Kæru íbúar Húnaþings vestra

Kæru íbúar Húnaþings vestra

Enn erum við að glíma við þessa skæðu veiru sem hefur svo mikil áhrif á okkur öll. Núna erum við þó á öðrum tíma en í vor þegar við fundum fyrir því þegar daginn tók að lengja, vorið og sumarið á næsta leiti. Í dag finnum við meira og meira fyrir dimmunni og vetrinum sem getur reynst fólki erfitt. Fólk spyr sig, hvernig verður aðventan og hvernig verða þessi blessuðu jól, megum við hitta fólkið okkar, ættingja og vini? Hvernig á að undirbúa hátíð ljóss og friðar, hvernig á maður að kaupa jólagjafir? Já spurningarnar geta verið svo endalausar þegar svona óvissutími hangir yfir okkur. En hvað getum við gert til að dreifa huganum á jákvæðan hátt?

Ein leið til þess er að forðast neikvæðar fréttir, við þurfum kannski ekki að horfa og hlusta á alla fréttatímana, kannski er nóg að gera það bara tvisvar yfir daginn. Gott er að finna hvað er það sem nærir mig á andlegan hátt, gæti verið spjall í síma eða í gegnum myndskilaboð við ættingja og vini, kannski að setja sér markmið að heyra í 2 – 4 aðilum á viku fyrir utan þá allra nánustu eins og börn og foreldra sína. Hver eru mín áhugamál sem ég gæti sinnt vel núna, getum við hlustað á tónlist og dansað, spilað, skoðað gamlar ljósmyndir. Megum við ekki bara byrja fyrr að setja ljós út eða í glugga og lýsa aðeins upp skammdegið. Ég hef þá trú að ef við tökumst á við þetta með þeirri samheldni eins og við sýndum í  vor þá verður aðventan okkur góð og jólin yndisleg.

Það er hægt að heyra í aðilum í gegnum síma eða með tölvupósti, hér í Húnaþingi vestra er hægt að heyra í undirritaðri í síma 455-2400 eða í gegnum netfangið; jenny@hunathing.is, Henrike, félagsráðgjafa, í síma 455-2400 eða í gegnum netfangið; henrike@hunathing.is,  sr. Maríu Gunnardsóttur sem er að leysa sr. Magnús af í síma 698-5257 eða í gegnum netfangið; maria@biskup.is og sr. Guðna Þór í síma 694-4136 eða í gegnum netfangið; srgudni@mmedia.is. Við erum öll til taks til að leiðbeina, hlusta og líka til að spjalla.

Gerum allt sem við getum til að halda áfram að vera jákvæð og bjartsýn.

 

Jenny Þ. Magnúsdóttir

sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Var efnið á síðunni hjálplegt?