346. fundur

346. fundur skipulags- og umhverfisráðs haldinn mánudaginn 11. júlí 2022 kl. 16:00 Ráðhúsi.

Fundarmenn

Friðrik Már Sigurðsson, Birkir Snær Gunnlaugsson, Fríða Marý Halldórsdóttir, Óskar Már Jónsson og Hallfríður Sigurbjörg Óladóttir.

Starfsmenn

Skipulagsfulltrúi, Bogi Kristinsson Magnusen.

Starfsmaður skipulagsfulltrúa, Elísa Ýr Sverrisdóttir.

Fundargerð ritaði: Elísa Ýr Sverrisdóttir.

 

Dagskrá:

1. Erindi nr. 2204022. Deiliskipulag austan Norðurbrautar.

2. Erindi nr. 2201037 Laxárdalsvegur, framkvæmdarleyfi.

3. Erindi nr. 2206029. Aðalskipulag og deiliskipulag við Eyri.

4. Erindi nr. 2206050 Kambslaut, stofnun lóðar.

 

Tekið á dagskrá:

 

5. Erindi nr. 2207003. Helguhvammur, umsókn um byggingarheimild.

6. Erindi nr. 2207024. Vatnsnesvegur, Kárastaðir - Skarð, umsókn um framkvæmdaleyfi.

7. Reglulegur fundartími skipulags- og umhverfisráðs.

 

Formaður nefndar óskaði eftir að fá að taka á dagskrá sem 5. dagskrárlið, Helguhvammur, umsókn um byggingarheimild, sem og 6. dagskrárlið, Vatnsnesvegur, Kárastaðir - Skarð, umsókn um framkvæmdaleyfi og 7. dagskrálið reglulegur fundartími Skipulags- og umhverfisráðs.

 

 

Breyting á dagskrá samþykkt með 5 atkvæðum.

 

 

 

 

 

Afgreiðslur:

 

1. Erindi nr. 2204022. Deiliskipulag austan Norðurbrautar.

Gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð með heimild til að stalla gólfplötu um 1,35 m. til að taka upp hæðarmismun á lóð. Hámarks nýtingarhlutfall er 0,3. Í áformum lóðarhafa er nýtingarhlutfall hærra en 0,4 og húsið á tveimur hæðum en ekki stallað.

Gert er ráð fyrir tveggja hæða einbýlishúsum við Lindaveg 2 ,4, 6, og 8 í endurskoðuðu deiliskipulagi og nýtingarhlutfallið er hækkað úr 0,3 í 0,4 frá gildandi deiliskipulagi.

Engin breyting er gerð á hæðarkótum.

 

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að grenndarkynna fyrirhugað byggingarleyfi fyrir aðliggjandi lóðarhöfum samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hagsmunaaðilar að mati nefndarinnar eru lóðarhafar við Lindarveg 3a, 5a, 6, 10, 12, 14, 18 og 20. Ráðið vill vekja athygli á að samkvæmt skipulagslögum fellur kostnaður við breytingar á deiliskipulagi á umsækjanda.

2. Erindi nr. 2201037. Laxárdalsvegur, framkvæmdarleyfi.

Umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir endurbyggingu á Laxárdalsvegi.

Afgreiðsla nefndarinnar:

Skipulags- og umhverfisráð telur framkvæmdina falla undir óverulegar breytingar á aðalskipulagi Húnaþings vestra í samræmi við gátlista Skipulagsstofnunar. Um er að ræða fjögur ný efnistökusvæði ásamt eldri námu við Laugarholt sem er þegar raskað svæði við Laxárdalsveg, sem nýta á til lagfæringa á Laxárdalsvegi, sjá töflu og mynd.

 

Náma D

 

Efni:

Jökulruðningur, mjúkur

Nothæft í:

Fyllingar og fláafleya

Stærð:

17.500 m2

Vinnsludýpt:

1 m

Áætlað nothæft magn

17.500 m3

Efnisþörf í verkið:

5.500 m3

 

Náma E

 

Efni:

Sandur og möl, gott efni

Nothæft í:

Fyllingar og fláafleya

Stærð:

13.000 m2

Vinnsludýpt:

2 m

Áætlað nothæft magn

26.000 m3

Efnisþörf í verkið:

5.500 m3

 

Náma F

 

Efni:

Líklega að mestu jökulruðningur

Nothæft í:

Fyllingar og fláafleya

Stærð:

5.000 m2

Vinnsludýpt:

1,3 m

Áætlað nothæft magn

6.500 m3

Efnisþörf í verkið:

1.500 m3

 

Náma G

 

Efni:

Líklega að mestu jökulruðningur

Nothæft í:

Fyllingar og fláafleya

Stærð:

8.700 m2

Vinnsludýpt:

1,5 m

Áætlað nothæft magn

13.000 m3

Efnisþörf í verkið:

2.500 m3

 

Náma H - Laugarholt

 

Efni:

Sandur og möl úr malarhjalla

Nothæft í:

Styrktarlag, fyllingar og fláafleya

Stærð:

11.000 m2

Vinnsludýpt:

4 m

Áætlað nothæft magn

44.000 m3

Efnisþörf í verkið:

30.000 m3

 

 

 

 

Rökstuðningur fyrir óverulegri breytingu er eftirfarandi:

Tillagan er í samræmi við meginstefnu aðalskipulagsins. Nýta á þessi nýju efnistökusvæði við Laxárdalsveg til lagfæringar á veginum. Í markmiðum aðalskipulags Húnaþings vestra 2014-2026 kemur fram að ávallt sé til taks næg efni til framkvæmda. Í skipulagi um samgöngur er markmiðið að leitað verði hagkvæmustu lausna í vegagerð og stuðlað að umferðar- og rekstraröryggi og samtengingu. Leiðir að því markmiði eru að stuðlað verði að bættum samgöngum innan sveitarfélagsins og við nágrannabyggðalög.

Efnistökusvæðin eru innan svæðis sem er skilgreint sem landbúnaðarland og liggur að Laxárdalsvegi. Ekki er um eiginlegt landbúnaðarsvæði að ræða hvorki til ræktunar né beitar, m.a. sökum nálægðar þess við tengiveginn Laxárdalsveg. Umfang landnýtingar eykst ekki verulega, settar verða strangar kröfur um frágang efnistökusvæða eftir að efnistöku er lokið.

Tillagan er ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á skipulagssvæðum eða utan þess. Krafa verður gerð um frágang á efnistökusvæðunum að efnistöku lokinni. Við veitingu framkvæmdaleyfis verði sett skilyrði um skipulega nýtingu, góða umgengni og frágang að vinnslu lokinni. Tillagan er frekar talin hafa jákvæð áhrif þar sem með lagfæringu á Laxárdalsvegi eykst umferðaröryggi svæðisins.

Að þessu leyti má færa sterk rök fyrir því að um óverulega breytingu sé að ræða þar sem efnistakan er innan svæða sem er að mestu þegar raskað og innan veghelgunarsvæðis Laxárdalsvegar. Ekki er talið að þessi nýju efnistökusvæði hafi stórt landfræðilegt umfang. Um er að ræða efnistökusvæði sem eru á stærðinni 0,5-1,75 ha, öll svæðin eru innan raskaðs svæðis við Laxárdalsveg.

 

Óskað var eftir umsögnum frá Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.

 

Umsögn Umhverfisstofnunar:

Álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir í bréfi dags. 11. mars sl. þar sem kemur fram að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun telur að frágangi á námum D, E, F og G eigi að taka mið af því að langur tími mun sennilega líða áður en farið verði aftur í þessar námur vegna síðri efnisgæða en í námunum við Innstrandarveg. Frágangur þar á einnig að vera vandaður þótt ætlunin sé að nýta þessar námur seinna við aðrar framkvæmdir á svæðinu. Hér er um að ræða óverulega breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Umhverfisstofnun gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við umrædda breytingu á aðalskipulagi.

 

Umsögn Vegagerðarinnar:

Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við breytinguna.

 

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í samræmi gátlista Skipulagsstofnunar um óverulega breytingu á aðalskipulagi og umsagnir Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar.

 

 

3. Erindi nr. 2206029. Aðalskipulag og deiliskipulag við Eyri.

Á fundi Byggðaráðs þann 20. júní 2022 var vísað til skipulags- og umhverfisráðs að endurskoða breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna umsóknar Kolbrúnar Grétarsdóttur og Jóhanns Albertssonar, sem sækja um fyrir hönd Gabriele Boiselli. Málið var áður á dagskrá skipulags- og umhverfisráðs þann 5. maí sl.

Lagt fram erindi frá Kolbrúnu Grétarsdóttur og Jóhanni Albertssyni þar sem þau fara þess á leit við byggðarráð að taka upp skipulag svo að Eyrarlandi 2 verði breytt úr iðnaðarlóð í íbúðarlóð.

Um er að ræða breytingar á svæði liggur neðst við sjávarbakkann norðan Eyrar L144421.“

 

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja að vinna breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026 skv 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og breytingu á deiliskipulagi skv 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Svæði merkt AT3 (athafnasvæði) í gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi við Búland Hvammstanga úr athafnasvæði yfir í ÍB (íbúðabyggð) og OP-3 (opin svæði) á þéttbýlisuppdrætti í gildandi aðalskipulagi verði breytt í AT til mótvægis fyrir til að minnka ekki stærð athafnarsvæðis. Þannig að stærð athafnasvæðis verður sambærileg og fyrir er. Ráðið vill vekja athygli á að samkvæmt skipulagslögum fellur kostnaður við breytingar á aðal- og deiliskipulagi á umsækjanda.

 

 

4. Erindi nr. 2206050. Kambslaut, stofnun lóðar.

Jóhanna Þórarinsdóttir sækir um stofnun lóðar úr landi Kambhóls, lnr. 144618, samkvæmt uppdrætti gerðum af Önnu Margréti Jónsdóttur dags. 13. janúar 2022. Stofnuð lóð fær heitið Kambslaut.

 

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir stofnun lóðar Kambslaut.

 

5. Erindi nr. 2207003. Helguhvammur, umsókn um byggingarheimild.

Hannes Þór Pétursson og Þorbjörg Valdimarsdóttir sækja um byggingarheimild fyrir viðbyggingu við íbúðarhús Helguhvamms F2134321.

 

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að heimila að falla frá grenndarkynningu þar sem um óverulegt frávik er að ræða og hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Byggingarfulltrúa falið að vinna málið áfram.

 

 

6. Erindi nr. 2207024. Vatnsnesvegur, Kárastaðir - Skarð, umsókn um framkvæmdaleyfi.

Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi sem felur í sér endurbyggingu á Vatnsnesvegi (711), Kárastaðir - Skarð, samtals 7,1 km kafla Vatnsnesvegar í Húnaþings vestra. Vegstæði á Vatnsnesvegi verður endurbyggt með nokkrum lagfæringum á plan- og hæðarlegu.

Gert verður tímabundið framhjáhlaup fram hjá skeringu við stöð 10.700 við Skarð. Framhjáhlaup verður fjarlægt að framkvæmdum loknum. Allt efni í framkvæmdina kemur úr skeringum meðfram vegi og verða því engar námur notaðar í verkið.

Verkið verður boðið út í lok sumars 2022 og áætlað er að framkvæmdir hefjist í haust. Áætlað er að framkvæmdum verði að fullu lokið haustið 2023.

 

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012. Framkvæmdin er í samræmi við gildandi skipulag og er ekki tilkynningarskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 111/2022.

 

7. Reglulegur fundartími skipulags- og umhverfisráðs.

Skipulags- og umhverfisráð tekur ákvörðun um að fastur fundatími sé fyrsta fimmtudag hvers mánaðar klukkan 15:00.

 

 

Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:28

 



 

 

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?