9. janúar 2023

Vikan 2.-8. janúar 2023

Enn eitt árið liðið og nýtt ár hafið. Mér finnst áramót alltaf merkileg tímamót og þá einkum þar sem horft er fram á nýtt ár, óskrifað blað. Þá er einnig venja að líta um öxl og fara yfir farinn veg. Það má segja að nýliðið ár hafi verið viðburðarríkt í mínu lífi, svo ég byrji nú á persónulegu nótunum. Til viðbótar við fjölmargar góðar og gefandi samverustundir með mínu fólki þá er þrennt sem ber hæst. Ég varð amma í fyrsta skiptið í byrjun maí og get staðfest að allt það dásamlega sem fólk segir um þau tímamót er rétt, og rúmlega það. Í júní útskrifaðist ég með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Í lok sumars skrifaði ég svo undir ráðningasamning um starf sveitarstjóra í minni heimabyggð. Ég lýk því árinu 2022 stútfull af þakklæti og tekst bjartsýn á við nýtt ár.

Eftir tveggja vikna skemmri skírn á dagbókinni á formi jóla og áramótakveðja þá hefur hefðbundin dagbók göngu sína að nýju. Sem fyrr fer ég yfir helstu verkefni vikunnar. Þó svo að fyrsta vika eftir áramóti sé alla jafna ekki mjög viðburðarrík í stjórnsýslunni þá var þó ýmislegt sýslað. Eftir góða vinnutörn á mánudagsmorgni þar sem ég meðal annars undirbjó landbúnaðarráðsfund þá var fyrsti byggðarráðsfundur ársins eftir hádegið. Á fundinum var meðal annars farið yfir bréf frá mennta- og barnamálaráðherra sem barst um miðjan desember. Í því var farið yfir þær breytingar sem urðu á barnaverndarmálum um áramótin. Bréfið barst full seint fannst mörgum og vorum við þegar það barst á lokasprettinum með að ganga frá málum í tengslum við breytingarnar. Eins og fram kom í fréttum um helgina er með breytingunni m.a. verið að leggja niður barnaverndarnefndir sem í sitja pólitískir fulltrúar, svæði barnaverndarþjónusta eru stækkuð til að auka á faglegt bakland og gefa meiri tækifæri á fjarlægð sem er smærri samfélögum mikilvægt. Einnig voru stofnuð umdæmisráð barnavernda sem hafa úrskurðarvald í þeim málum sem ekki næst sátt um. Hvað barnaverndarþjónustu áhærir þá stofnuðum við ásamt öðrum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra og Fjallabyggð, Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands með Skagafjörð sem leiðandi sveitarfélag. Samningur um verkefnið var staðfestur af ráðuneytinu 30. desember sl. Nokkrum dögum áður var gengið frá samningi um Umdæmisráð landsbyggðana með þátttöku vel flestra sveitarfélaganna á landsbyggðinni. Við bindum miklar vonir til þessa samstarfs og erum þess fullviss að með því erum við að bæta þjónustu í þessum mikilvæga málaflokki til muna.

Á byggðarráðsfundinum var einnig lögð fram uppfærð húsnæðisáætlun fyrir Húnaþing vestra. Sveitarfélögum er skylt að skila inn húsnæðisáætlun árlega. Fyrsta áætlunin var unnin á síðasta ári (sjá hér) og er sú nýja byggð á henni með uppfærðri mannfjöldaspá. Staðreyndin varð nefnilega sú að fjölgun í sveitarfélginu varð í takt við háspá áætlunarinnar og því var sú spá gerð að lágspá og mið- og háspár hækkaðar. Vinna sem þessi er afar gagnleg til að hægt sé að sjá hvort lóðaframboð er í takt við þörf og einnig hvort innviðir séu til staðar til að mæta fólksfjölgun, svo sem leikskólapláss, geta grunnskóla til að taka við nemendum, hjúkrunarrými og svo framvegis. Ráðið vísaði áætluninni til sveitarstjórnar. Að loknu samþykki verður hún sett inn á vef sveitarfélagsins. Nánar um það síðar.

Fundargerð byggðarráðsfundarins er aðgengileg hér.

Á þriðjudeginum skaust ég til Reykjavíkur sumpart í persónulegum erindagjörðum um en líka til embættisverka. Ég útréttaði ýmislegt fyrir sveitarfélagið og hitti svo fyrir Daníel framkvæmdastjóra Samtakanna ’78. Undirrituðum við samstarfssamning samtakanna og Húnaþings vestra til þriggja ára. Með samningnum formgerum við umfangsmikla fræðslu til starfsmanna grunn- og leikskóla, nemenda í ákveðnum bekkjardeildum og stjórnenda sveitarfélagsins. Er því um að ræða mikilvægt skref í að samfélagið styðji enn betur við hinsegin íbúa sveitarfélagsins.

Miðvikudagsmorgunn fór í nokkra styttri fundi og skrifborðsvinnu. M.a. undirbúning fundargerðar landbúnaðarráðs sem fundaði eftir hádegið (sjá fundargerð). Um morguninn fórum við einnig yfir nýkomnar fyrstu tillögur að breytingum á elstu íbúðum í Nestúni. Það er ánægjulegt að það verkefni er að komast á rekspöl. Leist okkur ágætlega á tillögurnar og þær fara fljótlega í kynningu til íbúa Nestúns og Öldungaráðs. Það sem eftir lifði dags fór í ýmis smáverkefni, t.d. samþykkt reikninga, beiðni um tilboð í nýjan fjarfundabúnað í fundarsal Ráðhússins, leyfismál vegna þrettándabrennu, tölvumál o.s.frv. Smáverkin eru þegar þau eru dregin saman ansi drjúg.

Á fimmtudeginum bar hæst stöðufund með verkfræðistofunni Eflu með sveitarfélögunum í Húnavatnssýslunum vegna fyrirhugaðs sorpútboðs. Eins og fram hefur komið í fréttum eru sorpmál að taka nokkrum breytingum og gerðu raunar um nýliðin áramót. Á síðasta ári var ákveðið að sveitarfélögin í sýslunum byðu verkefnið út saman til að leitast við að ná fram aukinni hagkvæmni. Gerð útboðsgagna sem þessara er flókin og því var Efla fengin til verksins. Því miður náðist ekki að ljúka vinnunni fyrir áramót en sér fyrir endann á henni. Ekki er þó ljóst hvenær henni lýkur en ágætt að íbúar séu meðvitaðir um það að síðar á árinu muni verða breytingar á úrgangsmálum í sveitarfélögunum. Þangað til verða þau með óbreyttu sniði. Á fimmtudeginum átti ég einnig fund með sveitarstjóra Húnabyggðar og oddvita Skagabyggðar vegna sameiginlegra embætta byggingar- og skipulagsfulltrúa. Samstarfið hefur staðið í u.þ.b. ár og því gott að leggja mat á hvernig gengið hefur. Við munum hittast aftur á fundi í næstu viku og halda áfram skoðun á verkefnunum.

Föstudagurinn hófst eins og jafnan á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Fórum við yfir dagskrá næsta byggðarráðsfundar og ýmis mál. Það er nauðsynlegt að taka stöðuna reglulega og þessir vikulegu fundir eru mér afar mikilvægir í mínu starfi. Auðvitað heyrumst við þess á milli um þau mál sem brýnt er að bregðast við strax en það er tímasparnaður fyrir alla að safna málum saman sem mega bíða. Á föstudagsmorgninum fundaði ég jafnframt með rekstrarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs um framkvæmdir ársins. Var fundurinn sá fyrsti í uppsetningu verkáætlunar fyrir árið til að tryggja að engin verkefni falli á milli þilja og vinnan verði sem markvissust. Við hittumst aftur að viku liðinni til að halda vinnunni áfram. Eftir hádegið sinnti ég svo ýmsum málum, bréfaskriftum, vinnslu ýmissa minnisblaða um hitt og þetta o.s.frv.

Á föstudagskvöldinu stóð Björgunarsveitin Húnar fyrir þrettándabrennu við Höfða. Við fjölskyldan litum við. Krakkarnir fengu stjörnuljós og það var gaman að hitta sveitunga sem komu til að eiga notalega stund. Ég vil þakka Björgunarsveitinni fyrir framkvæmdina við brennuna sem og við flugeldasýninguna á gamlárskvöld sem var einkar glæsileg.

Helgin einkenndist af rólegheitum. Ég var svo heppin að fá að passa ömmustelpuna mína hana Sóldísi Yrju á laugardeginum og húsverkin fengu svo athygli á sunnudeginum. Í bland við smá vinnu á heimaskrifstofunni. Mér finnst ágætt að skrifa dagbókina á sunnudögum og um leið undirbúa mig fyrir komandi viku. Á sunnudeginum brá ég mér svo í VSP húsið á fyrstu félagsvist Kvennabandsins. Ég fór á jólafund Umf. Grettis milli jóla og nýárs og það rifjaðist þar upp fyrir mér hvað félagsvist er skemmtileg. Ég ákvað því að drífa mig. Spilað var á 5 og hálfu borði, frábær skemmtun. Næst verður spilað sunnudaginn 15. janúar í Ásbyrgi. Svo verður gert hlé yfir þorrablótavertíðina. Spilað verður 26. febrúar á Borðeyri, 5. mars í Víðihlíð og 12. mars í VSP húsinu. Ég mun nú ekki komast á öll skiptin en ætla að mæta þegar ég get. 

Á sunnudagskvöldinu að afloknum veðurfréttum fundaði ég með skólastjórnendum og sviðsstjóra fjölskyldusviðs vegna veðurviðvarana. Verklag segir til um að þegar viðvaranir eru gefnar út þá skuli meta kvöldið áður stöðuna með tilliti til skólaaksturs. 

Ég vil við lok þessarar fyrstu dagbókarfærslu ársins 2023 óska íbúum Húnaþings vestra gleðilegs árs. Ég þakka kærlega fyrir gott samstarf og þær góðu viðtökur sem ég hef fengið í starfi. Ég held ótrauð áfram í vinnu minni við að efla okkar góða samfélag enn frekar.

Var efnið á síðunni hjálplegt?