Í vikulok

Í vikulok

Í vikulok.

Nú fer að ljúka viku sem hefur haft mikil áhrif á daglegt líf okkar hér í Húnaþingi vestra.

Aðfaranótt mánudags tók gildi samkomubann sem stendur næstu fjórar vikur, eða til 13. apríl.  Var bannið sett á til að hefta útbreiðslu veirunnar skæðu. Hér í Húnaþingi vestra höfum við ekki farið varhluta af henni því í vikunni greindist fyrsta smitið hjá okkur og í framhaldinu voru 220 starfsmenn og nemendur Grunnskóla Húnaþings vestra sett í sóttkví.  Nú hafa tvö smit verið greind og yfir 230 einstaklingar komnir í sóttkví í sveitarfélaginu af þeim sökum. 

Sveitarfélagið vinnur eftir viðbragðsáætlun sem miðar m.a. að lágmörkun á útbreiðslu veirunnar og  að halda órofnum rekstri í grunnþjónustu sveitarfélagsins. Skerða hefur þurft ýmsa þjónustuþætti og loka stofnunum sveitarfélagsins fyrir gestum. Starfsfólk sveitarfélagsins sinnir eftir sem áður þjónustu við íbúa í gegnum síma, með tölvupósti og fjarfundum. Við vonum að íbúar  sýni þessu skilning því mikilvægt er að vernda starfsfólk sveitarfélagsins svo hægt sé að sinna mikilvægri grunnþjónustu á komandi vikum. 

Í  aðstæðum sem þessum skiptir miklu máli að við hlúum vel hvert að öðru og okkar nánustu ættingum og vinum.  Nú er komin helgi og við hvetjum til skemmtilegra samverustunda með fjölskyldunni heima við. Með hjálp snjalltækja  er hægt að spjalla í mynd við vini, ömmur og afa sem ekki er hægt að heimsækja næstu vikur. Látum hugann reika og finnum upp á ýmsu skemmtilegu sem við getum gert án þess að hittast í návígi.

Það gæti til dæmis verið gott að hvíla sig á fréttamiðlum um stund og njóta þess að horfa eða hlusta á þá fjölmörgu listamenn og menningarstofnanir  sem hafa tekið tæknina í sínar hendur og bjóða upp á afþreyingu á vefnum, eða taka þátt í einhverjum af þeim viðburðum sem fitjað hefur verið uppá þar s.s. hreyfingu, jóga og fjölmörgu öðru.  Öllu þessu fólki ber að þakka þeirra framlag við að stytta okkur stundir á þessum undarlegu tímum. 

Höfum i huga:

  • Gott að draga  djúpt inn um nefið og út dæsa út um munninn.
  • Svefn skiptir miklu máli, ekki fara seint að sofa.
  • Hugum að hreyfingu því hún er mikilvæg bæði andlegri og líkamlegri heilsu
  • Útivera er besta hreyfingin í þeim aðstæðum sem við erum í  því þrátt fyrir samkomubann og sóttkví þá má fara út að ganga en fylgjum ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda og  lágmörkum samskipti og samneyti við fólk :) 

Að lokum vil ég þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir að bregðast skjótt við breyttu starfsumhverfi og takast á stuttum tíma að aðlaga störf sín nýjum veruleika.  Einnig vil ég þakka íbúum skilning á þeim aðstæðum sem við höfum verið að glíma við og hafa íbúar Húnaþings vestra enn og aftur sýnt æðruleysi og samstöðu á ófyrirsjáanlegum tímum.

Já vittu til, staðhæfir vorið,
að vetrinum þoka ég frá.
Þótt enn hvíli blómin í blundi
og bleik séu úthagans strá.
Ég vildi þau vekja og hressa
en veit það er fullsnemmt um sinn.
Því geri ég holur í hjarnið
og hleypi þar sólinni inn.

(Böðvar Guðmundsson)

Njótum helgarinnar, kær kveðja. 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?