Tilkynning frá sveitarstjórn Húnaþings vestra

Áfram hagnaður í Húnaþingi vestra

Ársreikningur sveitarsjóðs Húnaþings vestra og fyrirtækja fyrir árið 2013 var samþykktur á fundi sveitarstjórnar þann 16. apríl 2014.

Niðurstaða ársreiknings Húnaþings vestra og fyrirtækja fyrir árið 2013 er mjög ánægjuleg en afgangur frá rekstri samstæðu A- og B-hluta var samtals 105 millj. kr. samanborið við jákvæða afkomu ársins 2012 að fjárhæð kr. 51,2 millj. Frá því að reikningsskilum sveitarfélaga var breytt á árinu 2002 hefur aldrei náðst betri árangur í rekstri sveitarfélagsins en á árinu 2013 eins og niðurstaða samstæðu ársreikningsins staðfestir eða kr. 105 milljónir.

Niðurstaða aðalsjóðs er jákvæð um kr. 83,2 millj. en hafði verið áætluð neikvæð um 2,7  millj. kr. Niðurstaða samstæðu A og B hluta er sem áður segir jákvæð um kr. 105 millj. en hafði verið áætluð jákvæð um 1,6 millj. kr. Rekstrarhagnaður A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er kr. 183,7 millj. Afskriftir  námu alls kr. 43,6 millj. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur hjá A- og B hluta námu alls kr. 32  millj.  Rekstrartekjur voru um 68 millj. kr. hærri en ráð var fyrir gert,  útsvar er  14 millj. kr. hærri en í áætlun  og aðrar tekjur kr. 54  millj. hærri. Rekstargjöld eru 27 millj. kr. lægri en áætlun ársins. Í því sambandi ber að þakka stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir aðhald í rekstri á árinu 2013. Segja má að reglur sem sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkti á árinu 2013 um innra eftirlit með fjármálum sveitarfélagsins hafi þegar skilað árangri m.a. hvað varðar bætta fjármálastjórn og eftirlit með því að fjárhagsáætlunum sé fylgt.

Sé litið til niðurstöðu ársreiknings ársins 2013 hafa markmið sveitarstjórnar Húnaþings vestra um bætta fjármálastjórn náðst og má í því samhengi nefna að engin ný lán voru tekin á árinu 2013 og ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum á árinu 2014.

Skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins á árinu 2013 eru alls kr. 760 millj. og hafa þær lækkað frá árinu 2012 um kr. 58.4 millj. Lífeyrisskuldbindingar nema í árslok 2013 kr. 96,6 millj. langtímaskuldir kr. 518 millj. og skammtímaskuldir kr. 145 millj.   Eigið fé samstæðunnar í árslok 2013 nam kr. 825 millj.   Handbært fé í árslok 2013 var kr. 187.4 millj. en var í upphafi árs kr. 118.5 millj. og hefur það aldrei verið hærra hjá Húnaþingi vestra. Fjárfestingar ársins 2013 voru kr. 28,8 millj. Hlutfall veltufjár frá rekstri samstæðunnar er 14,2%. en viðmið sem gjarnan er haft til hliðsjónar er 10%.

 Samkvæmt viðmiði Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur nefndin afskipti af þeim sveitarfélögum þar sem hlutfall skulda og skuldbindinga af samanlögðum tekjum A- og B hluta er umfram 150%. Í Húnaþingi vestra er þetta hlutfall 64% skv. ársreikningi 2013 en var 76% á árinu 2012 og 84,8% á árinu 2011. Skuldahlutfall samstæðu A- og B-hluta í Húnaþingi vestra hefur aldrei verið lægra frá því að reikningsskilum sveitarfélaga var breytt árið 2002.

Þrátt fyrir glæsilega niðurstöðu ársreiknings Húnaþings vestra fyrir árið 2013 er ástæða til að vara við mögulegum áhrifum ytri þátta á framtíðarrekstur sveitarfélagsins. Þar skal sérstaklega nefna verðbólgu- og launaþróun og vaxtastig en þá þætti þarf sveitarstjórn m.a. að hafa í huga varðandi ákvarðanatöku um rekstur og fjárfestingar á næstu árum. Mikilvægast er að varðveita þann góða árangur sem náðst hefur í fjármálastjórn sveitarfélagsins á síðustu árum og forðast að stefna sveitarfélaginu á braut aukins rekstrarkostnaðar og skuldasöfnunar. Eftirsóknarverðara er að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélagsins enn frekar og leggja þannig grunn að aukinni getu þess til fjárfestinga og framkvæmda með hag íbúanna að leiðarljósi.

Hvammstangi 16. apríl 2014 Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.

Var efnið á síðunni hjálplegt?