Menningarefni til að skoða í samkomubanni og í sóttkví

Menningarefni til að skoða í samkomubanni og í sóttkví

Menningarefni til að skoða í samkomubanni og í sóttkví


Þessa dagana eru flest söfn landsins lokuð, bóka- og skjalasöfn, byggðasöfn og listasöfn og eins er búið að aflýsa viðburðum. Það þýðir þó ekki að við getum ekki notið menningar, því á tækniöld er margt í boði.
Í fyrsta lagi er þó tilvalið að líta yfir bókahillurnar okkar, athuga hvort þar leynist ekki bók sem við áttum alltaf eftir að lesa eða jafnvel góðar bækur sem gaman væri að rifja upp og lesa aftur. Þá er kjörið að grúska á vefnum því svo heppilega vill til að mörg söfn eru með áhugavert efni aðgengilegt á vefnum og því tilvalið að skoða þá gagnagrunna. Mörg skjalasöfn eru t.d. með ýmislegt fróðlegt efni og myndir og byggðasöfnin og listasöfnin halda úti sameiginlegum menningarlegum gagnagrunni, Sarpinum.


Hér að neðan eru nokkrar áhugaverðar menningarlegar vefsíður og annað skemmtilegt efni:


Sarpur
-menningarsögulegt gagnasafn:
www.sarpur.is

Sarpurinn er sameiginlegur gagnagrunnur og menningarsögulegt gagnasafn margra safna landsins en aðildarsöfn að Sarpi eru nú 50 talsins. Á Sarpi eru varðveittar upplýsingar m.a. um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar, ásamt öðru efni og mjög gaman er að skoða muni, listaverk og ljósmyndir á vefnum. Eins má skoða áhugaverðar sýningar undir flipanum „Sýningar“ efst á síðunni. Á Sarpi má m.a. finna muni frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum en verið er að vinna í skráningu fleiri muna þar þessa dagana svo það er um að gera að kíkja öðru hvoru og skoða nýja muni sem koma inn.


Vefur Héraðsskjalasafns Vestur-Húnvetninga:
http://atom.hunathing.is/

Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu heldur úti vef þar sem skoða má merkilegar myndir og önnur gögn af skjalasafninu. Gögnum af safninu er hlaðið inn á vefinn öðru hvoru svo það er um að gera að líta inn á vefinn reglulega.

Ísmús
íslenskur músík- og menningararfur:
https://www.ismus.is/

Ísmús er virkilega skemmtilegur vefur þar sem finna má ýmis viðtöl og hljóðupptökur, m.a. við ýmsa Vestur-Húnvetninga, þá má einnig hlusta á vísur, þulur og aðrar merkilegar frásagnir. Í leitarglugganum efst hægra megin á síðunni má t.d. slá inn leitarorð eins og „Hvammstangi“, „Vatnsnes“, nöfn einstaklinga eða annað slíkt og þá koma upp skemmtileg gömul viðtöl við fólk af svæðinu, upptökur frá viðburðum s.s. vorvökum á Hvammstanga og annað áhugavert efni.


Fyrirlestrar frá Þjóðminjasafninu:
https://www.youtube.com/channel/UC-9K1ZfBsppPiQhRmf3jMVQ/videos

Á Youtube rás Þjóðminjasafn Íslands má finna ýmsa sérlega fróðlega og áhugaverða fyrirlestra sem tilvalið er að horfa á.

Íslandskort bókmenntanna:
https://borgarbokasafn.is/bokmenntalandslagid/islandskort-bokmenntanna

Á Íslandskorti bókmenntanna er búið að merkja inn á Íslandskortið sögusvið og áhrifastaði skáldsagna, barnabóka og sögulegra skáldsagna. Með því að smella á prjónana á kortinu má sjá kápumynd bókarinnar og stutta lýsingu og stundum jafnvel brot úr bókinni.

Stafrænar heimildir úr Þjóðskjalasafni Íslands:
https://heimildir.is/

Á þessum vef má grúska í margvíslegu efni, s.s. skoða gömul manntöl, kirkjubækur, vesturfaraskrár, gamalt fasteigna- og jarðamat, landamerkjabækur, dóma- og þingbækur og fleira.

Bækur.is
https://baekur.is

Á vefnum bækur.is má skoða stafrænar endurgerðir af gömlum íslenskum bókum en vefurinn er rekinn af Landsbókasafni Íslands -Háskólabókasafni og er markmið hans að birta með tíð og tíma allar íslenskar bækur útgefnar fyrir 1870. Á vefnum eru margar stórmerkilegar og skemmtilegar bækur sem gaman er að glugga í.

Handrit.is
https://handrit.is

Á vefnum handrit.is er má skoða gömul íslensk og norræn handrit sem eru varðveitt hjá handritadeild Landsbókasafnsins, Stofun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn. Þarna má m.a. sjá íslenskar fornbókmenntir eins og safn Íslendingasagna, handrit um norræna goðafræði, biskupasögur, fornaldarsögur, riddarasögur og fleira.

Anton Helgi Jónsson, ljóðskáld
www.anton.is

Ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson heldur úti bráðskemmtilegri heimasíðu þar sem hann hefur birt öll ljóðin úr bókum sínum, ásamt vísum sem hafa birst eftir hann í tímaritum auk lausavísa og tækifæriskvæða. Á vefnum má einnig hlusta á upplestur skáldsins. Vefsíðan er virkilega skemmtileg og ennþá skemmtilegra er að hlusta á upplestur skáldsins á ljóðunum.

Skáld.is
https://www.skald.is

Skáld.is er flottur bókmenntavefur um skáldkonur en þarna er m.a. birt gagnrýni og annar fróðleikur um bækur, ásamt viðtölum og öðru áhugaverðu bókmenntatengdu efni kvenna.

Lestrarklefinn
https://lestrarklefinn.is

Lestrarklefinn er virkilega áhugaverður bókmenntavefur þar sem birt er bókagagnrýni, pistlar um bækur, leslistar, umfjallanir og annað efni um bókmenntir.


Bókaskápurinn:
https://bokaskapurastus.wordpress.com/

Bókaskápurinn er annar skemmtilegur vefur um allskyns tengt bókmenntum.


Hlaðvarp Blekfjelagsins -félags ritlistarnema:
https://rss.com/podcasts/blekvarpid

Blekfjelagið er félag ritlistarnema við Háskóla Íslands en á hlaðvarpinu má finna verulega skemmtilega þætti um bókmenntatengd efni. T.d. er rætt um hvað ritlist sé, lesið upp úr bókum, fjallað um smásögur og örsögur, ritrýni og fleira.


Tímarit.is
www.timarit.is

Tímarit.is þekkja margir en á vefnum má skoða mörg blöð og rit, gömul og ný.


Hugleiðsla og núvitund með Eckhart Tolle:
https://eckharttolle.com/free-resources/

Eckhart Tolle er einn sá fremsti á sviði núvitundar en hann er höfundar bókanna Mátturinn í núinu, Ný jörð: áttaðu þig á tilgangi lífs þíns og Kyrrðin talar. Vegna veirunnar sem nú herjar á um allan heim ákvað Eckhart Tolle að bjóða upp á fyrirlestra og hugleiðslu á vefsíðu sinni til þess að hjálpa fólki í gengum þessa tíma, sem fyrir marga er kvíðavaldandi. Ekkert er mikilvægara en hugleiðsla og núvitund á tímum sem þessum. Tolle bætir inn fleiri myndböndum reglulega svo það er sniðugt að líta reglulega inn og athuga hvort að ný myndbönd hafi bæst við. Njótið.https://www.youtube.com/user/beggiminn

Guðrún Árný Karlsdóttir er söngkona, píanóleikari og kennari og ákvað að taka upp undirspil við nokkur íslensk sönglög með texta og setja inn á Youtube rás sína, fyrir þá sem hafa gaman að söng. Hún mun bæta inn fleiri lögum næstu daga svo það er um að gera að fylgjast með og syngja til að bæta og kæta.

 Tekið saman af Birtu Þórhallsdóttur forstöðumanni safna í Húnaþingi vestra. 

 

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?