Frá Tónlistarskóla Húnaþings vestra

Þann 8. apríl síðastliðinn voru vorpróf og vortónleikar í grunnskólanum á Borðeyri og á morgun, þann 11. maí kl. 17:00, verða vortónleikar í félagsheimilinu Ásbyrgi. Þar verða 5 nemendur úr 10. bekk sem koma fram og spila saman. Laugardaginn 12. maí verða svo aðrir þrennir tónleikar í Ásbyrgi frá kl. 13 – 17.
Alls eru 119 nemendur sem koma fram á tónleikum Tónlistarskólans á þessu vori. Fjórir nemendur hafa lokið grunnprófi í vetur, auk þess sem fjöldi nemenda hefur tekið stigspróf.

Haldnir eru tónleikar reglulega yfir árið í skólanum en að auki hafa nemendur komið fram á Bóka- og skjalasafni Húnaþings vestra á degi Íslenskrar tungu þann 16. nóvember og í mars síðastliðnum tók Tónlistarskólinn þátt í Nótunni – uppskeruhátið tónlistarskóla sem haldin var á Akranesi. Þar tóku fimm nemendur þátt í þremur atriðum.

Við höfum haft marga kennara í vetur vegna ýmissa ástæðna. Í haust komu tveir nýjir kennarar til skólans; Ólafur Einar Rúnarsson og Kristín Kristjánsdóttir. Vigdís Gígja Ingimundardóttir var ráðin í veikindarforföllum Ólafar Pálsdóttur um mitt haust fram að áramótum. Guðmundur Hólmar Jónsson fór í fæðingarorlof þann 15. febrúar og í stað hans kom Ásgeir Trausti Einarsson. Aðrir kennarar eru Ólöf Pálsdóttir sem kom aftur til starfa um áramót og að auki hefur Elinborg Sigurgeirsdóttir, skólastjóri Tónlistarskólans einnig séð um kennslu.

Við bjóðum gesti velkomna á vortónleika Tónlistaskóla Húnaþings vestra.

Var efnið á síðunni hjálplegt?