202. fundur

202. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 2. ágúst 2023 kl. 13:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Sigríður Ólafsdóttir formaður, Ingimar Sigurðsson varaformaður, Halldór Pálsson aðalmaður, Dagbjört Diljá Einþórsdóttir aðalmaður og Ármann Pétursson varamaður

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri (í gegnum fjarfundabúnað).
Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg.

Formaður setti fund. Ármann Pétursson óskaði eftir að fá að taka á dagskrá förgun dýrahræja, starfsreglur búfjáreftirlitsmanns og sauðfjárveikivarnir. Samþykkt samhljóða.

Afgreiðslur:
1. 2307011 Bréf frá Bændasamtökum Íslands vegna lausagöngu búfjár.
Lagt fram til kynningar. Landbúnaðarráð þakkar Bændasamtökunum yfirferðina.
Sigríður Ólafsdóttir vék af fundi kl. 13:11. Við fundarstjórn tók Ingimar Sigurðsson varaformaður.
2. Fyrirkomulag gæsaveiða í löndum Húnaþings vestra haustið 2023.
Samþykkt að hafa fyrirkomulag gæsaveiða óbreytt frá fyrra ári. Gæsaveiðar 2023 verða með eftirfarandi hætti:
Veiðimönnum með gilt skotvopnaleyfi og veiðikort útgefið af veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til gæsaveiða í eignarlöndum sveitarfélagins. Í boði er að kaupa leyfi á þremur svæðum;
a. Eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði austan Víðidalsár ásamt jörðinni Öxnártungu.
b. Víðidalstunguheiði vestan Víðidalsár ásamt jörðunum Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Króki.
c. Eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru.
Hvert veiðileyfi gildir þann dag sem tilgreindur er á viðkomandi leyfi og er útgefið innan þess gæsaveiðitíma sem umhverfisráðuneytið gefur út vegna ársins 2023. Leyfið veitir einungis skráðum handhafa þess heimild til veiða á umræddu svæði á áðurnefndum tíma. Um er að ræða sölu á dagsleyfum.
Leyfin verða til sölu hjá Hallfríði Ólafsdóttur í Víðidalstungu. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.000 á dag.
Fjöldi veiðimanna á veiðisvæði er takmarkaður við 4 byssur á hverju svæði á dag. Veiðimenn eru hvattir til að tilkynna veiðar án leyfis til eftirlitsmanns.
Með vísan til 7. gr. Fjallskilasamþykktar Húnaþings vestra er óheimilt að nýta hunda og flygildi (dróna) til veiða fyrr en fyrstu göngum á viðkomandi afrétti er lokið.
Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra hafa heimild til að loka vegum og vegslóðum sem eru á forræði sveitarfélagsins án fyrirvara ef talið er að þeir liggi undir skemmdum vegna tíðarfars og umferðar. Veiðileyfið veitir því ekki tryggingu fyrir því að ávallt sé hægt að aka að veiðisvæði. Veiðileyfi eru ekki endurgreidd.
Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að náttúruauðlindum.
3. Fyrirkomulag rjúpnaveiða í löndum Húnaþings vestra haustið 2023.
Samþykkt að hafa fyrirkomulag rjúpnaveiða óbreytt frá fyrra ári og verður með eftirfarandi hætti haustið 2023.
Veiðimönnum með gilt skotvopnaleyfi og veiðikort útgefið af veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til rjúpnaveiða í eignarlöndum sveitarfélagins. Í boði verða tvenns konar leyfi sem gefin verða út á jafnmörg svæði, en þau eru;
a) Eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði ásamt jörðunum Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og eignarhlut Húnaþings vestra í Öxnártungu (svæði 1).
b) Eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru (svæði 2).
Hvert veiðileyfi sem selt er gildir á veiðitíma rjúpu sem umhverfisráðuneytið gefur út vegna ársins 2023 og veitir einungis skráðum handhafa þess heimild til veiða á umræddu svæði á áðurnefndum tíma. Um er að ræða sölu á dagsleyfum.
Veiðileyfin verða til sölu hjá Hallfríði Ólafsdóttur í Víðidalstungu. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 10.000 á dag.
Fjöldi veiðimanna á veiðisvæði 1 er takmarkaður við 4 byssur á dag, en 5 byssur á svæði 2. Veiðimenn eru hvattir til að tilkynna veiðar án leyfis til eftirlitsmanns.
Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra hafa heimild til að loka vegum og vegslóðum sem eru á forræði sveitarfélagsins án fyrirvara ef talið er að þeir liggi undir skemmdum vegna tíðarfars og umferðar. Veiðileyfið veitir því ekki tryggingu fyrir því að ávallt sé hægt að aka að veiðisvæði. Veiðileyfi eru ekki endurgreidd.
Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er ákveðið og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að náttúruauðlindum.
Sigríður Ólafsdóttir kom aftur til fundar kl. 13:16 og tók við fundarstjórn að nýju.
4. Veiðieftirlit.
Samþykkt að veiðieftirlit verði með sama hætti og undanfarin ár.
Bætt á dagskrá:
5. Förgun dýrahræja.
Ármann óskaði eftir upplýsingum um stöðu á förgun dýrahræja frá því að 200. fundur landbúnaðarráðs var haldinn þann 5. apríl sl. Málið er enn í vinnslu þar sem óvissa er um hvort að ábyrgð förgunar liggi hjá sveitarfélögum, ásamt því að verkefnið er tæknilega flókið og kostnaðarsamt í sveitarfélagi með mörgum varnarhólfum.
6. Starfsreglur búfjáreftirlitsmanns.
Rætt um starfsreglur búfjáreftirlitsmanns. Formanni og sveitarstjóra er falið að fara yfir starfsreglurnar.
7. Sauðfjárveikivarnir.
Rætt um mikilvægi þess að allir bændur framfylgi þeim reglum sem settar hafa verið til varnar útbreiðslu á riðu sem og öðrum sjúkdómum.
Fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 14:06.

Var efnið á síðunni hjálplegt?