317. fundur

317. fundur skipulags- og umhverfisráðs haldinn fimmtudaginn 6. febrúar 2020 kl. 17:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Guðjón Þórarinn Loftsson varaformaður, Guðmundur Ísfeld, Erla Björg Kristinsdóttir og Hallfríður Ósk Ólafsdóttir.

Starfsmenn

Ólafur Jakobsson, Byggingarfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Guðjón Þórarinn Loftsson.

Dagskrá:

  1.       Erindi nr. 2001013. Víkurvegur 18, stækkun sumarhúss.
  2.       Erindi nr. 2001014. Norðurbraut 10, lóðarblað.
  3.      Erindi nr. 2001034. Tannstaðabakki, skógrækt.
  4.      Erindi nr. 2001048. Syðri-Ánastaðir 1, stofnun lóðar um íbúðarhús.
  5.      Erindi nr. 2001051. Brekkugata 10, breytt notkun bílskúrs.
  6.     Erindi nr. 1909038. Hestaíþróttasvæði Kirkjuhvammi, niðurstaða grenndarkynningar.

 

Afgreiðslur:

  1.         Erindi nr. 2001013. Steve B. Petersen sækir með tölvupósti dagsettum 7. janúar 2020 um undanþágu frá deiliskipulagi hvað varðar hámarks byggingarmagn á lóðinni Víkurvegur 18. Hámarks byggingarmagn er 60 m2. Bústaðurinn á lóðinni er rétt rúmlega 60 m2 þannig að enginn möguleiki er að stækka hann. Einnig er sótt um uppsetningu vindmyllu. Hún er á lóðréttum öxli, 3,3 m há og 2,8 m í þvermál. Hljóðstig er gefið upp <40 dB.

Skipulags- og umhverfisráð hafnar því að bústaðurinn verði stækkaður með vísan í gildandi deiliskipulag. Hins vegar samþykkir ráðið uppsetningu vindmyllunnar en kallar eftir uppdrætti af staðsetningu hennar.

 2.         Erindi nr. 2001014. Erindi frá Svövu Magnúsdóttur þar sem hún leggur fram hugmyndir að íbúðarhúsi á lóð sína Norðurbraut 10. Húsið er timburhús á einni hæð og mun snúa mæni norður - suður. Húsið er um það bil 100 m2. Leyfilegt byggingarmagn er 170 m2 samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Skipulags- og umhverfisráð gerir ekki athugasemd við hugmyndir umsækjanda en bendir á að leggja þarf inn aðaluppdrætti og afstöðumynd þar sem fram kemur möguleg staðsetning bílgeymslu.

 3.       Erindi nr. 2001034. Guðrún Eik Skúladóttir, kt. 180288-3179, sækir fyrir hönd Máreik ehf, kt. 560606-1250, eiganda Tannstaðabakka, lnr. 144054, um heimild til að hefja skógrækt á jörðinni. Fyrirhuguð skógrækt er áætluð 30 ha að stærð á tveimur afmörkuðum reitum, mólendi í bland við mýrar og holt. Unnið verður með landslagið á svæðinu, forðast verður að planta í beinar raðir og fleiri en ein tegund notuð. Ekki verður plantað í mýrar. Óskað er eftir afstöðu sveitarstjórnar hvort heimilt sé að hefja framkvæmdir við skógræktarsvæði á Tannstaðabakka.

Erindið um skógrækt á Tannstaðabakka (lnr. 144054) fellur að ákvæðum gildandi aðalskipulags kafla 3.2.1 um landbúnaðarsvæði og kafla 3.3.7 um skógræktar- og landgræðslusvæði. Svæðið sem er 30 ha alls, á tveimur afmörkuðum reitum og er minna en 200 ha og er því ekki tilkynningarskylt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu sbr. lög 106/2000, um mat á umhverfis-áhrifum.

Framkvæmdin fellur að meginstefnu gildandi aðalskipulags og hefur jákvæð áhrif á umhverfið og breytir ásýnd þess á jákvæðan hátt.

Skógræktaráætlunin fellur undir skilgreiningu 1.07,  flokk C í 1. viðauka laga 106/2000.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir fyrir sitt leyti að leyfi verði veitt fyrir framkvæmdinni í samræmi við framlögð gögn og 3. mgr. 4.gr reglugerðar 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

 4.       Erindi nr. 2001048.  Þorbjörg J. Ólafsdóttir, kt. 080150-4319, og Júlíus H. Ólafsson sækja fyrir hönd eigenda Syðri-Ánastaða 1, L144497, um leyfi til að skipta lóð úr landi jarðarinnar skv. meðfylgjandi uppdrætti gerðum af Skúla Hún Hilmarssyni, dags. 27.1.2020. Lóðin fær staðfangið Syðri-Ánastaðir 1A og landnúmerið 229613.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir landskiptin.

 5.       Erindi nr. 2001051. Sólborg Dóra Eðvaldsdóttir, kt. 240139-4569, sækir með erindi mótteknu 29.01.20, um leyfi til að innrétta íbúð í bílskúr á lóð sinni Brekkugötu 10. Byggingarmagn á lóðinni eykst ekki. Nýtingarhlutfall er 0,23.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir breytta notkun með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu grenndarkynningar sem nær til Brekkugötu 7 og 8 og Hvammstangabrautar 20.

 6.       Erindi nr. 1909038. Pálmi Geir Ríkharðsson leggur fram fyrir hönd Hestamannafélagsins Þyts, kt. 550180-0499, ósk um óverulega breytingu á deiliskipulagi Kirkjuhvamms á Hvammstanga vegna stækkunar á svæðismörkum hestaíþróttasvæðisins. Var áður á dagskrá 314. fundar Skipulags- og umhverfisráðs. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna hagsmunaaðilum.

Tillagan var grenndarkynnt hagsmunaaðilum skv. 2. og 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga og bárust ekki athugasemdir.

Skipulags-og umhverfisráð samþykkir óverulega breytingu á deiliskipulagi Kirkjuhvamms. Málsmeðferð verði í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Ráðið samþykkir einnig óverulega breytingu á aðalskipulagi samhliða skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga 123/2010.

 

Lagt fram til kynningar:

  1. Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 46.
  2. Áform Landsnets um endurnýjun tengivirkis í Hrútatungu kynnt.  Núverandi tengivirki verður rifið og nýtt yfirbyggt tengivirki sem byggir á GIS (gas insulated switchgear) tækni verður byggt.

 

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                   Fundi slitið kl. 17:49

Var efnið á síðunni hjálplegt?