Staða sveitarfélagsins góð og í jafnvægi

Staða sveitarfélagsins góð og í jafnvægi

Ársreikningur Húnaþings vestra fyrir árið 2017 var samþykktur í sveitarstjórn laugardaginn 19. maí sl. Helstu niðurstöður eru að rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er jákvæð um kr. 227,9 milljónir, samanborið við kr. 148,8 milljónir árið 2016 og skuldahlutfall er 52,6%.  Þessa góðu niðurstöðu má þakka góðu samstarfi meirihluta og minnihluta, góðu starfsfólki sem og samheldni íbúa sveitarfélagsins.  Ljóst er að fjármagn ætti því að vera til áframhaldandi framkvæmda.

Það helsta sem gert var á árinu 2017:

  • Á árinu 2017 var hitaveituframkvæmdum sem hófust vorið 2015 að mestu lokið.  Þá hefur hitaveita verið lögð frá Laugarbakka inn Miðfjörð að Barkarstöðum og Huppahlíð, Melstað og Söndum.  Frá Laugarbakka, um Línakradal, inn Víðidalinn að Gröf og Miðhópi. 
  • Ljósleiðari var lagður með hitaveitunni en einnig utan hitaveitu um Austurárdal, á Reykjatanga, inn Miðfjörð frá Barkastöðum að Efra Núpi og um Fitjárdal.  
  • Hjá hitaveitunni var unnið að því að skipta út rennslismælum og setja í þess stað orkuígildismæla og er nú innheimt samkvæmt orkuígildi vatnsins í stað vatnsmagns, sem þýðir það að allir sitja við sama borð hvað verð áhrærir á svæði Hitaveitu Húnaþings vestra.
  • Skipt var um rotþró á Laugarbakka og aðveituæð vatnsveitu á Laugarbakka endurnýjuð með brunavarnir í huga.  Lagnir vatnsveitu á Borðeyri voru endurnýjaðar.
  • Nýr og glæsilegur slökkvibíll var afhentur en hann hentar fullkomlega fyrir starfssvæði Húnaþings vestra þar sem eru langar vegalengdir og víða vegslóðar sem bera ekki hefðbundna slökkvibíla.
  • Framkvæmdum og endurbótum við grunnskólann var haldið áfram á árinu 2017 en frá árinu 2014, við flutning grunnskólans á Laugarbakka til Hvammstanga hafa rúmar 80 milljónir verið settar í endurbætur og nýframkvæmdir við húsnæði grunnskólans á Hvammstanga.  Hafist var handa við undirbúning að viðbyggingu við grunnskólann sem einnig á að hýsa tónlistarskólann.
  • Ný göngubrú/skólabrú var smíðuð yfir Syðri Hvammsá sem kemur í stað eldri brúar.  Nýja brúin er bæði mun breiðari, verður upplýst og með þaki þannig að allt aðgengi er auðveldara og öruggara sem og snjómokstur.
  • Undirbúningur viðbyggingu við íþróttahúss var kláraður á árinu 2017 og hafin bygging fyrsta áfanga.    Þá var gólfdúk á íþróttasal skipt út fyrir parket. 
  • Unnið hefur verið við gerð deiliskipulags hafnarsvæðisins á Hvammstanga, deiliskipulags við Kolugljúfur, deiliskipulags við Borgarvirki og breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðra breytinga á brúarstæði yfir Tjarnará á Vatnsnesi.  Vinna hófst skv. skipulagi við gerð nýrrar götu, Lindarveg.  Átta lóðum var úthlutað við Lindarveg á árinu.  Einnig var fimm lóðum úthlutað í þegar skipulögðu hverfi við Bakkatún.  Þá var unnið að undirbúningi að umsókn til mennta- og menningarmálaráðherra um að elsti hluti Borðeyrar verði skilgreindur sem Verndarsvæði í byggð.
  • Ný heimasíða sveitarfélagsins var tekin í notkun með það í huga er að gera upplýsingar aðgengilegri og miðla þannig betri upplýsingum til íbúa sveitarfélagsins og annarra áhugasamra.
  • Farið var í mikið hreinsunarátak í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið og nýtt afgirt geymslusvæði fyrir íbúa útbúið á Kárastöðum.  Endurvinnslutunnum var komið til allra heimila og stofnana sveitarfélagsins. 
  • Keyptar lóðir á Laugabakka sem núverandi byggð stendur á og tvær bifreiðar sveitarfélagsins endurnýjaðar.

 

Sveitarstjóri

Var efnið á síðunni hjálplegt?