158. fundur

158. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 21. mars 2018 kl. 13:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Jóhann Ragnarsson, formaður, Sigtryggur Sigurvaldason, aðalmaður, Matthildur Hjálmarsdóttir, aðalmaður, aðalmaður, Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður og  Þórarinn Óli Rafnsson aðalmaður.

 

Starfsmenn

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Guðný Hrund Karlsdóttir

 Dagskrá:                                                          

1.  Bréf frá Mast um förgun dýrahræja
2.  Bréf frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins
3.  Fundur með a-hún vegna afréttamála
4.  Önnur mál

Afgreiðslur:

1.  Lagt fram erindi frá MAST vegna bréfs sem stofnuninni barst vegna förgunar dýrahræja.  Byggðarráð vísaði erindinu á 963 fundi sínum til Landbúnaðarráðs. 

Landbúnaðarráð undrast að MAST skuli vísa þessu máli alfarið á eitt sveitarfélag, Húnaþing vestra og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra þar sem stjórnvöld hafa verið með þessi mál til úrlausnar um áratuga skeið.  Umhverfisráðuneytið skipaði starfshóp 13. júlí 2012 sem fjallaði um lausnir fyrir áhættusaman sláturúrgang og dýrahræ og átti að finna lausnir sem myndu virka og ganga jafnt yfir alla.  Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu þann 4. desember sl. Í stuttu máli þá mælir starfshópurinn með að allur dýraúrgangur þ.e. dýrahræ og sjálfdauð dýr, verði brenndur.  Aðeins ein brennslustöð er á landinu, Kolka, en þar var hætt að taka á móti dýraleifum til brennslu þar sem mikil vandkvæði fylgja förgun í stöðunni.  Því er ljóst að úrræði eru engin.  Ekki má urða og ekki er aðstaða til að brenna!  

Landbúnaðarráð beinir því til atvinnu- og nýsköpunarráðherra að fundin verði lausn á málinu sem allra fyrst, lausn sem hægt er að framfylgja.  Vinnubrögð Mast eru hörmuð, en ekki virðist unnið eftir samræmdum og skýrum reglum heldur spjótum beint tilviljanakennt að einstaka sveitarfélögum. 

Einnig rætt um hvaða þjónustu önnur sveitarfélög eru að veita varðandi dýrahræ.   Bent var á tvær leiðir sem farnar eru í sveitarfélögum þar sem einn gámur er til staðar fyrir dýrahræ í hvoru sveitarfélagi.  Annars vegar að lagt sé fast gjald á hvert bú og hins vegar að rukkað sé gjald fyrir hvert dýr skv. forðagæsluskýrslu.  Í báðum tilfellum eru hræin urðuð.  Í Húnþingi vestra eru fjögur varnarhólf vegna búfjársjúkdóma og þar með ólöglegt fyrir bændur að flytja hræ á milli hólfa.  Því þarf að lágmarki 5 - 6 gáma í sveitarfélaginu og ljóst að hvor leiðin sem verður farin þá mun kostnaður verða verulega íþyngjandi fyrir bændur og sveitarfélagið.

2. Bréf frá starfshópi á vegum Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sem óskað er eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu um hvar mest er þörf á þriggja fasta rafmagni.  Skv. upplýsingum frá Rarik eru 84 staðir í Húnaþingi vestra án þriggja fasa rafmagns, þar af um 50 þar sem föst búseta er, smáiðnaður, ferðaþjónusta eða stórbýli.  Sveitarstjóri hefur auglýst eftir ábendingum íbúa.

3. Fundur með a-hún vegna afréttamála.  Greint frá fundi sem fjallskilastjórn Víðdælinga, sveitarstjóri og fulltrúi landbúnaðarráðs áttu með stjórn eignarhaldsfélags Grímstungu- og Haukagilsheiðar ásamt sveitarstjóra Húnavatnshrepps.   Fram eru komnar hugmyndir um að leitast við að ganga til samstarfs við íslenska ríkið, Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands um friðun í tilraunarskyni á þeim hluta Víðidalstunguheiðar, Grímstunguheiðar og Haukagilsheiðar sem gróðursnauðastur er.  Afréttir Húnaþings vestra eru heilt yfir taldir vel grónir. Gróðurframvinda hefur verið góð hingað til og þeir eru ekki staðsettir á gossvæði. Það er þó einn hluti Víðidalstunguheiðar sem er sandur að upplagi, og sá hluti heiðarinnar nefnist Stórisandur.

Framkomnar hugmyndir voru ræddar á almennum fundi fjallskiladeildar Víðdælinga á fimmtudag fyrir viku síðan.   Gagnrýni kom fram á fundinum um að þessi hugmynd hafi ekki verið á fundarboði og því sé nauðsynlegt að halda sér fund um málið þar sem þeir sem mesta hagmuni hafi,  þ.e. þeir sem eiga upprekstur á heiðina, fái kynningu og tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Landbúnaðarráð leggur áherslu á að haldinn verði vel auglýstur kynningarfundur með hagsmunaaðilum um málið áður en lengra er haldið.

4. Önnur mál

a) Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi.  Matthildur Hjálmarsdóttir fór á fundinn og sagði frá því sem þar fór fram sem og málþingi um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.  Flestir höfðu áhyggjur af hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendi Íslands því ekki hafi verið staðið við loforð og fyrirheit um rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagn væri of lítið og ákvarðanir ómarkvissar.  Samstarf og samráð við heimamenn, sem lofað var við stofnun þjóðgarðsins, hefur ekki verið eins og væntingar stóðu til.  Mikilvægt er að bæta úr þessum annmörkum áður en hugmyndum um stofnun þjóðgarðsins er fram haldið. 

b) Söfnun á rúlluplasti.  Rætt um að söfnun á rúlluplasti verði í seinni hluta júnímánaðar í stað ágúst eins og verið hefur.  Plasti er þá safnað þrisvar á ári, í nóv/des, apríl og júní.  Nýlega var komið fyrir gámi fyrir rúlluplast á gámavellinum Hirðu, til prufu.  Geta bændur því komið rúlluplasti frá sér allt árið á opnunartíma Hirðu. 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl. 14:55

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?