70. fundur

70. fundur ungmennaráðs haldinn þriðjudaginn 10. maí 2022 kl. 18:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Patrekur Óli Gústafsson, formaður, Jóhann Smári Reynisson, aðalmaður, Máney Dýrunn Þorsteinsdóttir, aðalmaður, Ástríður Halla Reynisdóttir, aðalmaður, Oddný Sigríður Eiríksdóttir, aðalmaður og Eyrún Una Arnarsdóttir, aðalmaður.

Jenný Dögg Ægirsdóttir aðalmaður boðaði forföll.

Starfsmenn

Tanja Ennigarð, íþrótta- og tómstundafulltrúi og Jenný Þórkatla Magnúsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundargerð ritaði: Jenný Þórkatla Magnúsdóttir.

Tekið var fram í upphaf fundar að 70. fundur var boðaður með minna en tveggja daga fyrirvara með samþykki allra í ráðinu.

Dagskrá.

1. Farið var yfir svör við erindi sem sent var fulltrúum framboðslista sem eru í framboði fyrir sveitarstjórnakosninga í maí 2022 í Húnaþingi vestra.

Afgreiðslur

1. Svör við spurningum frá ungmennaráði til framboða í Húnaþingi vestra bárust frá öllum framboðum. Ráðið fór yfir svörin og þakkar framboðum fyrir að bregðast við fyrspuninni og óskar þeim góðs gengis. Patrekur Óli Gústafsson vék af fundi á undir þessum dagskrárlið.

Spurningar og vangaveltur ungmennaráðs til framboða sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í Húnaþingi vestra 2022.

Húsnæðismál

 1. Setjið þið fram áætlun í húsnæðismálum fyrir ungt fólk? Þá bæði til leigu eða kaups á fyrstu eign.

Svar N-lista:
„Nei, N-listinn er ekki með húsnæðisáætlun fyrir ungt fólk. Bjarg íbúðafélag hefur lýst yfir áhuga á því að byggja íbúðir á Hvammstanga. Einnig viljum við að búnir séu til fleiri kosti fyrir eldri borgara til að minnka við sig húsnæði og búa þannig til hringrás á húsnæðismarkaði á svæðinu.”

Svar D-lista:
„Það er ekki komin bein áætlun um það ennþá en það er alltaf í huga okkar að leita leiða til að gera unga fólkinu okkar einfaldara að flytja heim aftur.“

Svar B-lista:
„Sveitarstjórn hefur nýlega samþykkt húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið í heild sinni til næstu 15 ára. Þar kemur fram hvaða tegund húsnæðis er þörf á og fyrir hvað hópa á hverjum tíma. Sveitarstjórn stóð að byggingu 6 almennra leiguíbúða kjörtímabilinu auk þess sem viljayfirlýsing hefur verið undirrituð við Bjarg íbúðafélag um byggingu 8-10 leiguíbúða í almenna kerfinu. Við viljum aukið samstarf um fjölgun leiguíbúða og við viljum stuðla að byggingu íbúða sem falla undir hlutdeildarlán og henta fyrstu kaupendum.“


2. Hafið þið sett fram áætlun í húsnæðismálum ungs fólks með fötlun?
Svar N-lista:
„N-listinn hefur ekki sett fram neina áætlun í húsnæðismálum ungs fólks með fötlun. Það er í gildi samstarfssamningur á milli sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra um málefni fatlaðs fólks.“

Svar D-lista:
„Ekki komin beinhörð áætlun um það en teljum þó að þær íbúðir sem sveitarfélagið hefur byggt á undanförnum árum, í samstarfi við húsnæðisfélög, ættu að einhverju leyti að nýtast í þetta verkefni. Fleiri slíkar íbúðir eru komnar á plan.“

Svar B-lista:
„Húsnæðisáætlun fyrir Húnaþing vestra og samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra er áætlun um húsnæðisþörf í þessum málaflokki.“

Ungt fólk í námi

 1. Hafið þið skoðað að veita ungu fólki í námi afslátt á kortum við íþróttamiðstöðina?

Svar N-lista:

„Það er afsláttur á árskortum fyrir ungmenni 14 til 18 ára (sjálfræðisaldur) en þau kort kosta 11.900 krónur, (64.500 fyrir eldri) Við myndum alveg vilja skoða það að hafa afsláttinn til 19 ára aldurs þannig að hann miðist við framhaldsskóla aldur.“

Svar D-lista:
„Sveitarfélagið gefur út frístundakort fyrir ungt fólk að 18 ára aldri og er sérstaklega tekið fram í reglum að á aldrinum 16-18 sé heimilt að nýta frístundakortið til greiðslu árskorta í íþróttamiðstöð Húnaþings vestra. Það væri svo að auki hægt að skoða stúdentaafslátt, t.d. fyrir þá sem eru í fjarnámi á staðnum en eru komnir yfir 18 ára aldurinn.“

Svar B-lista:
„Það var skoðað og viðbrögð við því var að bæta við sérstökum gjaldflokki fyrir 14-18 ára í gjaldskrá íþróttamiðstöðvarinnar.“

2. Hvaða hvati er til þess að ungt fólk snúi til baka eftir að það hafi farið af staðnum í nám en vill koma til baka þegar því er lokið?

Svar N-lista:
„Við þurfum fleiri hvata, það er á hreinu. Ungt fólk sem snýr til baka eftir að hafa verið í námi þarf störf við hæfi og því er mikilvægt að átak eigi sér stað í atvinnumálum, fjölbreyttari störf fyrir fólk þegar það hefur sótt sér menntun. Á Hvammstanga er SSNV búið koma upp skrifstofurýmum Útibúinu sem skapar aukin tækifæri. Fyrirtæki eru líka að opna meira á þann möguleika að fólk geta starfað hvar sem er á landinu ef starfið er þess eðlis. Að sama skapi er mikilvægt að uppbygging eigi sér stað í íþrótta- og tómstundastarfi en í dag erum við ekki að bjóða upp á nægilega góða umgjörð á því sviði til þess að lokka fólkið okkar aftur heim.“

Svar D-lista:
„Hér þarf fyrst og fremst að huga að því að nægt framboð af húsnæði sé til staðar, ásamt því að vinna þarf betur að því að störf án staðsetningar, fyrir háskólamenntað fólk, séu til staðar. Skrifstofusetur koma hér sterk inn þar sem fólki er gert kleift að finna sér atvinnuhúsnæði án þess að þurfa að taka heilt hús í leigu. Hvatinn að auki til að fólk vilji koma heim aftur er tiltölulega hátt þjónustustig miðað við stærð staðarins, góðar og faglegar skólastofnanir og samheldið samfélag sem nauðsynlegt er að hlúa að.“

Svar B-lista:
„Félagslega sterkt samfélag sem veitir íbúum góða þjónstu, gott aðgengi að leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi fyrir börn ungra foreldra. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem styður við frumkvöðla og ný fyrirtæki. Samfélag sem tekur vel á móti fólki og gefur einstaklingnum færi á að njóta sín óhóð, kyni, aldri eða efnahag.“

Fyrir ungar fjölskyldur

 1. Í Húnaþingi eru ekki mörg opin svæði með leikvelli, hafið þið hugsað um að bæta úr því?

Svar N-lista:
„Höfum hug á því að á skólalóðinni verði glæsilegt leiksvæði með körfuboltavelli og leiktækjum. Síðan verði áfram leiksvæði upp í Hvammi, einnig mætti skoða það t.d. að koma upp frísbígolf brautum á Bangsatúni og betri aðstöðu við ærslabelginn.“

Svar D-lista:
„Það hefur komið óopinberlega til tals og væri vissulega kostur, ekki hvað síst að fjölga afgirtum svæðum þar sem yngstu börnin geta leikið sér í öruggu umhverfi.“

Svar B-lista:
„Við viljum bæta afþreygingarmöguleika á bæði Borðeyri og Laugarbakka. Eins halda áfram við endurbætur á skólasvæðum grunn- og leikskóla. Við viljum að leikaðstaða á skólalóðum sé örugg og upfyllir þarfir barna til að fá útrás fyrir leik-, hreyfi-, og sköpunarþörf.“

2. Væri hægt að hafa matjurtargarða á opnum svæðum?
Svar N-lista:
„Já, það er hægt. Það þyrfti þá að finna svæði þar sem íbúar geta verið með matjurtagarða. Skrúðvangur bauð upp á þessa þjónustu í fyrrasumar þar sem íbúar gátu leigt sér matjurtagarða hjá þeim.“

Svar D-lista:
„Það ætti vel að vera hægt í landi sveitarfélagsins.“

Svar B-lista:
„Aðilar í sveitarfélaginu, Skrúðvangur, hefur boðið uppá þessa þjónstu. Á meðan það er í boði fer sveitarfélagið ekki í samkeppni við þau. En nauðsynlegt er að bregðast við óskum íbúa um óskir þessu tengdu.“

3. Eruð þið með hugmyndir hvernig væri hægt að styðja við bakið á ungum bændum?
Svar N-lista:
„Halda áfram uppbyggingu innviða til sveita varðandi fjarskiptamál, ljósleiðara og rafmagn ásamt því að þrýsta áfram á stjórnvöld fyrir bættum vegasamgöngum. Við viljum sjá Vatnsnesveginn mun framar á samgönguáætlun ríkisins og einfaldlega bara krefjumst þess að farið verði í uppbyggingu hans sem fyrst.“

Svar D-lista:
„Það hefur ekki komið sérstaklega til tals að styrkja sérlega fjárhagslega við bakið á ungum bændum enda eiga þeir kost á nýliðunarstyrkjum úr rammasamningi Bændasamtaka Íslands við atvinnuvegaráðuneytið (nú matvælaráðuneytið). Hins vegar höfum við leitað allra leiða til að styðja við landbúnað almennt á svæðinu, þar falla ungir bændur undir, til dæmis með því að vera dugleg að bóka og senda inn umsagnir um hin ýmsu lög og reglugerðir er lúta að bændum. Viljum við meina að það starf hafi skilað hagsbótum til handa öllum bændum.“

Svar B-lista:
„Halda áfram að byggja upp gott og öflugt samfélag sem tryggir góða þjónstu við íbúa. Þess að auki viljum við standa vörð um hagsmuni allra bænda og efla sérstöðu Húnaþings vestra sem matvælahérað. Við vijum skapa umhverfi fyrir blómlegan landbúnað og aukinn fjölbreytileika í störfum honum tengdum.“

Tómstundir og íþróttir

 1.Viljið þið styrkja og efla það starf sem fram fer í Óríon með því að setja meira fjármagn í það starf?

 Svar N-lista:

„Já, við viljum efla Orion. Fjármagn til leiktækja-, spila- og efniskaupa þarf að vera til staðar.“

Svar D-lista:
„Já við viljum það en hins vegar þarf í því eins og öðru að huga að skiptingu fjármuna enda í mörg horn að líta.“

Svar B-lista:
„Já.“

2. Ætlið þið að setja í forgang að efla aðstöðu í Hvamminum þannig að hægt verði að spila heimaleiki, eins og að geta boðið uppá að leikir annarra liða geti farið þar fram?

Svar N-lista:
„Já, það er algjört forgangsatriði hjá N-listanum að koma upp búningsaðstöðu/aðstöðuhúsi uppí Hvammi. Á þessu kjörtímabili vann starfshópur mjög góða skýrslu um uppbyggingu í Kirkjuhvammi og við viljum nota þá skýrslu og þá forgangsröðun sem kemur fram í skýrslunni og fara mikla uppbyggingu í Kirkjuhvammi á kjörtímabilinu í samráði við íþróttafélögin.“

Svar D-lista:
„Vinna er nú þegar hafin við framtíðarskipulag íþróttasvæðis í Kirkjuhvammi og mun væntanlega og vonandi halda áfram af fullum krafti á næsta kjörtímabili.“

Svar B-lista:
„Sveitarstjórn hefur þegar lagt 3 millj. kr. í hönnun á aðstöðuhúsi í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Við viljum byggja aðstöðuhús við íþróttavöllinn í Kirkjuhvammi í samstarfi við íþróttahreyfingun.“


3. Hvað finnst ykkur um að setja frisbígolfvöll, hjólabrettabraut, strandblakvöll og körfuboltavöll upp í sveitarfélaginu?

Svar N-lista:
„Já, við höfum mikinn áhuga á því að koma upp frisbígolfvelli og strandblaksvelli upp í Hvammi. Við höfum mikinn áhuga á því að koma upp körfuboltavelli á skólalóðinni. Það er búið að vera starf í gangi síðustu ár í gegnum Húnaklúbbinn að reyna að finna staðsetningu fyrir hjólabrettarampa. Það er komið fjármagn í smíði rampanna en það hefur ekki fundist staðsetning.“

Svar D-lista:
„Allt góðar hugmyndir.“

Svar B-lista:
„Í okkar málefnaskrá kemur fram að við viljum koma upp keppnis-frisbígolfvelli í Kirkjuhvammi. Gert er ráð fyrir körfuboltavelli á lóð Grunnskólans. Almennt er fylgt forgangsröðun íþróttahreyfingarinnar við uppbyggingu íþróttaaðstöðu.“

4. Viljið þið að einhverri alvöru skoða svæði til að setja krossarabraut?
Svar N-lista:
„Það var mikil umræða um krossarabraut fyrir síðustu kosningar, en síðan eftir að helstu áhugamenn um brautina fengu bílpróf höfum við ekki heyrt neina umræðu um slíka braut. Við erum hins vegar opin fyrir umræðu um allar góðar hugmyndir.“

Svar D-lista:
„Það hefur verið í deiglunni reglulega og vilji til að skoða það en afar nauðsynlegt er að finna slíku svæði réttan stað svo stangist ekki á við aðrar íþróttir á svæðinu, s.s. hestamennsku en slysahætta getur verið af því ef krossarabraut er of nálægt helstu reiðmennskusvæðum.“

Svar B-lista:
„Almennt er forgangsröðun íþóttahreyfingarinnar fylgt. Hvað varðar uppbyggingu slíkrar aðstöðu þarf aðkomu hóps/félagsskapar sem heldur heldur utan um framkvæmdir og rekstur slíks svæðis.“

Umhverfis- og aðgengismál

 1. Bæta þarf snjómokstur á gangstéttum.

Svar N-lista:
„Já, mokstur á gangstéttum þarf að vera inni í næsta snjómoksturs útboði.“

Svar D-lista:
„Það er rétt og hefur verið rætt, við teljum að öll framboðin séu sammála um það.“

Svar B-lista:
„Já. Við viljum setja reglur og þjónustuviðmið um hvað varðar mokstur á húsagötum, gangstéttum og hreimreiðum í sveitarfélaginu.“

2. Laga þarf gangstéttar þannig að aðgengi fyrir fatlaða, börn og ungt fólk með barnavagna verði betri.
Svar N-lista:
„Það þarf að kortleggja þessa staði sem þarf að laga þannig að hægt sé að ganga í málið með skipulögðum hætti. Við endurnýjun gangstétta verði þarfir gangandi vegfarenda og hreyfihamlaðra hafðar í huga.“

Svar D-lista:
„Það er rétt og hefur einnig verið rætt, kemst vonandi á rétt ról samhliða endurnýjun gatna.“

Svar B-lista:
„Við viljum bæta aðgengi á gangstéttum og göngustígum.“

3. Ætlið þið að skoða aðgengi fatlaðra almennt í sveitarfélaginu?
Svar N-lista:
„Já, bæta þarf aðgengi fyrir fatlaða á mörgum stöðum í sveitarfélaginu eins og til dæmis bókasafninu og Orion og fleiri stöðum. Kanna með að sækja um styrki verkefnið Römpum upp Ísland.“

Svar D-lista:
„Já“

Svar B-lista:
„Byggðarráð er nýbúið að samþykkja að fela sveitarstjóra og rekstrarstjóra að sækja um í átaksverkefnið “Römpum upp Ísland” með það í huga að fara í framkvæmdir við að bæta aðgengi í sveitarfélaginu.“

4. Hafið þið skoðun á því að ekki er hægt að hlaða bíla inn í þéttbýlinu Hvammstanga nema við einkaheimili. Ætlið þið að að koma upp hleðslustöð?
Svar N-lista:
„Já, það er algjört forgangsatriði hjá N-listanum að koma upp rafhleðslustöð/stöðvum á Hvammstanga.“

Svar D-lista:
„Það er á stefnuskránni já“

Svar B-lista:
„Já, okkur þykir það miður að það sé ekki hægt enn. Sveitarfélagið hefur unnið að slíku og fengið styrk að upphæð 5 milljónir kr. og er í samskiptum um uppsetningu slíkra stöðva á Hvammstanga.“

5. Er til stefna hjá sveitarfélaginu í umhverfismálum eins og með frárennsli, endurvinnslu á lífrænu heimilissorpi?
Svar N-lista:
„Það eru miklar breytingar framundan varðandi flokkun sorps fyrir tilstilli nýrra krafna frá stjórnvöldum. Með innleiðingu hringrásarhagkerfis verður meðal annars skylt að flokka lífrænan úrgang þannig að hann verður ekki lengur urðaður heldur verður búin til úr honum verðmæti. Með þessu verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Reglugerð stjórnvalda varðandi hringrásarhagkerfið verður tekin í gildi í janúar 2023. Mun allt kapp verða sett á að ná þeim tímamörkum. Varðandi frárennslismál þá hafa stjórnvöld ekki enn sett meiri kröfur á meðhöndlun þeirra en sveitarfélagið er nú þegar að uppfylla. Það má þó búast við því á allra næstu árum að það komi meiri kröfur um hreinsun á frárennsli og þá þarf sveitarfélagið að vera viðbúið að leggjast í þá vinnu. Það þarf því að fara að skoða þessi mál og hefja grunn undirbúningsvinnu. N-listinn fagnar öllum kröfum stjórnvalda er lúta að umhverfismálum. Það þarf að setja málefni umhverfisins í forgang ekki seina en strax. Hafin er vinna á innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna inn í starfsemi sveitarfélagsins. Var haldin vinnustofa um málefnið og verða niðurstöðurnar grunnur að stefnumörkun og verkefnum sem sveitarfélagið getur unnið að. Mikilvægt er að fylgja þessari vinnu eftir og að allir verkferlar og vinnubrögð fái á sig sterk fingraför sjálfbærni hugsunar. Sjálfbærnimerkimiðar eiga ekki að verða einhverjar skrautfjaðrir á heimasíðu Húnaþings Vestra heldur viljum við fylgja þessu fast eftir og sjá til þess að þetta verði virkilega að veruleika í gegnum alla starfsemi sveitarfélagsins.“

Svar D-lista:
„Þetta er á stefnuskránni já, t.d. er verið að fara að bjóða út sorpmál sameiginlega með A-Hún og þar eru lífrænu málin inni.“

Svar B-lista:
„Ný löggjöf sem tekur á umhverfismálum s.s. sorphirðu tekur gildi um áramót og munum við tryggja það að þjónusta í sveitarfélaginu fari eftir gildandi reglum. Hvað varðar frárennsli þá er það.“

6. Almennings samgöngur þarf að laga. Ekki er lengur boðið upp á þjónustu að afleggjara til að geta nýtt sér Strætó.
Svar N-lista:
„Þjónusta Strætó á svæðinu er því miður mjög léleg, þeir hættu með þennan akstur á milli Hvammstanga og Norðurbrautar í sparnaðarskyni. Það var rætt við forsvarsmenn Strætó í fyrra vetur til að kvarta yfir þjónustunni hjá þeim, þegar ferðir féllu mikið niður vegna veðurs. Ef það var vont veður á Öxnadalsheiði keyrði Strætó bara frá Reykjavík í Borgarnes.“

Svar D-lista:
„Það er rétt og viljum við beita okkur í að það verði lagfært.“

Svar B-lista:
„Það er alveg rétt hjá ykkur, því miður. Almenningssamgöngur eru á forræði Vegagerðarinnar og ríkisins. Bættar almenningssamgöngur skipta miklu máli og við viljum berjast fyrir þeim.“

Málefni ungs fólks í grunnskólanum

 1. Viljið þið efla forvarnir í skólunum, þar þarf kennslu í fjármálalæsi, kynfræðslu og upplýst samþykki í þeim málum, kennsla um stjórnsýslu, jafnrétti og meiri heimspeki?

Svar N-lista:
„Þetta eru góðar hugmyndir. Taka þarf samtalið við menntayfirvöld í sveitarfélaginu í sambandi við þetta, að ungt fólk sé að kalla eftir þessum hlutum. Í félagsmiðstöðinni hafa ákveðin mál er snúa að forvörnum verið tekin fyrir og mögulega væri hægt að efla það enn frekar.“

Svar D-lista:
„Já við viljum það.“

Svar B-lista:
„Já“

2. Við í ungmennaráði sveitarfélagsins viljum fá að hafa meira um mál sveitarfélgsins að segja að samráð verði haft um þau málefni sem skipta okkur máli. Að sveitastjórn fái álit ungs fólks á málefnum er varðar ungt fólk. Einnig að frekari rökstuðningur komi frá sveitarstjórn til ungmennaráðs þegar hugmyndir ungmennaráðs eru lagðar til.
Svar N-lista:

„Við leggjum til að málefni á borði sveitarstjórnar sem snúa að ungu fólki verði kynnt fyrir ungmennaráði á fundum þess. Með því er hægt að efla starf ungmennaráðs enn frekar og ráðið getur tekið afstöðu til málanna með beinum hætti. Enn fremur getur ungmennaráð tekið upp á því að gera athugasemdir við það sem fram kemur í fundargerðum byggðarráðs og sveitarstjórnar. Er hugmynd að ungmennaráð fái fulltrúa frá sveitarstjórn til sín á fund einu sinni eða oftar á ári þar sem tækifæri gefst til umræðna um málefni ungs fólks?“

Svar D-lista:
„Við viljum endilega að þið látið til ykkar taka í umræðu um málefni sveitarfélagsins enda er framtíðin ykkar og afar nauðsynlegt að þið takið þátt í þeirri umræðu.“

Svar B-lista:
„Við viljum að ungmennaráð verði virkt við stjórn sveitarfélagsins, sbr. 3 og 5 gr erindisbréfs ungmennaráðs.“

3. Hugsuðu þið að alvöru þegar þið settuð saman lista hjá ykkur að hvetja ungt fólk til þátttöku?
Svar N-lista:
„Já, á N-listanum er margir ungir einstaklingar. Þegar listinn var settur saman var markmiðið að hann yrði borinn uppi af ungu fólki í bland við fólk á besta aldri. Okkur finnst mikilvægt að rödd unga fólksins fái að heyrast.“

Svar D-lista:
„Já en betur má ef duga skal og alltaf er hægt að gera betur.“

Svar B-lista:
„B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna var settur saman af uppstillingarnefnd skipaðri af almennum félagsfundi Framsóknarfélags Húnaþings vestra. Skipan listans fer eftir reglum Framsóknar sem setur kröfur um aldur og kyn frambjóðenda.“


Ráðið þakkar fulltrúum sem eru að hætta í ráðinu fyrir frábært og öflugt starf í vetur og síðustu ár og óskar þeim velfarnaðar.
Ráðið þakkar einnig sviðsstjóra fyrir vel unnin störf með ungmennaráði á undanförnum árum.


Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið kl. 19.02

Var efnið á síðunni hjálplegt?