19. september 2022

ikonar

Nú er liðin önnur heila vikan í starfi sem sveitarstjóri Húnaþings vestra. Eitt af því sem ég einsetti mér þegar ég tók við var að veita sem mestar upplýsingar um verkefnin sem eru á borði sveitarstjóra. Þau eru margvísleg og oft óvænt. Ég hef séð á þessum stutta tíma í starfi að það er engin hætta á að mér leiðist :)

Ég mun stefna að því að skrásetja helstu verkefni og birta í reglulegum pistlum hér undir yfirskriftinni dagbók sveitarstjóra. Eðlilega eru sum mál þess eðlis að ekki er hægt að fjalla um þau en ég mun gera mitt besta í að segja frá sem flestum verkefnum. Tíminn til að skrifa þessa pistla mun vafalítið verða mis mikill og líklegt að í einhverjum tilfelli verði aðeins um upptalningu að ræða – lesendur taka vonandi viljann fyrir verkið.

Vikan 12.-16. september – önnur vika í starfi
Þessi vika markaði formlegt upphaf fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 þó undirbúningur hafi staðið í nokkrar vikur. Fjárhagsáætlunargerð sveitarfélags er flókið ferli sem gerðar eru miklar kröfur til. Fjármál sveitarfélaga eru undir eftirliti sérstakrar eftirlitsnefndar og niðurnjörvað hvaða skilyrði áætlanirnar verða að uppfylla. Aukið byggðarráð fundaði í bítið á mánudagsmorgni. Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir greiningu á stöðu sveitarfélagsins og tillögur okkar að forsendum fyrir áætlunargerðina. Fundargerð fundarins er að finna hér. Aukið byggðarráð kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir. Í því sitja í raun allir sveitarstjórnarmenn en þar sem ekki er um eiginlega sveitarstjórnarfundi að ræða er skv. samþykktum sveitarfélagsins byggðarráðið „aukið“ á þeim vinnufundum sem varða fjárhagsáætlun.

Byggðarráð fundaði sömuleiðis á mánudaginn. Þetta var fyrsti byggðarráðsfundurinn minn í hlutverki sveitarstjóra en ég sat í ráðinu á kjörtímabilinu 2014-2018 þegar ég var oddviti sveitarstjórnar. Ég er því ekki alls ókunnug störfum ráðsins sem fundar að jafnaði vikulega. Á fundinum voru tekin fyrir nokkur mál sem vísað var til fjárhagsáætlunargerðar. Ánægjulegasti dagskrárliðurinn að mínu mati var samþykkt kostnaðaráætlunar vegna endurbóta á íbúðum í Nestúni. Löngu tímabært og þarft verk. Vonandi verður hægt að ráðast í endurbætur á hluta íbúðanna að undangenginni hönnunarvinnu á næsta ári og svo áfram á komandi árum. Í byggðarráði sitja þrír fulltrúar og er Magnús Magnússon formaður ráðsins.

Framkvæmdaráð sveitarfélagsins fundaði jafnframt á mánudag en í því sitja auk sveitarstjóra sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og sviðsstjóri fjölskyldusviðs. Hlutverk þess skv. 48. gr. samþykkta sveitarélagsins er m.a. að hafa ásamt byggðarráði og sveitarstjóra eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess, semja drög að fjárhagsáætlun og viðaukum við hana og leggja þau fyrir sveitarstjórn. Ráðið fundar á mánudagsmorgnum og leggur línurnar fyrir vikuna. Framkvæmdaráð er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjóra til að miðla upplýsingum og fá stuðning við hin ýmsu verkefni.

Eftir fundahöld um fjárhagsáætlun og brýn verkefni var gleðilegt að ljúka deginum á fundi með fulltrúa Menningarfélags Húnaþings vestra sem reifaði metnaðarfullar hugmyndir að menningarstarfi í sveitarfélaginu. Það verður gaman að sjá þær verða að veruleika.
Þriðjudagurinn var hreint ekki til þrautar þó dagskráin hafi verið þétt. Framkvæmdaráð fékk til sín forstöðumenn stofnana, alls 10 fundir, þar sem var farið yfir starfsáætlanir þeirra eininga fyrir árið 2023. Ég er óskaplega stolt af starfsfólki sveitarfélagsins og það var gaman að sjá kraftinn sem býr í fólkinu okkar. Í lok dags var fyrsti fundur minn með veituráði sem stofnað var í kjölfar aukinna umsvifa veitna sveitarfélagsins. Veitustjóri er starfsmaður ráðsins og undirbýr fundi í samvinnu við sveitarstjóra. Fyrir fundinu lágu ýmis verkefni, t.d. yfirferð veitustjóra yfir eftirlit og bilanir á veitusviði, beiðni um sverari neysluvatnslögn og tengingu við hitaveitu. Auk þess var fjallað um hugmyndir um hitaveitu suður Hrútafjörð sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Ég bý vel að því að hafa verið í sveitarstjórn þegar ráðist var í lagningu hitaveitunnar í Hrútafirði-norður, Miðfirði og Víðidal og þekki því aðeins inn á störf ráðsins sem fundar að jafnaði mánaðarlega. Formaður ráðsins er Gunnar Þorgeirsson.

Eftir tvo langa fundardaga var miðvikudagurinn kærkominn til að vinna í ýmsum málum við skrifborðið. Hann var þó ekki alveg fundalaus. Ég átti upplýsandi fund með fulltrúa Vegagerðarinnar um stuðning við stígagerð í dreifbýli. Gott að hafa góðar upplýsingar um þann farveg í komandi verkefnum. Í kjölfarið tók ég saman stutt minnisblað fyrir sveitarstjórnarmenn og rekstrarstjóra. Bryndís hjá Farskólanum leit við og við skrifuðum undir hefðbundinn samstarfssamning um nýtingu Farskólans á húsnæði sveitarfélagsins fyrir námskeið sín. Færði hún mér ljómandi fallega handprjónaða vettlinga sem munu koma sér vel þegar kólna fer í veðri. Það er gott að geta stutt við hið góða starf Farskólans og ánægjulegt að vera áfram í samstarfi við þau líkt og hjá SSNV. Að öðru leyti varði ég deginum við tölvuna að svara erindum og ganga á verkefnalistann sem er æði langur. Eitt af þeim verkefnum sem ég tók dágóðan tíma til að setja mig inn í er Leigufélagið bústaður hses. Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri þess félags sem á og rekur 6 íbúða raðhús við Lindaveg. Ég fór vel í gegnum samþykktir félagsins og pappíra sem því tengjast. Það var metnaðarfullt verk að koma þessu húsi upp og mikilvægt að halda vel utan um rekstur þess. Þriggja manna stjórn er yfir rekstrinum sem fundar eftir þörfum, t.d. þegar úthlutað er íbúðum. Ingveldur Ása Konráðsdóttir er formaður stjórnar.

Á fimmtudeginum brá ég mér af bæ til Akureyrar til að sitja landsþing um jafnréttismál sem haldið var af Jafnréttisstofu. Það var mjög fróðlegt að hlýða á erindi sem þar voru flutt. Skv. lögum ber sveitarstjórn að setja fram jafnréttisáætlun innan árs frá því að hún tekur til starfa. Það verkefni er því fyrir höndum og gott að fá kynningu á verkfærum sem þróuð hafa verið við vinnuna. Jafnrétti er vítt hugtak sem nær yfir svo miklu meira en „bara“ jafnrétti kynjanna heldur fjölmargra annarra hópa. Það er því krefjandi að vinna að jafnréttisáætlun og innleiða hana í framhaldinu. Ég er hins vegar spennt fyrir þeirri vinnu.

Föstudagurinn hófst með fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Fastir liðir eins og venjulega á föstudagsmorgnum. Fyrir fundina er ég búin að safna saman á lista hinum ýmsu málum sem ræða þarf auk þess sem við förum yfir dagskrá byggðarráðsfunds komandi mánudags. Þeir félagar Kalli og Magnús eru hafsjór af fróðleik fyrir nýliða eins og mig og listinn var æði langur. Hann mun þó líklega styttast eftir því sem reynslan og þekkingin byggist upp. Í kjölfar þess fundar fór ég svo í að undirbúa byggðarráðsfundinn, senda út fundarboð og undirbúa fundargerð eins og hægt er. Inn kom uppsögn á einni íbúð á Lindarvegi og því gott að ég hafði kynnt mér rekstur leigufélagsins vel á miðvikudeginum. Ég gat því gengið hreint til verks og auglýst íbúðina hratt og vel og er umsóknarfresturinn til 30. september. Ég fékk síðan góðar heimsóknir, frá sveitarstjórnarmanni, fulltrúa Húsfreyjanna á Vatnsnesi, aðila í menningarstarfi í sveitarfélaginu og átti gott og langt spjall við starfsmann. Ýmis verk tóku svo við, eins og að samþykkja reikninga, svara tölvupóstum og setja mig inn í hin ýmsu mál.

Þó þetta virðist ærið þá er það sem að framan hefur verið skrifað alls ekki tæmandi listi. Ef svo ætti að vera yrði lesningin of löng en stiklað hefur verið á stóru.

Fyrir þau sem hafa gaman af tölfræði skiptist tíminn yfir vikuna svona niður á málaflokka. Undir sameiginlegan kostnað flokkast störf nefnda og ráða sem og vinna við fjárhagsáætlun o.s.frv.

Var efnið á síðunni hjálplegt?