Hugleiðing úr Húnaþingi vestra

Hugleiðing úr Húnaþingi vestra

Hér birtist hugleiðing Guðrúnar Láru Magnúsdóttur sem er leikskólastjóri í Leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi vestra og með diplómu í jákvæðri sálfræði.  Á heimili Guðrúnar Láru eru tveir einstaklingar smitaðir af Covid-19.

 

Í útvarpinu hljómar: Öll við erum samferða, hvert sem liggur leið torfær eða greið. Við fórum svo sannarlega að krafti inn í það sem við stöndum frammi fyrir núna. Er það ekki lýsandi fyrir okkar samfélag Húnaþing vestra?

Hjá okkar býr mikil þrautseigja og drifkraftur, sem við munum grípa til, nákvæmlega núna, strax í dag. Það leggjast allir á árarnar þegar þess þarf og ef eitthvað er, hef ég upplifað. Við stefnum öll að því markmiði sem við setjum okkur, og það er að hefta útbreiðslu á sjúkdóm sem er lítið vitað um, að minnsta kosti í byrjun. Það keppast margir um að ná athygli okkar og vilja upplýsa um hvernig veiran hagar sér. Sumt af því er reyndar bara rusl-fréttir, annað áreiðanlegt. Því er gott að takmarka hvað við erum að lesa og hlusta á.

Bestu upplýsingarnar sem við fáum koma frá skyttunum þremur, eins og ég kýs að kalla þau, Víði, Þórólfi og Ölmu kl. 14 hvern dag í sjónvarpinu. Þau eru áreiðanleg, vekja traust og búa yfir þekkingu sem þau miðla til okkar, með miklu öryggi. Húrra fyrir þeim. Heimasíða sveitafélagsins er á sama hátt upplýsandi í okkar aðstæðum.

Nú þurfum við að velja úr. Til dæmis ætti að forðast að taka inn of mikið af fréttum sem geta aukið á vanlíðan og kvíða. Í stað þess ættum við að spyrja okkur: Hvað get ég gert í þessum aðstæðum, sem upp eru komnar?

Rannsóknir sýna okkur að við getum sjálf haft ótrúlega mikil áhrif á líðan okkar, og ekki síður aukið á hamingju okkar. Þegar á reynir í lífinu getum við valið að halda áfram eða gefast upp. Í mínu lífi hef ég tekið meðvitaða ákvörðun að halda lífsgöngunni áfram með eins lítilli truflun og hægt er, og til þess að gera það þarf ég að vinna markvisst í því. Það eru ýmis verkfæri sem ég nota. Til að mynda set ég upp stundaskrá til að halda mér við efnið yfir daginn. Ég þarf að halda svefntíma mínum í rútínu, og ekki freistast til að breyta honum frá því þegar ég fer til vinnu næsta morgun. Ég þarf að hreyfa mig (finna nýjar leiðir í því, því ég var orðin háð því að mæta í tíma hjá Sveinbjörgu). Halda í forvitnina, læra eitthvað nýtt, núna er ég til dæmis að tileinka mér nýja tækni í tölvunni til að halda góðum tengslum við vinnufélagana og fjölskylduna. Setja mér ný markmið, þessa stundina fer út í bílskúr tvær klst. á dag, fer yfir kassa og endurskipuleggja og það er svo gaman að rifja upp ýmsar minningar sem koma upp úr kössunum. Ég gef mér tíma á hverjum degi til að hafa samband við fjölskylduna og vini, gef af mér til annarra, rækta tengslin. Vissulega hefjast samtölin á spjalli um það sem er efst á baugi akkúrat núna í þjóðfélaginu. Þá er bara að gefa því stuttan tíma og fara síðan í aðal-umræðuefni.

Fregnin kom eins og þruma úr heiðskýru lofti inn á mitt heimili um að fjölskyldumeðlimur væri smitaður, ekki bara einn heldur tveir, það var ákveðið „áfall“. Nú voru góð ráð dýr, hvernig og hvað á ég að gera í þessum aðstæðum. Ég tók smá tíma í að hugsa þetta og hlúa að mínu fólki. Eftir það hugsaði ég sem svo að ég er sjálf stjórnandi yfir mínum líkama og sál og læt engan hafa þar áhrif annan en sjálfan mig. Það er hamingju-aukandi að sýna þakklæti og það hef ég svo sannarlega gert því að fólkið mitt er komið til heilsu. Meðan þau voru veik þurfti að hafa til mat og því tengt var hægt að lauma inn kærleika með á bakkanum. Það er svo ótal margt sem við getum þakkað fyrir. Hugsum til allra þeirra sem eru að láta hjólin snúast hér í samfélaginu, það er gert af kærleika og væntumþykju.

Íbúar í sveitafélaginu sem eru smitaðir gera grein fyrir því á facebook að þeir eru smitaðir og er þá hægt að rekja betur smitleiðir, frábært framtak, takk fyrir ykkar framlag.

Að skrifa dagbók á hverjum degi og skrifa niður hugrenningar sínar á svona tímum er gagnlegt og skrá niður hvað þú ert þakklátur fyrir eftir daginn. Sýndu sjálfum þér væntumþykju gerðu eitthvað gott fyrir sjálfan þig eins og að útbúa hollan og góðan morgunmat, hann hjálpar þér að fá þá næringu sem þú þarft á að halda. Gerðu eitthvað sem þú veist að er uppbyggilegt fyrir þig, líkama og sál. Sýnum í verki væntumþykju og verum góð hvert við annað. Öll við erum samferða, á einhvern hátt, hvert sem liggur leið, í þessu sem öðru, sem á vegi okkar verður. Sólin var á lofti í dag tókstu, eftir henni?

Stórt faðmlag og kærleikskveðja Guðrún Lára.

 

Guðrún Lára Magnúsdóttir er leikskólastjóri í Leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi vestra og með diplómu í jákvæðri sálfræði.

Var efnið á síðunni hjálplegt?