187. fundur

187. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn þriðjudaginn 12. október 2021 kl. 13:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Ingimar Sigurðsson, formaður, Ebba Gunnarsdóttir, aðalmaður, Halldór Pálsson, aðalmaður, Sigríður Ólafsdóttir, varamaður og Guðmundur Ísfeld varamaður.

 

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri

 

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.

Formaður setti fund og óskaði eftir að taka á dagskrá sem 4. dagskrárlið varnargirðingar og sem 5. dagskrárlið skógrækt í Hrútafirði. Samþykkt samhljóða.

 

Dagskrá:

  1. Vetrarveiði á ref
  2. Uppgjör vegna refa- og minkaveiða
  3. Söfnun og förgun dýrahræja
  4. Varnargirðingar
  5. Skógrækt í Hrútafirði

 

Afgreiðslur:

 

  1. Vetrarveiði á ref. Landbúnaðarráð óskar eftir að fá kr. 1.000.000 í fjárveitingu á árinu 2021 til vetrarveiða á ref. Sveitarstjóra falið að auglýsa eftir aðilum til vetrarveiða á ref með umsóknarfresti til 1. nóvember nk., með fyrirvara um að fjármagn fáist.
  2. Uppgjör vegna refa- og minkaveiða. Lagðar fram upplýsingar um refa- og minkaveiði frá 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. Kostnaður Húnaþings vestra vegna refa- og minkaveiði á þessu tímabili er alls kr. 8.674.778.- Unnin grendýr eru 100, yrðlingar 216, hlaupadýr 104 og minkar 99. Allnokkur fjölgun er á veiddum dýrum frá fyrri árum og því er mikilvægt að tryggja fjárveitingu til áframhaldandi veiða til að halda stofninum í skefjum.
  3. Söfnun og förgun dýrahræja. Fyrir fundinum lá umræðuskjal um mögulega útfærslu og framkvæmd á söfnun og förgun dýrahræja í Húnaþingi vestra. Landbúnaðarráð leggur til að umræðuskjalið verði sent búgreinafélögum til kynningar og óskað verði eftir ábendingum varðandi útfærslu og framkvæmd söfnunarinnar.

 

   4 .Varnargirðingar. Lögð er fram eftirfarandi tillaga að bókun: „Í ljósi nýgengis riðusmita í Skagafirði sér landbúnaðarráð ástæðu til að gagnrýna aftur niðurlagningu varnarlínu við Blöndu en málið var áður á dagskrá ráðsins þann 7. febrúar 2018.

Það verður að teljast afar sérstakt, í ljósi aðstæðna þá og nú, að Matvælastofnun skuli hafa leyft sér að leggja niður varnargirðingu við Blöndu, þvert á tillögu starfshóps á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem skipaður var til að endurskoða fyrirkomulag varnarlína.

Það hlýtur að vera öllum ljóst sem að málinu koma hversu gríðarlegt hagsmunamál það er fyrir bændur og landið allt að sjúkdómavörnum sé viðhaldið á réttan máta og má þar hvergi til slaka.

Landbúnaðarráð gerir hér með kröfu um að viðhald varnargirðinga verði verulega bætt enda er ljóst hversu gríðarlegt hagsmunamál það er fyrir bændur að sjúkdómavörnum sé viðhaldið. Þar með er það líka hagsmunamál samfélagsins í Húnaþingi vestra enda er landbúnaður og þá ekki hvað síst sauðfjárrækt ein af grunnstoðum sveitarfélagsins.“ Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

  5. Skógrækt í Hrútafirði. Á 337. fundi skipulags- og umhverfissráðs var tekið fyrir undir 8 lið erindi frá Festi fasteignir ehf. þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða skógrækt á jörðinni Fjarðarhorni landnr. 142188. Landbúnaðarráð vill árétta að slík framkvæmd þarf að taka tillit til og vera í sátt við nýtingu jarðarinnar og aðliggjandi jarða og tryggja þarf að hefðbundin landbúnaðarnot geti haldist eins og verið hefur. Landbúnaðarráð vekur einnig athygli á því að gömul þjóðleið, Sölvamannagötur, liggur í gegnum land Fjarðarhorns vestur í Dali. Beinir landbúnaðaráð því til sveitarstjórnar að nánar verði rætt við framkvæmdaraðila um öll sjónarmið áður en framkvæmdaleyfi verður veitt.

Fundargerð upplesin, fundi slitið kl. 14:26

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?