Fjallskilastjórn Víðdælinga

Fjallskilastjórn Víðdælinga fjallskilastjórnar haldinn fimmtudaginn 10. júní 2021 kl. 20:00 Að Dæli í Víðidal.

Fundarmenn

Almennur fundur í fjallskiladeild Víðdælinga, haldinn 10.6.2020 klukkan 20.00

Fundargerð ritaði: Sigríður Ólafsdóttir

Dagskrá:

  1. Fundarsetning og skipan fundarstarfsmanna
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram til kynningar
  3. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar, ársreikninga og önnur mál.

 

  1. Formaður fjallskilastjórnar, Ísólfur Líndal Þórisson, setti fund og tilnefndi Ólaf Benediktsson sem fundarstjóra og Sigríði Ólafsdóttur sem fundarritara. Samþykkt af fundi.
  2. Formaður fór yfir skýrslu stjórnar. Árið 2020 var kindum sleppt í Lambhaga og Krók 16. Júní, á heiði 20. Júní og hrossum 1. Júlí. Rafstöð var keypt í Fellaskála og framkvæmdum framhaldið við Mönguhólsskála. Framkvæmdir eru sömuleiðis hafnar við Valdarásrétt og verið er að stefna á að koma upp vatnssalerni í Bleikskvíslarskála.

COVID-19 setti mikinn svip á göngur haustsins 2020 og voru sóttvarnarreglur viðhafðar eftir fremsta megni, mikil vinna fór í skipulagningu þessa liðs.

Stóðréttir voru sömuleiðis litaðar af ástandinu og voru fjöldatakmarkanir í öllum réttum.

Göngur kostuðu mun meira en vanalega þar sem gangnamenn þurftu að liggja í tvo daga sökum þoku og hríðar. Sömuleiðis var mun meira fé í seinni göngum eins og gefur að skilja.

Efri-Fitjar og Neðri-Fitjar eru nú komnar yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga og þarf að skoða hvernig brugðist verður við tekju- og gangnamannatapi því sem af leiðir.

Fjallskilastjórn ásamt hluta sveitarstjórnar fundaði með Austur-Húnvetningum á vormánuðum varðandi gangnafyrirkomulag, þar sem svo mikið af fé kemur úr Vatnsdalnum niður með safni Víðdælinga.

Formaður fór yfir skiptingu fjármuna þeirra sem eru til úthlutunar í viðhald skála og vega sumarið 2021.

3. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar. Heildartekjur ársins 2020 voru 1.762.580 krónur, þar af voru tekjur af fjallskilum 1.193.412 krónur. Gjöld 2020 voru 2.825.459 krónur. Tap ársins 2020 var 1.062.879 krónur og kemur það fyrst og fremst til af aukakostnaði vegna gangna ásamt aukakostnaði við eftirleitir.

4. Umræður um skýrslu stjórnar, reikninga og önnur mál.

Formaður ræddi um breytt form greiðslna fyrir stjórnarfundi en núna greiðist fundakostnaður af sveitarfélaginu. Formaður gerði nánar grein fyrir fundahöldum með Austur-Húnvetningum en niðurstaða þess fundar var að A-Hún leggur til tvo hjólamenn á þriðjudegi og miðvikudegi gangna. Jafnframt var rætt um almennt fyrirkomulag gangna haustsins. Stefnt er á að hækka einingaverð úr 360 krónum í 400 krónur.

Formaður kynnti gróðurleiðangur sem farinn var 10. Júní. Ákveðið var að hleypa fé í Lambhaga og Krók 16. Júní og framfyrir heiðargirðingu 25. Júní. Hrossum verður hleypt á heiði 1. Júlí ef gróðurframvinda heldur áfram jafn hratt og undanfarnar vikur.

Garðar Gíslason spurði hví væri ekki opnað fram á heiði strax. Ísólfur svaraði en þessar opnanir eru gerðar í samráði við ráðunaut.
Pétur Þ. Baldursson ræddi um kostnað við göngur, taldi að að göngur hafi litið betur út en útlit var fyrir á tímabili. Ræddi um almenna nýtingu á heiðinni og telur hana vannýtta. Ræddi um fyrirkomulag stóðsmölunar.
Ingvar F. Ragnarsson kom með fyrirspurn varðandi sundurliðun reikninga ásamt dagsetningu á opnun heiðarinnar. Ingvar spurði jafnframt hvort fyrirkomulag varðandi hjólamenn frá A-Hún væri í hendi.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir gerði nánar grein fyrir sundurliðun reikninga ásamt því að skýra nánar frá fundi með A-Hún. Jafnframt skýrði R. Jóna nánar frá samkomulagi varðandi flutning Efri- og Neðri-Fitja yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga.
Sigtryggur Sigurvaldason ræddi um rekstur fjallskiladeildarinnar, telur eðlilegast að sveitarfélagið taki á sig kostnað við COVID-19 í göngum haustið 2020. Sigtryggur vill fá nánari sundurliðun á reikningum. Ræddi um fyrirkomulag gangna og viðhald skála, vega og rétta.

Gunnar Þorgeirsson þakkaði fyrir gott samstarf. Benti á að eina lausnin til framtíðar sé að girða á milli Vatnsdals og Víðidals.

Birgir Ingþórsson ræddi um fyrirkomulag gangna og framtíðarskipulag fjallskila. Telur að nauðsynlegt sé að minnka það land sem fé gengur á fram á heiðum.

Ísólfur svaraði þeim fyrirspurnum sem komu fram. Ræddi nánar um útdeilingu fjármuna í skála, vegi og réttir ásamt því að fara frekar í kostnað við göngur.

Ólafur Benediktsson spurði hvort eignarhald á landi undir Valdarásrétt sé skýrt. Telur að minnka þurfi smalasvæði til að draga úr kostnaði við göngur.

Ísólfur ræddi nánar um hugmyndir varðandi girðingar á heiðinni og smalamennskur í tengslum við þær.
Pétur Þ. Baldursson ræddi um tímasetningar á sauðfjársleppingum fram í Lambhaga og Krók. Vill jafnframt að fundir séu auglýstir betur.

Ísólfur benti á að ráðunautur sé fenginn til að ráðleggja tímasetningar og er því eðilegt að fara eftir þeim leiðbeiningum. Benti á að fundurinn hafi verið auglýstur á Facebook og heimasíðu sveitarfélagsins.

Björn Vignir Sigurðsson benti á reglur Búnaðarfélags Víðdælinga þar sem félaginu ber að auglýsa fundi á þeim miðli sem mest er nýttur á viðkomandi tíma.

Júlíus Guðni Antonsson ræddi um uppsetningu reikninga. Ræddi um viðhald skála. Telur að nauðsynlegt sé að girða heiðina af. Ræddi um skipulag gangna og fjallskilamála.

Birgir Ingþórsson ræddi nánar um minnkun afréttarlands og fjallskilamál almennt.

Steinbjörn Tryggvason ræddi um fyrirkomulag gangna, velti upp nýjum hugmyndum varðandi fyrirkomulag undanreiðardags. Telur að það sé ekki hægt að fækka undanreiðarmönnum meira en orðið er.

Fleira ekki rætt

Fundargerð upplesin og samþykkt, formaður sleit fundi klukkan 23.09

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?