359. fundur

359. fundur skipulags- og umhverfisráðs haldinn fimmtudaginn 10. ágúst 2023 kl. 10:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Friðrik Már Sigurðsson formaður, Birkir Snær Gunnlaugsson varaformaður, Hallfríður Sigurbjörg Óladóttir og Óskar Már Jónsson.

Fríða Marý Halldórsdóttir boðaði forföll og engin varamaður sá sér fært um að mæta í hennar stað.

Starfsmenn

Bogi Kristinsson Magnusen skipulagsfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Bogi Kristinsson Magnusen.

Dagskrá:
1. Erindi nr. 2307026. Höfðabraut 29, umsókn um stöðuleyfi.
2. Erindi nr. 2307036. Grundartún 2, umsókn um byggingarleyfi.
3. Erindi nr. 2307037. Núpshlíð, umsókn um breytingu á skráningu.
4. Erindi nr. 2308001. Lækjarhvammur 2, umsókn um byggingarleyfi.
5. Erindi nr. 2211010. Húnaþing vestra, breyting á aðalskipulagi, Búland.
6. Erindi nr. 2211011. Hvítserkur, deiliskipulag.


Bætt á dagskrá með afbrigðum:

7. Erindi nr. 2308011. Kolbeinsá 1 og 2, umsókn um stofnun lóða.

Formaður nefndar óskaði eftir að fá að taka á dagskrá, erindi nr. 2308011. Kolbeinsá 1 og 2, umsókn um stofnun lóða.

Breyting á dagskrá samþykkt með 4 atkvæðum.

Afgreiðslur:

1. Erindi nr. 2307026. Höfðabraut 29, umsókn um stöðuleyfi.
Tengill ehf sækir um stöðuleyfi fyrir tvo geymslugáma á Höfðabraut 29 L144331.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stöðuleyfi til eins árs.


2. Erindi nr. 2307036. Grundartún 2, umsókn um byggingarleyfi.
Elínborg Sigurgeirsdóttir sækir um byggingarleyfi fyrir 182,5 m² einbýlishúsi á Grundartúni 2 L227185.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirhuguð byggingaráform á Grundartúni 2. Byggingarfulltrúa falið að vinna málið áfram.


3. Erindi nr. 2307037. Núpshlíð, umsókn um breytingu á skráningu.
Selshús ehf sækir um breytingu á skráningu á sumarhúsi á Núpshlíð F2134490 mhl. 03 í einbýlishús.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja breytingu á skráningu á sumarhúsi á Núpshlíð.


4. Erindi nr. 2308001. Lækjarhvammur 2, umsókn um byggingarleyfi.
Fanney Dögg Indriðadóttir sækir um byggingarleyfi fyrir 52,3 m² gestahús á Lækjarhvammi 2 L236205.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirhuguð byggingaráform á Lækjarhvammi 2. Byggingarfulltrúa falið að vinna málið áfram.


5. Erindi nr. 2211010. Húnaþing vestra, breyting á aðalskipulagi, Búland.
Aðalskipulagið var auglýst frá 3. maí ti1 16. júní 2023.
Umsagnir bárust frá stofnunum án athugasemda, en ábendingar barst frá Náttúrufræðistofnun.

Umsögn NI:
Varðandi reitinn sunnan og norðan við Eyri er stefnt að því að minnka opið svæði og byggja á því. Er fyrst og fremst um ræktuð tún að ræða með lítið verndargildi en í umsögn sinni um skipulagslýsinguna benti Náttúrufræðistofnun á að leggja þyrfti mat í umhverfisskýrslu á áhrif breytingarinnar á fuglalíf þar sem fuglar sæki gjarnan í ræktuð tún og einnig hvort uppbyggingin gæti haft áhrif á nálæg fjörusvæði. Þá var hvatt til þess að skoða tækifæri til endurheimtar votlendis.
Náttúrufræðistofnun telur ekki ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af áhrifum aðalskipulagsbreytingarinnar á náttúru. Engu að síður má gagnrýna að lítil umfjöllun er um möguleg umhverfisáhrif aðalskipulagsbreytingarinnar í greinargerðinni og kafli um áhrifamat fremur rýr að mati Náttúrufræðistofnunar. Ekki var minnst á þau atriði sem Náttúrufræðistofnun hafði reifað í umsögn sinni um skipulagslýsinguna. Tækifæri eru til frekari umfjöllunar um þessa þætti í væntanlegri deiliskipulagvinnu fyrir nýja íbúabyggð á svæðinu.
Ekki eru gerðar sértækar athugasemdir við deiliskipulagstillögurnar tvær.
Skipulags- og umhverfisráð telur að um minniháttar breytingu sé að ræða sem ekki hafi áhrif á náttúru á svæðinu.

 

 

 

 

Athugsemdir báurst frá Lindarbýli ehf.

 

Greinargerð með skipulagi ? tafla yfir verslun og þjónustu:
Í töflu yfir verslun og þjónustu, eftir breytingar, kemur eftirfarandi fram undir lið "Vþ-10 ? Lindarvegur"
Þrjú útleiguhús fyrir ferðaþjónustu. Alls 6 íbúðir með gistirými fyrir 24.
Við viljum benda á að fjöldi gistirýma fer alveg eftir hvernig íbúðirnar eru búnar húsgögnum, og íbúðirnar voru upprunalega hannaðar fyrir fleiri gesti. Til að koma í veg fyrir misskilning eða vandræði við hugsanlegar framtíðar breytingar á búnaði viljum við þess vegna biðja um að fjöldi gistirýma sem slíkur sé ekki sérstaklega tilgreindur, og þessum lið verði einfaldlega breytt yfir í:
Þrjú útleiguhús fyrir ferðaþjónustu. Alls 6 íbúðir.

Skipulagsstofnun gerir kröfu um að skilgreina fjölda gistirýma á svæðinu, Skipulags- og umhverfisráð vill að leiðrétt sé um fjölda húsa úr þremur í 6 útleiguhús í greinagerð og fjöldi gistirýma þar sem allt svæði Vþ-10 er skráð sem slíkt.


Varðandi leyfilega stærð húsa:
Eins og við bentum á í bréfi okkar dags. 23. janúar 2023, þá eru þau hús sem við höfum þegar byggt hönnuð samkvæmt núverandi skipulagi, þar sem stærð bygginga má ekki fara yfir 100m², og við höfum byggt upp að því marki.
Það er að okkar mati mikilvægt að nýtt skipulag geri ráð fyrir íbúðarhúsum sem ekki eru miklum mun stærri, þannig að hús okkar sem byggð hafa verið á allra síðustu árum stingi ekki í stúf og að ásýnd götumyndarinnar verði sem heillegust.
Ef rétt er skilið er nú hins vegar gert ráð fyrir að hús allt að 200m² verði leyfð, og mjög hætt er við að okkar hús, sem við höfum nýlega byggt samkvæmt núgildandi skipulagi, muni taka sig illa út innan um slík stórhýsi.
Viljum við biðja um að þetta verði endurskoðað með það í huga að takmarka verulega stærð nýrra húsa á þessari lengju þar sem áður voru áætluð frístundahús.
Skipulags- og umhverfisráð tekur undir þær ábendingar og leggur til að hámarksstærð húsa verði 100m².

Varðandi byggingarreiti:
Byggingarreitir á því svæði sem um er að ræða (F-1) eru lagfærðir og yfirleitt stækkaðir verulega. Þetta virðist þó ekki eiga við um byggingarreiti á þeim lóðum sem við höfum þegar byggt, þeir virðast af uppdrætti hafa verið lagfærðir en ekki stækkaðir.
Viljum við biðja um byggingareitir á lóðunum Lindarvegur 18, 20 og 22 verið stækkaðir til samræmis við byggingarreiti á öðrum lóðum sem breytingarnar ná yfir, til að liðka fyrir hugsanlegum framtíðar breytingum/stækkunum á byggingum í samræmi við nýtt skipulag.
Skipulags- og umhverfisráð tekur undir þær ábendingar, allir byggingarreitir skulu vera með sambærilega stærð.


Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja breytingar á aðalskipulagi Húnaþings 2014-2026 skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


6. Erindi nr. 2211011. Hvítserkur, deiliskipulag.
Skipulagssvæðið er 3.6 ha. að stærð og er staðsett í vestanverðum botni Húnafjarðar í landi Ósa, í Húnaþingi vestra.
Umsagnir bárust frá stofnunum, ábending barst frá Vegagerðinni um nýja vegtengingu og skal hún vera unnin í samráði við hana.
Ein athugasemd barst á auglýstum tíma frá Örvari B. Eiríkssyni framkvæmdastjóra Selaseturs Íslands
Því ber að fagna að ráðast eigi í þessar framkvæmdir og eru þær löngu tímabærar. Núverandi aðstaða er fjarri því fullnægjandi fyrir þann fjölda ferðamanna sem sækja svæðið heim ár hvert. En við þessar framkvæmdir þarf að hafa ýmislegt í huga.
1. Selurinn virðist vera að færa sig smátt og smátt innar (sunnar) í Sigríðarstaðavatnið. Hver er nákvæmlega ástæðan fyrir því er erfitt að fullyrða með 100% vissu en líklega hefur fjöldi ferðamanna þar áhrif. Þó að meirihluti þeirra hagi sér af virðingu og tillitssemi nærri selnum þá gera það ekki allir og t.d. eru talsverð brögð að því að ferðamenn séu með dróna sem truflar selinn.
Án þess að vera með mikla svarsýnisspá þá verðum við að vera meðvituð um þann möguleika að ef áreiti frá ferðamönnum á svæðinu verður of mikið þá gæti selurinn annað hvort fært sig annað eða loka þyrfti svæðinu að einhverju leiti eða yfir einhvern tíma til að verja þetta mikilvæga sellátur. Það er mikið hagsmunamál fyrir Húnaþing vestra að sú staða komi ekki upp. Stórbætt aðstaða á svæðinu gæti stuðlað að fjölgun umfram almenna fjölgun ferðamanna á landinu. T.d. ef rútur, sem núna eiga ekki auðvelt með að athafna sig þarna, fara að venja komur sínar í miklu mæli þangað.
Best væri að þarna væri starfsmaður yfir háannatímann sem uppfræddi og passaði uppá hegðun ferðamanna. Það er hins vegar kostnaðarsamt og því hugsanlega hagkvæmara að hafa miklar og góðar merkingar sem stuðla að góðri hegðun ferðamanna. Selasetrið hefur unnið hegðunarreglur (Code of conduct) sem eru kynntar fyrir ferðamönnum sem koma til okkar og ættu þær t.d. fullt erindi á skilti svæðisins. Við þurfum samt líka að vera opin fyrir fjölbreyttari leiðum en skiltum til að fræða ferðamenn, t.d. að skanna inn kóða og fá þá stutt myndbönd eða hljóðupptökur sem segja frá því mikilvægasta í stuttu hnitmiðuðu máli.
Það er mikilvægt að Selasetrið verði haft með í ráðum við gerð fræðsluskilta á svæðinu og hafi talsvert um það að segja hvaða upplýsingar komi þar fram svo hægt sé að nýta með sem bestum hætti þekkingu þess.
2. Í vor varð alvarlegt slys þegar ferðamaður freistaði þess að fara niður í fjöru beint frá útsýnispallinum. Hvítserkur er fallegur og tignarlegur þegar horft er á hann úr fjörunni en hann nýtur sín ekki eins vel frá útsýnispallinum og því er það vel skiljanlegt að ferðamenn freistist til þess að fara niður þennan varasama bratta þegar þeir gera sér grein fyrir þessu. Þ.a.l. er brýnt að annað hvort verði gerðar tröppur eða stigi beint frá pallinum niður í fjöru eða bjóða uppá aðra örugga leið í fjöruna sem er stutt frá útsýnispallinum. Núverandi teikning sýnir leið í fjöruna sem er of langt í suður því ferðamaðurinn þarf nánast að ganga nánast jafn langa leið og aftur að bílastæðinu til að komast í fjöruna og því mun fólk áfram freistast til þess að fara niður brattann við útsýnispallinn.
Það þarf að sýna með skýrum hætti við bílastæðið hvernig Hvítserkur lítur út frá útsýnispallinum annars vegar og úr fjörunni hins vegar svo að fólk geti strax þar tekið rétta ákvörðun um hvaða leið það vill frekar. Á upplýsingamiðstöðinni sýnum við fólki oft hvernig hann lítur út frá þessum tveimur stöðum og hvetjum það oft til þess að fara beint niður í fjör frá bílastæðinu. Þá sér það fljótt hvort selir séu á ósnum og getur svo notið Hvítserks frá góðu sjónarhorni.
3. Það gerist stundum að ferðamenn koma til okkar og spyrja hvar sé best að sjá selinn. Við bendum þá mjög oft á þetta svæði en þá segist viðkomandi hafa verið þar og ekki séð neinn sel. Við spyrjum þá hvert hann hafi farið (á útsýnispallinn eða niður í fjöru) og þá kemur í ljós að hann fór á útsýnispallinn og bjóst við að sjá seli frá honum sem gerist nánast aldrei. Þetta er vitanlega mjög svekkjandi fyrir viðkomandi og það vantar betri merkingar til að fyrirbyggja svona upplifun ferðamanna.
4. Á Ósum er búið að byggja upp fína salernisaðstöðu fyrir ferðamenn og til þess að auka líkurnar á góðri umgengni á svæðinu gæti verið skynsamlegt að benda á hana með skýrum hætti við bílastæðið við Hvítserk.


Skipulags- og umhverfisráð þakkar fyrir þær ábendingar sem bárust og leggur til við sveitarstjórn að samþykkja nýtt deiliskipulags deiliskipulagstillögu skv.1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


7. Erindi nr. 2308011. Kolbeinsá 1 og 2, umsókn um stofnun lóða.
Hannes Guðmundur Hilmarsson sækir um að stofna tvær 10.000 m² lóðir úr landi Kolbeinsá 1 og fær önnur staðfangið Selvík 1 og hin Seltangar 1.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðanna tveggja.

 

Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 11:45

Var efnið á síðunni hjálplegt?