Fjallskilastjórn Víðdælinga - Almennur fjallskilafundur

Fjallskilastjórn Víðdælinga - Almennur fjallskilafundur fjallskilastjórnar haldinn fimmtudaginn 23. mars 2023 kl. 00:00 Dæli.

Fundarmenn

Dagný S. Ragnarsdóttir, Ingvar Ragnarsson, Maríanna E. Ragnarsdóttir

Fundargerð ritaði: Sigríður Ólafsdóttir

Dagskrá:

 1. Fundarsetning og skipan fundarstarfsmanna
 2. Skýrsla stjórnar lögð fram til kynningar
 3. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar
 4. Umræður um skýrslu stjórnar, ársreikninga og önnur mál
 5. Hlé
 6. Fyrirliggjandi verkefni
 7. Önnur mál

 


 1. Formaður fjallskilastjórnar, Dagný Ragnarsdóttir, setti fund og tilnefndi Friðrik Má Sigurðsson sem fundarstjóra og Sigríði Ólafsdóttur sem fundarritara. Samþykkt af fundi.
 2. Skýrsla stjórnar.
  Ný fjallskilastjórn er skipuð Dagnýju Ragnarsdóttur, Ingvari Ragnarssyni og Maríönnu Ragnarsdóttur. Farið var í gróðureftirlit með ráðunaut 2. júní og leit heiði ágætlega út. Upprekstur var leyfður í Krók og Lambhaga 3. júní, upprekstur framfyrir heiðargirðingu 8. júní og upprekstur hrossa 19. júní. Göngur voru 5.-10. september, réttað í Valdarásrétt 9. september og Víðidalstungurétt 10. september. Göngur gengu vel og var veður bjart og fallegt. Seinni göngur voru 16.– 18. september. Fundust 107 kindur og þar af 80 austan að. Flogið var á fimmtudegi fyrir seinni göngur sem hjálpaði til við að finna fé. Ekki var farið þess á leit við Austur-Húnvetninga að útvega menn í göngur þar sem það fyrirkomulag þótti ekki gefast vel árið áður. Allt fé sem kom úr Austur-Húnavatnssýslu var talið, bæði eftir réttir og heimalandasmalanir, og var heildarfjöldi fjár 3.012 gripir. Samhliða voru lögð fjallskil á gripina eftir reglum í fjallskilasamþykkt Húnaþings vestra. Sveitarstjórar Húnaþings vestra og Húnabyggðar hafa nú með höndum það verk að semja um úrlausn málsins ásamt því að haldinn verður vinnufundur með Vatnsdælingum til að vinna að framtíðarlausn sem báðir aðilar geta fellt sig við.
  Fjallskil voru hækkuð í 440 krónur á einingu úr 400 krónum. Dagsverk var hækkað úr 16.640 krónum í 19.000 krónur. Stóðsmölun gekk vel og var réttað 1. október. Nokkrar framkvæmdir voru við skála og réttir s.s. sett upp lyklabox, dilkar í Valdarásrétt endurbættir, kassi settur yfir rafstöð við Fellaskála og ný hurð í Mönguhólsskála. Við Bleikskvísl var sett upp innrekstrarhólf ásamt því að skólplagnir í skála voru settar upp. Vegum var viðhaldið eftir þörfum.
 3. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar. Tekjur voru 3.319.483 krónur ásamt styrk frá Húnaþingi vestra að upphæð 500 þúsund krónur. Gjöld voru 2.288.493 krónur. Hagnaður ársins var 1.530.990 krónur.
 4. Umræður um skýrslu stjórnar.
  Heimir Birgisson spurði um önnur þjónustugjöld, hvort skálar væru þar undir. Svarið er nei.
  Kristmundur Ingþórsson spurði hvernig væri sótt um styrki vegna skála og rétta. Svarið er til fjárhagsáætlunargerðar sveitarfélagsins.
  Ingvar Ragnarsson benti á að miðað við afkomu deildarinnar mætti lækka einingagjald fyrir árið 2023. Friðrik skýrði nánar frá stöðu deildarinnar gagnvart sveitarsjóði. Dagný greindi frá því að góð staða deildarinnar skýrðist að mestu leyti af því að ekki var þoka í göngum og sömuleiðis var óvenju lítið af aukaverkum eftir göngur sem þurfti að kaupa út.
 5. Hlé
 6. Fyrirliggjandi verkefni.
  Engin stór verkefni liggja fyrir. Halda verður áfram að byggja veginn upp svo hann opnist fyrr og lokist seinna en verið hefur. Koma þarf rennandi vatni inn í Bleikskvísl. Dagný hefur unnið með umsjónarmanni skála í verkefnaráði vegna línulagningar. Verið er að ræða við Landsnet möguleikann á því að girðing til að þvera heiðina fylgi með. Rekstrarleið stóðs verður breytt þannig að það verður rekið meðfram ánni í staðinn fyrir upp Dælisbrekkur og þar með rekið í ytra hlið næturhólfsins. Hugmynd hefur komið upp um að eftir 31. október megi einkaaðilar fara og sækja fé sem vitað er um á heiðinni, og eigandi viðkomandi kinda greiði þann kostnað sem þar af hlýst. Vinna þarf áfram að lausn mála á milli sveitarfélaganna varðandi framkvæmd gangna.
 7. Önnur mál.
  Pétur Þröstur Baldursson velti fyrir sér framkvæmd stóðsmölunar þegar verið er að breyta framkvæmd s.s. hvaða hlið er rekið í. Fleiri tryppi á móti færri merum gera stóðsmölum erfiðara fyrir.
  Kristín Guðmundsdóttir benti á að ekki er hægt að reka stóð inn um norðara hliðið á fullri ferð, betra væri að útbúa nýtt hlið við suðvesturhorn hólfsins. Kristín benti sömuleiðis á að erfitt væri að reka fé sem ættað er úr austursýslunni austuryfir heiðamót eins og reynt hefur verið til að fækka aðkomufé í réttum.
  Ólafur Benediktsson þakkaði fyrir innrekstrarhólf sem útbúin hafa verið við skála og nýtast vel í seinni göngum. Spurði af hverju austanfé hefði verið talið í heimalöndum. Spurði hvort Fellaskáli verði áfram notaður ef línugirðing kemur, ásamt því hvernig notkun annarra skála verður hugsuð í framhaldi af mögulegri styttingu gangna.
  Júlíus Guðni Antonsson svaraði því til varðandi talningu fjár í heimalöndum að það væri ágangur úr einni deild í aðra eins og það fé sem kemur af heiðinni, og sundurgreint sé hversu margt fé hafi komið í hvaða rétt. Benti á að ef línan kemur þvert á heiðalönd geti það gerbreytt aðstæðum varðandi smalamennskur, meðal annars vegna lagningar vega og girðinga. Telur að skálar í Fellaskála og Haugakvísl verði nýttir áfram en aðeins meira vafamál með Bleikskvísl og Möngu. Telur ekki tímabært að velta þessu fyrir sér að svo komnu máli. Ræddi um skerðingu tekna deildarinnar sem varð vegna brottfalls Fitjabæja úr deildinni.
  Örn Óli Andrésson benti á að slæmt væri að ekki væri búið að ganga frá uppgjöri sveitarstjórnar við deildina vegna brottfalls Fitjabænda, ásamt framtíðarskipulags Stóra-Hvarfs. Taldi að nauðsynlegt væri að bæta við hjóli í seinni göngur. Taldi að nauðsynlegt væri að bæta girðingar við Jónstein til að tryggja skilvirkni gangna. Benti á að það væru ekki nógu margir sendir til að smala austurtungu.
  Friðrik Már Sigurðsson ræddi um almenna eigendastefnu sveitarfélagsins varðandi eignarlönd sveitarfélagsins sem er í vinnslu, en Stóra-Hvarf fellur þar undir.
  Heimir Birgisson ræddi um fyrirkomulag gangna og telur að ekki sé forsvaranlegt að reyna aftur að reka fé austur yfir heiðamót, sú aðferð hafi ekki reynst vel. Telur að Vatnsdælingar muni ekki nýta línulagningu til girðingarframkvæmda og þar með myndi slík girðing ekki gagnast okkur.
  Júlíus benti á að forsenda fyrir girðingu væri að Landsnet nýtti girðingu sem mótvægisaðgerð gegn umhverfisáhrifum við lagninguna sjálfa.
  Friðrik benti á að ekki væri nóg að girða girðingu heldur þyrfti að viðhalda henni líka.
  Júlíus ræddi um að Landsnet þyrfti að koma að viðhaldi girðingar.
  Kristmundur Ingþórsson benti á að nauðsynlegt væri að halda sem mestu af graslendi norðan girðingar, ásamt því að velja þyrfti gott girðingarstæði.
  Ingvar Ragnarsson ræddi nánar um deilumál á milli sveitarfélaga og óskaði eftir hugmyndum að lausn mála. Benti á að samræma þyrfti smalamennskur í Víðidalsfjalli.
  Sigríður Ólafsdóttir skýrði nánar frá samningum varðandi fjallskil Fitjabænda.
  Örn Óli spurði um úthlutun peninga til heiðargirðinga og eftirlit með viðhaldi þeirra.
  Sigríður gerði grein fyrir úthlutun peninga til heiðargirðinga.
  Steinbjörn Tryggvason benti á að viðhaldi heiðargirðingar á Tungum sé verulega ábótavant. Benti sömuleið á nauðsyn þess að lagfæra girðingu við Jónstein.
  Steinbjörn spurði hvort stæði til að gera við ræsi vestan við Sjónarhólsás ásamt drullupytti á vegi austan við ásinn.
  Kristmundur spurði út í viðhald vegar ofan við Hrappsstaði.
  Ólafur Benediktsson benti á að ef girða á Stórasand af þarf að girða alveg austur í Blöndu. Ræddi almennt um fyrirkomulag gangna. Benti á viðhaldsþörf vegar fram að Fellaskála.
  Örn Óli velti því upp hvort ekki væri nauðsynlegt að skoða tryggingamál gangnamanna og hesta í göngum og fá sveitarfélagið með í það verk.
  Dagný þakkaði fyrir góðar og málefnalegar umræður, allar ábendingar verða teknar til skoðunar.

Fundargerð upplesin og samþykkt.

Var efnið á síðunni hjálplegt?