940. fundur

940. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 29. maí 2017 kl. 16:30 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, aðalmaður, Elín Jóna Rósinberg, aðalmaður og  Elín R. Líndal, aðalmaður

Starfsmenn

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri
Guðrún Ragnarsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs

Fundargerð ritaði: Guðrún Ragnarsdóttir

Afgreiðslur:

1.  Rekstrarstjóri Skúli Húnn Hilmarsson boðaði forföll.

2.  Skólastjóri grunnskólans, Sigurður Þór Ágústsson,  mætir til fundar við byggðarráð. Rætt um mögulegan flutning mötuneytis grunnskólans í Félagsheimilið á Hvammstanga og kynntar niðurstöður könnunar um þau mál sem lögð var fyrir foreldra. 

Byggðarráð samþykkir að stofnaður verði vinnuhópur sem fjallar um framtíðarskipan skólamála í Húnaþingi vestra og tilnefnir, sviðsstjóra fjölskyldusviðs, skólastjóra grunnskólans og sveitarstjóra í starfshóp sem hafi umsjón með vinnu við mat á þörfum skólans varðandi húsnæðismál hans. Starfshópurinn skal kalla til sín og leita álits hagsmunaaðila, s.s. fræðsluráðs, foreldra og starfsmenn grunn- leik- og tónlistarskóla, nemenda grunnskóla, forstöðumenn annarra stofnana og fleiri eftir atvikum. Hópurinn skili mati á húsnæðisþörf skólans til næstu 30 ára og í hvaða skrefum væri hægt að uppfylla þá þörf.  Kynna skal tillögurnar fyrir sveitarstjórn þann 15. desember 2017. Í framhaldinu fari tillagan í almenna kynningu og íbúum gefinn kostur á að gera athugasemdir. 

Byggðarráð samþykkir tillögu um tímabundinn flutning mataraðstöðu í Félagsheimilið á Hvammstanga með fyrirvara um að það náist samningar við Félagsheimilið og að tryggð verði fylgd fyrir yngstu nemendur yfir Hvammstangabraut.

Miðað við áætlanir sem unnar voru í tengslum við flutning  skólans til Hvammstanga var gert ráð fyrir  135  börnum haustið 2017 og fjöldi í yngstu bekkjum sem von var á voru  7 – 11 í árgangi.  Yngstu árgangarnir hafa stækkað ört og  ná nú allt að 17 í árgangi. Nemendafjöldi næsta haust er áætlaður um eða yfir 160. Fjölgun nemenda er ánægjuefni sem sveitarfélagið vill bregðast við með því að bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks, fyrsta skrefið er að bregðast við þessari fjölgun næsta vetur með færslu á mötuneyti og vinnu við framtíðarskipan húsnæðis skólans.

3.  1705030  Lagt fram bréf SSNV dags. 10. maí sl. Þar sem óskað er eftir tilnefningu í samgöngu- og innviðanefnd SSNV.  Samþykkt að Ína Björk Ársælsdóttir verði fulltrúi Húnaþings vestra í nefndinni og Pétur R. Arnarsson til vara.

4.  1705029  Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar SSNV frá 9. maí sl.

5.  1705023  Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit Sveitarfélagsins Skagafjarðar yfir málefni fatlaðra tímabilið janúar-mars 2017.

6.  1705028  Lagt fram erindi Þjóðskjalasafns Íslands, drög að reglugerð um rekstur héraðsskjalasafna til umsagnar.  Sveitarstjóra falið að veita umsögn um drög að reglugerðinni.

7.  1705031  Lagt fram erindi frá ferðaþjónustuaðilum vegna sumarlokunar leikskóla.  Í bréfinu er þess farið á leit við sveitarstjórn að breyta tilhögun sumarfrís leikskólans, þannig að ekki sé lokað á hábjargræðistíma að sumri.  Byggðarráð þakkar erindið og felur sviðsstjóra fjölskyldusviðs að skoða þörfina og leggja fram tillögu fyrir sumarið 2018.  Elín R. Líndal vék af fundi við umræður og afgreiðslu þessa liðar.

8.  1705040  Lagt fram bréf USVH, þar sem sambandið hvetur sveitarfélagið til að gera ráð fyrir stangarstökksstokk við fyrirhugaða endurnýjun á gólfefni í Íþróttamiðstöð.  Sveitarstjóra falið að kanna kostnað við stokkinn.

9.  1705038  Lagt fram bréf Tönju M. Ennigarð íþrótta-og tómstundafulltrúa, dags. 17. maí sl. þar sem hún óskar eftir fjárveitingu til kaupa á hlaupabretti í íþróttamiðstöðina.   Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur íþrótta- og tómstundafulltrúa í samráði við sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að leggja fram beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2017 til að  leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar.

10.  1705044  Lagt fram bréf Þorbjargar I Ásbjarnardóttur dags. 22. maí sl. Þar sem hún mótmælir harðlega fyrirhuguðum flutningi mötuneytis grunnskólans í Félagsheimilið á Hvammstanga.  Byggðarráð þakkar þær ábendingar sem fram koma í bréfinu en eins og fram kemur 1. dagskrálið hefur byggðarráð samþykkt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að flytja mötuneyti grunnskólans tímabundið í Félagsheimilið á Hvammstanga en jafnframt hefja vinnu við framtíðaskipan húsnæðismála grunnskólans.

11.  1705037  Lagt fram bréf Reynd að smíða ehf. dags. 17. maí sl. þar sem óskað er eftir leyfi til að staðsetja tvö frístundahús á hverja lóð við Lindaveg.

Skv. upplýsingum frá skipulagsfulltrúa þarf að fara í breytingu á deiliskipulagi til að stækka byggingarreit og fjölga húsum á lóð.  Byggðarráð sér ekki ástæðu til að breyta skipulaginu og hafnar því erindinu.

12.  1702007 Erindi Starfsmannafélags Húnaþings vestra sem frestað var á 935. fundi byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir eftirfarandi reglur um styrki til starfsmanna vegna líkamsræktar: „Starfsmaður sem verið hefur starfsmaður sveitarfélagsins samfellt í 12 mánuði fyrir umsókn getur sótt um styrk vegna afnota af Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra.
Styrkurinn getur að hámarki orðið kr.  12.000 á ári, þó aldrei hærri en 50% af útlögðum kostnaði samkvæmt framlögðum reikningum fyrir mánaðar eða árskort á nafni starfsmanns. Styrkurinn hlutfallast miðað við starfshlutfall samkvæmt ráðningarsamningi.
Styrkurinn er einungis ætlaður þeim sem ekki geta sótt sambærilega styrki til síns stéttarfélags. Greiðsla styrksins miðast við almanaksár og er síðasti skiladagur umsóknar vegna hvers árs 15. desember.“

13.  1705015  Lagt fram bréf Önnu Ágústsdóttur dags. 4. maí sl. um tilnefningu heiðursborgara Húnaþings vestra.  Byggðarráð þakkar erindið. Ekki eru til reglur um heiðursborgara í Húnaþingi vestra, en hins vegar hafa frá árinu 2015 verið veittar samfélagsviðurkenningar til þeirra íbúa og félagasamtaka sem þykja hafa lagt mikið af mörkum til samfélagsins í Húnaþingi vestra. Er sú viðurkenning hugsuð sem æðsta viðurkenning sveitarfélagins.

14.  1705046  Lögð fram drög að reglum um veitingu launalausra leyfa starfsmanna Húnaþings vestra.   Byggðarráð samþykkir framlögð drög að reglunum.

15.  1705047  Löggæslumál í Húnaþingi vestra.  Sveitarstjóra falið að boða nýskipaðan lögreglustjóra Norðurlands vestra, Gunnar Örn Jónsson, á fund ráðsins.

16.  1705048 Samgöngumál í Húnaþingi vestra.  Sveitarstjóra falið að fá fund með ráðherra samgöngumála, Jóni Gunnarssyni.

17.  1703006  lagt fram erindi Forsætisráðuneytisins, þar sem ítrekað er fundarboð um málefni þjóðlendna sem haldinn verður 2. júní nk. að Sæmundargötu 4a á Sauðárkróki. Elín R. Líndal verður fulltrúi Húnaþings vestra á fundinn.

18.  1705049  Lögð fram eftirfarandi tillaga umhverfisstjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs um upphæð styrkja til elli- og örorkulífeyrisþega vegna garðsláttar.
„Sveitarfélagið mun greiða elli- og örorkulífeyrisþegum styrk sem nemur kr. 4.000.- fyrir hvern slátt sem þeir kaupa af verktaka, gegn framvísun reiknings. Hámarksstyrkur á ári verður kr. 16.000.

Elli- og örorkulífeyrisþegar leita sjálfir til verktaka sem bjóða upp á garðslátt og greiða reikning fyrirtækisins, þ.e. fullt gjald og kemur svo með gilda kvittun/kvittanir á skrifstofu Húnaþings vestra. Styrkurinn verður þá greiddur inn á bankareikning þjónustuþega.“
Byggðarráð samþykkir framlagða tillögu.

Samþykkt að bæta á dagskrá

19.  1703035 Ósk um leikskólavist utan lögheimilissveitarfélags, áður á dagskrá 937. fundar.   Fyrir fundinum liggur minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs.  Byggðarráð samþykkir að greiða fyrir leikskólavist umrædds barns frá og með 1. september nk.

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl: 18:24

Var efnið á síðunni hjálplegt?