Aðalfundur Fjallskiladeildar Víðidalstunguheiðar

Aðalfundur Fjallskiladeildar Víðidalstunguheiðar fjallskilastjórnar haldinn miðvikudaginn 10. apríl 2019 kl. 20:30 Dæli.

Dagskrá:

 1. Fundarsetning og skipan fundarstarfsmanna
 2. Skýrsla Stjórnar lögð fram til kynningar
 3. Ársreikningar lagðir fram til kynningar
 4. Umræður um skýrslu stjórnar, ársreikninga og önnur mál.

 

 1. Formaður fjallskilastjórnar, Ísólfur Líndal Þórisson, setti fund og tilnefndi Gunnar Þorgeirsson sem fundarstjóra og Sigríði Ólafsdóttur sem fundarritara. Samþykkt af fundi.
 2. Formaður fór yfir skýrslu stjórnar, sem kom öll ný inn eftir sveitarstjórnarkosningar vorsins 2018. Vegaframkvæmdir hafa verið nokkrar á árinu en þó er mikið sem eftir er að gera og stjórnast það meðal annars af bleytutíð sumarsins 2018. Hefðbundið viðhald var viðhaft á skálum ásamt því að nýframkvæmdum var fram haldið við Mönguhólsskála.
  Styrkur fékkst fyrir viðhaldi á réttum og meðal annars fékkst lágmarksstyrkur fyrir viðhaldi á Valdarásrétt. Jarðefni í almenningi Víðidalstunguréttar var skipt út. Rætt var um nýjar útfærslur á aðgengi að tökubás hrossa. Árið 2019 er áætlað fjármagn til rétta 500.000 kr, skála 900.000 kr og heiðagirðinga 1.134.000 kr.
  Framtöldum hrossum fjölgaði á milli áranna 2017 og 2018 en sauðfé fækkaði. Eftirleitir voru meiri en undanfarin ár sem stýrist að hluta til af veðurskilyrðum í fyrri göngum, og náðust síðustu kindur sem vitað var um 17. desember.
  Nauðsynlegt er að smala þegar lögboðnar heimalandasmalanir eru en einhver brögð hafa verið að því að það hafi ekki verið gert.
  Hollvinafélag Víðidalstunguheiðar fór í tiltektarferð síðastliðið sumar og eru þeim færðar þakkir fyrir.
  Á vormánuðum var haldinn fundur með fulltrúum Grímstungu- og Haukagilsheiðar til að ræða framtíðarskipulag gangna. Meðal annars var rætt um að færa seinni göngur aftur til fyrra forms þegar farið var fram á Austurheiði og komið niður vestan megin.
  Rætt hefur verið um að nýta dróna við smalamennskur til að flýta fyrir smölun.
  Rætt hefur verið um að skipta stóðsmölun upp þannig að smölun á hrossum og eftirlegukindum verði aðskilin þannig að auðveldara verði að þróa stóðsmölun og réttir sem menningarviðburð til hagsbótar ferðaþjónustuaðilum á svæðinu.
  Rætt um að gerð verði tilraun næsta haust um að nokkrir smalar fari fram á sunnudegi og smali Stórasand til austurs. Jafnframt hafa komið upp hugmyndir um að Austur-Húnvetningar sendi aukamenn upp í Gafl á föstudegi fyrir réttir til að koma í veg fyrir að fé hlaupi á milli sýslna.
 3. Ársreikningar lagðir fram til kynningar. Heildartekjur ársins 2018 voru 2.819.644 krónur, þar af voru tekjur af fjallskilum 2.261.808 krónur. Gjöld 2018 voru 3.348.063 krónur, þar af voru gjöld vegna aukaleita 848.885 krónur. Tap ársins 2018 var 528.419 krónur. 31.12.2017 átti Fjallskilasjóður inni 432.751 krónur hjá Sveitarstjóði og er því staða um áramót núna þannig að Fjallskilasjóður skuldar Sveitarsjóði 95.668 krónur.
 4. Umræður um skýrslu stjórnar, reikninga og önnur mál.
  Sigtryggur Sigurvaldason kom í pontu og þakkaði stjórn fyrir sín störf. Ræddi um kostnað við aukaleitir og taldi þær hafa verið óvenju erfiðar haustið 2018. Taldi að það muni ekki gagnast vel að aðskilja stóðsmölun frá smölun á eftirlegukindum en lagði til í staðinn að hluti gangnamanna yrði skipaður í að klára fjársmölun á meðan aðrir gangnamenn fari niður með stóð. Sigtryggur sagði sömuleiðis að áhugavert geti verið að prófa smölun á mánudegi í fyrri göngum enda myndi það létta mjög á safnrekstri í landi Víðidalstunguheiðar.
  Pétur Þ. Baldursson óskaði nýrri nefnd velfarnaðar í starfi. Lýsti sig andvígan þeirri breytingu sem var gerð þegar seinni göngur voru færðar aftur fyrir fyrri heimalandasmölun. Nefndi að fæ væri latrækara en fyrir nokkrum áratugum síðan. Spurði hvort væri hægt að fara fyrr af stað á morgnana í Gaflssmölun í fyrri göngum. Ræddi um mikilvægi menningarviðburðarins stóðrétta fyrir samfélagið í Víðidalnum en taldi að ekki væri endilega betra að smala kindum sér, og að smalamennskur þurfi að hafa forgang umfram ferðamenn.
  Júlíus Guðni Antonsson þakkaði fjallskilastjórn fyrir vel unnin störf. Ræddi um þær breytingar sem hafa orðið á göngum í gegnum áratugina, s.s. með þann kost sem gangnamenn búa við. Ræddi um tökubás fyrir hross og lagði áherslu á að hann væri vel lokaður svo ekki væri slysahætta fyrir fólk og dýr. Nefndi að mögulegt væri að nota steinsteypa dilka við innrekstrargang sem aðstöðu fyrir tökubás. Ræddi ruslamál við skála heiðarinnar, alltof algengt er að ferðamenn líti þannig á að rusl sé hirt reglulega við skála og skilja t.d. rusl eftir í hesthúsum. Ræddi um að þekkingu gangnamanna hefði hrakað t.d. hvað varðar að skilja eftir fé. Leist vel á að nýta dróna við smalamennskur, t.d. væri hægt að nýta þá til að skoða hversu langt þarf að ríða fram aftur á hverjum morgni gangna. Nefndi að mikill hagur gæti verið af því að koma fremsta fé austur í veg fyrir Vatnsdælinga, bæði fyrir menn og skepnur. Benti á að ef það eigi að aðskilja smölun stóðhrossa og eftirlegukinda þá ætti sömuleiðis að vera hægt að fækka stóðsmölum. Ræddi smölun í Gafli og að samræma þurfi tímasetningu við Vatnsdælinga. Spurði um hækkun nefndarlauna í ársreikningi á milli áranna 2017 og 2018. Spurði jafnframt hvort einhver umræða hafi farið fram um að nefndarlaun verði greidd af Sveitarsjóði. Spurði jafnframt um hækkun á ráðskonulaunum.
  Gunnar Þorgeirsson svaraði spurningu varðandi nefndarlaun. Nefndi að fjallskilastjórnir væru eins og aðrar skipaðar nefndir sveitarfélagsins og að það hefði verið hans skilningur að þessi laun ættu að vera greidd úr sveitarsjóði.
  Guðný Hrund Karlsdóttir svaraði spurningu varðandi nefndarlaun, nefndi að ekki hefði verið gert ráð fyrir þessum nefndarlaunum í fjárhagsáætlun og þar með ekki greitt út.
  Gunnar Þorgeirsson spurði hver væri munur á fjallskilastjórnum og öðrum nefndum hvað varðar hvaðan nefndarlaun eru greidd.
  Guðný Hrund Karlsdóttir svaraði því að hefðin hafi verið svona hingað til en sjálfsagt sé að endurskoða þetta.
  Friðrik Már Sigurðsson skýrði nánar frá útnefningum og útdeilingum nefndarlauna til fjallskilastjórna.
  Júlíus Guðni Antonsson benti á að ekki væri þörf á jafnmörgum fundum í öllum fjallskilastjórnum.
  Guðný Hrund Karlsdótir útskýrði nánar hvernig fjármunum er úthlutað til nefndarstarfa innan sveitarfélags.
  Kaffihlé klukkan 21:48.
  Fundi fram haldið klukkan 22:03
  Birgir Ingþórsson ræddi sameiginlega fund fjallskiladeilda Víðdælinga og Vatnsdælinga. Nefndi mikilvægi samstarfs um smalamennskur. Taldi að það yrði til hagsbóta fyrir menn og dýr að smala fremsta fé austur á mánudegi. Ræddi ástand Gaflsgirðingar og telur viðhaldi hennar ábótavant. Ræddi um smölun í Gafli á föstudegi í fyrri göngum, mögulegt væri að senda einhverja menn fram að vestan til að stytta tímann sem menn eru að komast á göngu. Ræddi um fundarlaun fjallskilastjórna. Nefndi að honum þætti nauðsynlegt að samræma seinnigöngur og heimalandasmalanir á milli sveitarfélaga.
  Steinbjörn Tryggvason ræddi um stóðsmölun og taldi að góð lausn til að ná fé á sama tíma væri að fara fyrr af stað á morgnana. Taldi ekki góða hugmynd að sækja eftirlegukindur einhverjum dögum seinna. Taldi að það gæti orðið til bóta að fjölga fólki í fyrri göngum. Taldi smölun með drónum góða hugmynd. Leist vel á að í seinni göngum verði farið fram Austurheiði og komið niður Tungur. Taldi að of langt væri orðið á milli fjórhjóla/sexhjóla á Tungum.
  Júlíus Guðni Antonsson ræddi um fjölda manna í göngum. Nefndi að ekki hafi verið skorinn niður fjöldi á Austurheiði en að á Tungum hafi fjöldi verið skorinn niður. Benti á að erfitt gæti verið að fjölga gangnamönnum aftur því erfitt gæti reynst að manna göngur. Nefndi að smalamennska fremst á heiði á mánudegi gæti létt mjög á smalamennsku þriðjudags. Ræddi um hugmynd sem kom upp fyrir ári síðan, um hvort hægt væri að ná samstarfi við Ríki og Landgræðslu ríkisins um fjárveitingu til að girða Stórasand frá afréttarlandi. Ræddi um samstarfsverkefni Landgræðslunnar og fleiri stofnana sem ber nafnið GróLind.
  Pétur Þ. Baldursson ræddi um að bæta þurfi rekstrarleið fyrir fé og stóð niður Hrappstaðabrekkur.
  Formaður kom í pontu og þakkaði fyrir góðar umræður og ábendingar. Ræddi um að hægt væri að aðstoða óvant fólk hvað varðar rétt vinnubrögð í göngum með góðum leiðbeiningum. Nefndi að jafnvel væri hægt að vinna leiðbeiningabækling sem útdeilt væri til óvanra. Ræddi nánar um útfærslu á tökubás. Nefndi að seinni göngur verði færðar fram fyrir heimalandasmölun í haust. Ræddi nánar um útfærslu smalamennsku með drónum. Útskýrði nánar mun á ráðskonulaunum og nefndarlaunum. Útskýrði af hverju kynningarfundur um girðingu á Stórasandi sem til stóð að halda árið 2018 hafi ekki verið haldinn. Benti á að það væri gríðarlega kostnaðarsamt að bæta rekstrarleið niður Hrappstaðabrekkur.
  Birgir Ingþórsson nefndi að í Skaftafellssýslum væru almennt tveir á hverju hjóli og væri það talið hafa haft góð áhrif á árangur smalamennska.
  Guðný Hrund Karlsdóttir ræddi nánar um kynningarfund varðandi girðingu á Stórasandi.
  Júlíus Guðni Antonsson ræddi um nýja brú á Norðlingafljóti og mögulegan aukinn fjölda ferðamanna sem sú framkvæmd gæti leitt af sér. Nauðsynlegt gæti verið, í framhaldinu, að auka þjónustu við skála heiðarinnar. Sömuleiðis þyrfti að gera skýrari merki á milli þjóðlendu og eignarlands Húnaþings vestra. Ræddi um fyrirhugaða stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og að nauðsynlegt sé að fylgjast vel með framvindu þess máls. Ræddi um að mikilvægt sé að lagfæra þær rekstrarleiðir sem hætt er við að verði illfærar í miklum bleytum.
  Friðrik Már Sigurðsson þakkaði fyrir ábendingar varðandi rekstrarleiðir. Benti á að bæta þurfi aðstöðu til að auðvelda smölum að handsama fé á heiðinni. Ræddi um svokallaða samráðsfundi varðandi stofnun miðhálendisþjóðgarðs.
  Pétur Þ. Baldursson ræddi um kynningarfund sem haldinn var árið 2018 varðandi miðhálendisþjóðgarð.
  Birgir Ingþórsson ræddi um skotveiði á heiðinni og mismunandi fyrirkomulag á milli sveitarfélaga.

Fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið klukkan 23:21.  

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?