Gleðilega páska!

Gleðilega páska!

Kæru íbúar!

Nú eru rúmar þrjár vikur síðan samkomubann var sett á og verður til 4. maí nk.  Samkomubannið hefur haft víðtæk áhrif á samfélagið okkar.  Úrvinnslusóttkvíin sem sett var á í sveitarfélaginu virðist hafa skilað árangri og hefur smitum lítið fjölgað síðustu viku. Ánægjulegt er frá því að segja  að nú hafa 20 náð bata í Húnaþingi vestra og enginn íbúi hefur veikst alvarlega af veirunni.

Þrátt fyrir að við virðumst vera búin að ná utan um hraða útbreiðslu veirunnar er mikilvægt að við höldum vöku okkar, virðum samkomubannið  og tveggja metra regluna. Fylgjum í öllu leiðbeiningum yfirvalda því það má ekki mikið út af bregða til að komi upp nýjar hópsýkingar.  

Í dag eru tólf í einangrun í Húnaþingi vestra og ellefu í sóttkví, tólf sýni bíða greiningar. Þessar upplýsingar eru uppfærðar þrisvar í viku og birtir aðgerðastjórn þær á  facbook-síðu lögreglunnar á  Norðurlandi vestra.    

Í vikunni hafa stjórnendur og starfsfólk Grunnskóla Húnaþings  vestra unnið að skipulagningu skólastarfs eftir páska og hafa foreldrar verið upplýstir um það. Á heimasíðu skólans er hægt að sjá hvernig skólahaldi verður háttað. Leikskólinn Ásgarður verður opin eins og verið hefur síðustu vikur.

Félagsþjónustan hefur unnið hörðum höndum að halda allri þjónustu gangandi og er haldið vel utanum þá sem þiggja þjónustu af sveitarfélaginu  Auk þess hefur verið haft samband við íbúa 80 ára og eldri.   

Á stundum sem þessum er mikilvægt að sýna náungakærleika, hringja í vini og vandamenn og gæta að þeim sem búa einir.  Við erum öll í þessu saman.   

Ferðumst innanhúss um páskana!

Álag á heilbrigðiskerfið hefur verið að aukast jafnt og þétt. Sóttvarnalæknir, landlæknir og viðbragðsaðilar hvetja fólk til að ferðast heima um páskana og takamarka gestakomur eins og hægt er. Óþarfa ferðlög bjóða heim hættu á slysum og frekari smitum því heilbrigðisstarfólk þarf á öllum sínum kröftum að halda til að hlúa að fólki sem þegar hefur smitast af COVID-19.

Í  umræðuþætti um COVID-19 fyrir börn og ungmenni sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi var í lok þáttarins flutt lag sem BG og Ingibjörg gerðu frægt fyrir allmörgum árum við nýjan texta eftir Leif Geir Hafsteinsson. Skilaboðin textans voru skýr,  við skulum hlýða Víði og upplifa ævintýrin innanhúss um páskana!

Gleðilega páska!

Ragnheiður Jóna.

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?