192. fundur

192. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn þriðjudaginn 21. júní 2022 kl. 13:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Sigríður Ólafsdóttir formaður, Ingimar Sigurðsson aðalmaður, Halldór Pálsson aðalmaður, Guðrún Eik Skúladóttir aðalmaður og Dagbjört Diljá Einþórsdóttir aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri 

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

Formaður setti fund og óskaði eftir að taka á dagskrá sem 4. dagskrárlið úthlutun fjármagns til viðhalds samgönguleiða og sem 5. dagskrárlið varnalína vegna sjúkdómsvarna.

Dagskrá:

  1. Erindi frá Liljana Milenkoska
  2. Erindi frá Skúla Sigfússyni
  3. Erindi frá Fjallskiladeild Vatnsnes

Afgreiðslur:

  1. Lagt fram erindi frá Liljana Milenkoska dags. 6. júní sl. þar sem hún óskar eftir leyfi til tínslu fjallagrasa í heiðarlöndum sveitarfélagsins á Holtavörðuheiði og Arnarvatnsheiði fyrir hönd Nadezda Milenkoska. Bent er á að sveitarfélagið á einungis lítinn hluta af Holtavörðuheiði.

Landbúnaðarráð Húnaþings vestra leggur áherslu á að ekki sé gengið á gæði landsins en leggst ekki gegn því að land í eigu sveitarfélagsins sé nytjað á skynsaman hátt. Landbúnaðarráð leggur til að Nadezda Milenkoska verði veitt leyfi til fjallagrasanytja sumarið 2022. Jafnframt er sveitarstjóra falið að fá ráðgjöf hjá Náttúrufræðistofu Norðurlands vestra um nytjaþol svæðisins.

2.  Lagt fram erindi frá Skúla Sigfússyni frá 23. maí sl. vegna grenjavinnslusvæða þar sem hann óskar eftir leiðréttingu á merkjum Víðidals- og Miðfjarðasvæðis. Formanni landbúnaðarráðs og sveitarstjóra falið að funda með hlutaðeigandi vegna málsins.

3. Lagt fram erindi frá Fjallskiladeild Vatnsness þar sem óskað er eftir kr. 300.000 styrk vegna styrkvega árið 2022. Vísað til 4. dagskrárliðar.

4. Úthlutun fjármagns til viðhalds samgönguleiða. Borist hefur bréf frá Vegagerðinni, þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið úthlutun til styrkvega árið 2022 kr. 5.000.000. Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins árið 2022 er samþykkt að veita kr. 1.800.000 til styrkvega. Alls eru því til úthlutunar kr. 6.800.000.
Eftirfarandi tillaga um skiptingu fjárins var samþykkt samhljóða:

a) Til afréttarvega á Víðidalstunguheiði kr. 3.550.000
b) Til afréttavega í Miðfirði kr. 1.800.000
c) Til afréttavega í Hrútafirði austur kr. 900.000
d) Til vegar yfir Brandagilsháls kr. 250.000
e) Til vegar upp á Vatnsnesfjall kr. 300.000

Viðkomandi fjallskilastjórnir sjái um framkvæmdir á afréttarvegum hver á sínu svæði að öðru leyti en því að sveitarstjóra er falið að fá verktaka í viðhald vegar yfir Brandagilsháls.
Landbúnaðarráð leggur til að samræmt gjald verði fyrir vinnu við styrkvegi í sveitarfélaginu. Gjald fyrir dráttarvél með vagni og manni verði að hámarki kr. 16.000 með VSK.
Áréttað er að vinnu við styrkvegi skal vera lokið fyrir fyrstu göngur og reikningar þurfa að berast til sveitarfélagsins fyrir 30. september.

 

5.  Varnarlínur vegna sjúkdómsvarna. Lögð fram til kynningar áætlun Matvælastofnunar um viðhald varnalína fyrir árið 2022. Landbúnaðarráð vekur athygli á að hvergi má tilslaka í sjúkdómavörnum sérstaklega í ljósi aukinnar tíðni riðusmita undanfarin ár. Hvetur landbúnaðarráð Matvælastofnun og matvælaráðuneytið til að fylgja eftir sóttvörnum enn fremur en gert hefur verið hingað til.

 

Fundargerð upplesin, fundi slitið kl. 14:45

Var efnið á síðunni hjálplegt?