljósleiðari út úr lögn Orkufjarskipta í Vesturárdal og stendur tengivinna yfir.  Um er að ræða Skeggjastaðir, Kollafoss og Fosshóll.

Núpsdalur, Miðfjörður innri.  Stefnt er að lagningu ljósleiðar í Núpsdal í Miðfirði á næsta ári.

Vatnsnes og Vesturhóp

Leiðin um Vatnsnes og Vesturhóp hefur verið forhönnuð en fornleifaskráning á eftir að fara fram.  Áætlað er að hefja vinnu við lagningu ljósleiðara á Vatnsnesi og Vesturhópi ekki síðar en árið 2018 ef styrkur fæst úr verkefninu Ísland ljóstengt.

Var efnið á síðunni hjálplegt?