Fjallskilastjórn Víðdælinga

Fjallskilastjórn Víðdælinga fjallskilastjórnar haldinn þriðjudaginn 12. apríl 2022 kl. 00:00 Dæli.

Fundarmenn

Ísólfur Líndal Þórisson, Ólafur Benediktsson, Sigríður Ólafsdóttir

Fundargerð ritaði: Sigríður Ólafsdóttir

Dagskrá:

  1. Fundarsetning og skipan fundarstarfsmanna
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram til kynningar
  3. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar, ársreikninga og önnur mál
  5. Hlé
  6. Fyrirliggjandi verkefni
  7. Umræður um lið 6
  8. Hugleiðingar fráfarandi stjórnar
  9. Umræður um lið 8
  10. Önnur mál

 

  1. Formaður fjallskilastjórnar, Ísólfur Líndal Þórisson, setti fund og tilnefndi Ólaf Benediktsson sem fundarstjóra og Sigríði Ólafsdóttur sem fundarritara. Samþykkt af fundi.
  2. Formaður fór yfir skýrslu stjórnar. Greindi frá því að Gunnar Þorgeirsson hefði vikið úr stjórn á vormánuðum og Sigríður Ólafsdóttir komið inn sem varamaður.

Deildarfundur var haldinn 10. júní.

  1. júní var sömuleiðis farið í gróðureftirlit og ákveðið að hleypa í Lambhaga og Krók 16. júní en á heiðina 25. júní, hrossum var svo hleypt á heiðina 5. júlí.

Göngur voru ákveðnar 6-10. september, rétt í Valdarásrett 10. september og rétt í Víðidalstungurétt 11. september. Gekk það eftir aldrei þessu vant enda engin þoka síðastliðið haust.

Fjármagn sem fékkst í skála var 1,2 milljón króna, vegagerð 3 milljónir króna og heiðargirðingar 1,22 milljónir króna.

  1. júlí voru fjallskil lögð á og var einingaverðið hækkað í 400 krónur/einingu til að koma til móts við erfiða stöðu fjallskilasjóðs haustið 2021.

Göngur gengu heilt yfir vel.

Tilraun var gerð með að fá tvo menn frá Austur-Húnvetningum til að reyna að reka fé sem kemur austan að austur yfir aftur. Áhugaverð tilraun sem gekk því miður ekki og þarf því að leita annarra lausna.

Seinni göngur gengu vel og reyndist vel að láta fljúga yfir heiðina á sama tíma þar sem þá var hægt að staðsetja þær kindur sem sáust í flugi tiltölulega nákvæmlega og hægt að ganga/ríða beint að þeim.

Stóðsmölun gekk ekki eins vel og sauðfjársmölun þar sem í vikunni áður gerði svæsna norðanhríð sem gerði allar aðstæður erfiðar. Allir í dalnum og fleiri til lögðust á árar með að láta smölunina ganga upp.

Hvað varðar framkvæmdir þá var safngirðing við Valdarásrétt endurnýjuð. Vegur var lagaður í kringum Hvarfskvísl, vegur á milli ytri-og syðri Haugakvíslaðar var uppbyggður. Rotþró við Fellaskála var endurnýjuð. Sveitarfélaginu er þakkaður stuðningur við framkvæmd við rotþró í Fellaskála.

Í Fellaskála var hestahólfið sömuleiðis minnkað um helming, sett var upp hólf til að ná hrossum og er metið að þetta hafi verið breyting til batnaðar. Sömuleiðis var gert aðhald til að auðvelda það að ná fé í göngum.

Ræsi var sett í rekstrarleið vestur með girðingu frá Jónsteini.

Aðrar smærri aðgerðir voru framkvæmdar.

Töluverður tími fór í viðræður við Umhverfisráðuneytið varðandi hugmyndir um þvergirðingu fram á heiði. Var meðal annars farið í ferð með þáverandi Umhverfisráðherra og aðstoðarmanni hans til að sýna aðstæður.

Verið er að kanna hvar þinglýsingarpappírar varðandi landið undir Víðidalstungurétt leynist en pappírar varðandi Valdarásrétt eru fundnir.

Ósk kom um flýtingu á göngum í haust en hlaut ekki brautargengi og verða göngur því á venjulegum tíma.

  1. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar. Tekjur voru 2.542.301 krónur ásamt styrk frá Húnaþingi vestra að upphæð 500 þúsund krónur. Gjöld voru 2.357.812 krónur. Tap á deildinni er 70.204 krónur samanborið við 754.693 krónur árið 2020.
  2. Umræður um skýrslu stjórnar, reikninga og önnur mál.

Heimir Birgisson spurði um aukakostnað við það fé sem kom aukalega úr Vatnsdalnum síðastliðið haust, svarið er að enginn aukakostnaður varð af tilraunaverkefninu.
Sigtryggur Sigurvaldason ræddi um tilraunaverkefnið varðandi Vatnsdælinga og taldi að betra hefði verið að beina því frekar austur með Sandfellskvísl. Benti á að kostnaður við rotþró ætti ekki að vera á ábyrgð fjallskilastjórnar heldur sveitarfélagsins í heild.
Ingvar Ragnarsson þakkaði fjallskilastjórn fyrir störf ársins. Nefndi að það væri sveitarfélagsins að sinna kostnaði við skála. Nefndi að mögulega þurfi að breyta því fyrirkomulagi að ráðunautur sé fenginn til að meta beitarástand á heiðinni þar sem svo fátt fé fer núorðið frameftir. Nefndi að tilraun varðandi það að reka austanheiðarfé til baka yfir í Vatnsdal hefði gengið framar vonum en betur þyrfti að útfæra hugmyndina ef hún á að halda áfram.
Garðar Valur Gíslason spurði hversu margt fé Vatnsdælingar hefðu átt í Víðidal. Svarið var að það var mjög svipað og undanfarin ár.

Birgir Ingþórsson ræddi um tilraunina varðandi þá tvo menn sem komu yfir á Víðidalstunguheiði úr Vatnsdalnum og lýsti yfir vonbrigðum með það að sú leið sem var farin hafi ekki skilað meiru en hún gerði. Ræddi um hvaða leiðir er hægt að nýta til að minnka samgang á milli heiða. Er girðing á milli heiðanna fyrsti kostur að hans mati. Benti á að það sem skipti öllu máli varðandi smalamennskur er góð samvinna á milli sveitarfélaga.
Ísólfur Líndal Þórisson skýrði nánar frá kostnaði við rotþró í Fellaskála. Ræddi nánar um hugmyndir varðandi girðingarmál, taldi að það væri skynsamlegt að stefna að girðingu ef vel tekst til í samningum við yfirvöld.
Ólafur Benediktsson ræddi um samning um flutning Fitjabæja á milli fjallskiladeilda. Ræddi nánar um fé sem kemur úr Vatnsdal. Nefndi að sjálfsagt væri að stefna að því að girða á heiðamótum, ásamt því að girða Stórasand af.

Sigríður Ólafsdóttir skýrði nánar frá málefnum Fitjabæja.

Ingvar Ragnarsson spurði að þvi hvort gerður hefði verið leigusamningur við Fitjabændur varðandi Stóra-Hvarfs land. Spurði jafnframt að því hvort ekki væri rökrétt að sameina fjallskiladeildirnar allar í Húnaþingi vestra. Ræddi nánar um fé sem kemur úr Vatnsdal og þann kostnað sem þar hlýst af. Ræddi nánar um aðkomu ráðunautar að nýtingu heiðar.

Ísólfur Líndal Þórisson ræddi nánar um samninga varðandi málefni samninga við landnotendur um nýtingu Stóra-Hvarfs, ásamt því að ræða þurfi nánar þann tekjumissi sem fjallskiladeildin verður af þegar bæir hellast úr lestinni í fjallskiladeildinni.

Garðar Valur Gíslason ræddi nánar um fé það sem kemur yfir í Víðidal úr Vatnsdal.

Birgir Ingþórsson ræddi nánar um ágang fjár á milli afrétta og flutninga á fé á milli fjallskiladeilda. Taldi að ekki væri heimilt að bændur ákveði sjálfir hvenær upprekstur fer af stað að vori.

Sofia B. Krantz ræddi um heimalandasmalanir og skyldur landeigenda þar að lútandi.

Ólafur Benediktsson velti því upp hvort það væri löglegt að vera með eina fjallskiladeild yfir allt sveitarfélagið.
Heimir Birgisson spurði hvort hægt væri að hefja réttir fyrr á morgnana. Málið verður skoðað.
Kristín Guðmundsdóttir ræddi um gangnavesti og heimtur á þeim. Hvatti bændur til að skila vestum á hausti hverju. Ræddi um að stefnt sé á að sauma einhver ný vesti fyrir haustið.

  1. Hlé
  2. Fyrirliggjandi verkefni. Fundarstjóri óskaði eftir því að slá saman lið 6, fyrirliggjandi verkefnum og lið 8, hugleiðingum fráfarandi stjórnar. Samþykkt af fundi.

Ísólfur ræddi um þau verkefni sem standa fyrir höndum og eru þau ærin. Fyrst og fremst er nauðsynlegt að koma vatnssalernum í alla skála. Hestahólf þarf að klára ásamt því að setja ræsi á þá staði á veginum sem eru illfærir um leið og rignir. Áframhaldandi endursmíði er nauðsynleg í Valdarás ásamt því að finna fyrir víst afsal á landi undir Víðidalstungurétt.
Tvö ræsi og eitt staurabúnt eru til nú þegar og verða nýtt næsta sumar. Athugasemdir hafa komið varðandi eldvarnir í skálum og er nauðsynlegt að bæta úr þeim málum strax í sumar.

Sú hugmynd hefur komið upp hvort eðlilegt er að sveitarfélagið taki alfarið yfir skálana og fjallskilastjórnin greiði hefðbundið gistináttagjald fyrir þá daga sem göngur eru, frekar en að fjallskilastjórnin sjái að megninu til um viðhald og endurbætur skálanna.

Gott er að hafa hjól aukalega á austurheiði og sömuleiðis í seinni göngum.

Ræddi um heimalandasmalanir.

Nefndi hvort hugsanlega væri hægt að halda afslátt fyrir bændur sem setja hross á heiði frekar en þá sem halda hross heima, til að auka hrossafjölda í stóðréttum.

Ræddi Ísólfur heilt yfir um þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað á líðandi kjörtímabili.

Borin var fram eftirfarandi tillaga:
Almennur fundur í Fjallskiladeild Víðdælinga, haldinn í Dæli 12. apríl 2022, beinir því til sveitarstjórnar Húnaþings vestra að ganga frá leigu- eða sölumálum varðandi þann hluta Stóra-Hvarfs í Húnaþingi vestra, sem er vestan mæðiveikisgirðingar þeirrar er liggur á milli Húnahólfs og Miðfjarðarhólfs. Jafnframt beinir fundurinn því til sveitarstjórnar að deildin fái bættan þann fjárhagslega skaða sem deildin varð fyrir þegar jarðirnar Efri- og Neðri-Fitjar fluttust frá fjallskiladeild Víðdælinga yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga.

Tillagan samþykkt samhljóða.

  1. Umræður um fyrirliggjandi verkefni og hugleiðingar fráfarandi stjórnar.

Heimir Birgisson og Sofia Krantz ræddu um tökubás í Víðidalstungurétt.

Ingvar Ragnarsson ræddi nánar um framkvæmdir í Bleikskvísl og taldi nauðsynlegt að útbúa tökuhólf fyrir fé þar.

Birgir Ingþórsson ræddi gagnsemi dróna við smalamennskur framtíðarinnar.

  1. Áttunda mál var sameinað við sjötta mál.
  2. Níunda mál var sameinað við sjöunda má.
  3. Önnur mál:
    Jóhanna Erla Jóhannsdóttir ræddi um nauðsyn þess að gangnamenn viti í hvaða skála þeir eigi að gista eftir að farið er úr Fellaskála svo hægt sé að merkja farangur rétt. Nefndi jafnframt að nauðsynlegt sé ráðskonum að vita hvort og þá hvenær gangnamenn seinni flokks mæta í mat á þriðjudeginum.

Fleira ekki rætt

 

Fundargerð upplesin og samþykkt, formaður sleit fundi klukkan 22.17

 

 

 



Var efnið á síðunni hjálplegt?