Almennur fundur í Fjallskiladeild Víðdælinga

Almennur fundur í Fjallskiladeild Víðdælinga fjallskilastjórnar haldinn fimmtudaginn 6. apríl 2017 kl. 21:40 Víðigerði.

Starfsmenn

Maríanna Eva. Ragnarsdóttir formaður, Sigtryggur Sigurvaldason fundarstjóri, Júlíus Guðni Antonsson 

Fundargerð ritaði: Sigríður Ólafsdóttir

Maríanna Eva. Ragnarsdóttir, formaður, setti fund og stakk upp á Sigtryggi Sigurvaldasyni sem fundarstjóra og Sigríði Ólafsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.

  1. Skýrsla stjórnar og reikningar:

Formaður ræddi helstu atriði s.s. tímasetningu gangna en gangnamenn lentu í þoku síðasta haust og seinkaði göngum sem því nemur. Aldrei hafa verið eins fá hross á afrétt. Upprekstur var leyfður óvenju senmma vegna góðs vors. Bæta þurfti við fólki í seinni göngum vegna hrossa sem urðu eftir í fyrri göngum. Gengið hefur verið frá samkomulagi við umráðamenn Litlu-Hlíðar vegna heimalandasmölunar.

Víðidalstungurétt var máluð sumarið 2016 og skipt um töluvert af staurum í Valdarásrétt.

Almennu viðhaldi skála var sinnt og Júlíus Guðni Antonsson sá um útleigu þeirra.

Fjárveiting fékkst til að grafa upp úr skurðum við Hvarfskvísl, tókst það bærilega. Sagt frá nauðsynlegum vegabótum sem eru framundan.

Viðhald á heiðargirðingum var með hefðbundnu sniði.

Hollvinafélag Víðidalstunguheiðar setti upp skilti við veginn ásamt því að sinna ýmsum viðhaldsverkefnum.

Júlíus Guðni skýrði frá reikningum. Heildartekjur voru 2.605.527 kr og eru fjallskil þar langstærstur hluti. Heildargjöld voru 2.950.452 kr og tap af rekstri þar með 344.925 kr. Skuld við Sveitarsjóð er 219.066 kr.  

   2. Umræður um skýrslu stjórnar, reikninga og önnur mál:

Pétur Þ. Baldursson spurði hvaða framkvæmdir væru fyrirhugaðar árið 2017. Gagnrýndi nýtt fyrirkomulag við heimalandasmölun og taldi að það passaði illa við smalamennskur austan megin í fjallinu.

Arnþór Guðlaugsson ræddi um blóðtökuhross sem ganga í heimalöndum en fara ekki á heiði. Spurði hvernig fyrirkomulag væri á fjallskilum af hrossum og hvort hægt sé að koma til móts við þá sem halda hrossin sín heima t.d. með meiri afslætti á þau hross.

Júlíus Guðni svaraði komnum fyrirspurnum. Skipta á um milligerðir sem eftir er að endurnýja í Víðidalstungurétt. Taldi matsatriði hverju sinni hvort heimalandasmölun verði fyrir eða eftir seinni göngur. Skýrði frá fyrirkomulagi varðandi fjallskil af hrossum.

Arnþór velti fyrir sér hvort fjallskil af hrossum geti haft áhrif á það að blóðtaka er minni í Húnaþingi vestra en víða annars staðar á landinu.

Sigtryggur tók undir með Pétri varðandi tímasetningu heimalandasmölunar. Minntist á að blóðtaka væri mögulega minni hér þar sem bændur nýta heiðina undir hross yfir sumartímann til að spara heimalönd.

Birgir Ingþórsson greindi frá fjallskilum austan fjalls. Benti á að það geti verið ólögmætt af sveitarfélagi að leggja kostnað fastanefnda á fjallskiladeildir. Þar eru eingöngu greidd fjallskil af hrossum sem fara á heiði og hefur fjöldi hrossa á afrétti minnkað undanfarin ár. Taldi að endurskoða þyrfti reglur um fjallskil hrossa. Tók undir með Pétri og Sigtryggi varðandi tímasetningu heimalandasmölunar. Benti á að Landgræðslan sé ekki hlynnt því að hross gangi á heiðum.

Ingveldur Linda Gestsdóttir ræddi um tímasetningu heimalandasmölunar. Taldi að betra væri að hafa heimalandasmölun á undan seinni göngum eins og verið hefur síðastliðin tvö ár. Taldi fjallskil ekki vera ástæðu fyrir lítilli þátttöku í blóðtöku í Húnaþingi vestra.

Ingvar Friðrik Ragnarsson ræddi um tímasetningu heimalandasmölunar. Lýsti sig sammála Ingveldi og vildi hafa heimalandasmölun á undan seinni göngum. Taldi að ekki væri nauðsynlegt að hafa seinni göngur á sama tíma og í Vatnsdalnum. Taldi að fjallskil væru ekki ástæða fyrir lítilli blóðtöku í Húnaþingi vestra. Benti á að fjallskilastjórn gæti nýtt sér rafræn samskipti í meira mæli til að halda niðri fundarkostnaði.

Elín Líndal ræddi um kostnað við smalamennskur. Nefndi að fjármunir þurfi að koma inn til að hreinsa heiðar og að aldrei verði allir á eitt sáttir um hvaða leið verði farin. Taldi að skoða þurfi lögmæti þess að fundarkostnaður sé greiddur af fjallskiladeildum fremur en sveitarfélaginu.

Júlíus Guðni svaraði komnum fyrirspurnum. Benti á að fyrir liggja skýrslur frá Landgræðslunni varðandi gott gróðurfar á Víðidalstunguheiði. Benti á að fjallskil af hrossum eru hærri í Vatnsdal en í Víðidal. Benti á að alltaf væri hægt að ræða tímasetningar á heimalandasmölunum. Taldi að ekki væri nauðsynlegt að vera samsíða Austur-Húnvetningum í seinni göngum. Útlistaði nánar útreikninga á fjallskilum.

Sigríður Ólafsdóttir lýsti sig samþykka Ingu og Ingvari og vildi hafa fyrri heimalandasmölun á undan seinni göngum.

Pétur ítrekaði ósk sína um að fyrri heimalandasmölun yrði á eftir seinni göngum.

Birgir ræddi um álagningu fjallskila á jarðir. Benti á að hugsanlega væri ekki leyfilegt að leggja beinan smölunarkostnað á landverð. Ræddi um kostnað við að sækja fé í aðrar réttir.

Sigtryggur benti á að það væri sérstakt ef fjallskilasamþykktir, sem fara til umsagnar í landbúnaðarráðuneytinu, standist ekki lög þegar á reynir.

Maríanna velti fyrir sér hvort landeigendur í fjallinu gætu mögulega samræmt sig. Taldi að eðlilegast sé að vinnu við fjallskil sé skipt á sem flesta landeigendur. Var sammála Ingvari um að nýta rafræn samskipti meira við vinnu stjórnar.

 

Fleira ekki rætt, fundi slitið klukkan 23:00. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?