1215. fundur

1215. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 3. júní 2024 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður. 

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Gunnar Páll Helgason kom til fundar kl. 14:02.

1.

Framlenging á samningi um framleiðslu skólamáltíða - 2405057

 

Gunnar Páll Helgason framkvæmdastjóri Sjávarborgar kom til fundar við byggðarráð til að ræða endurnýjun samnings um framleiðslu skólamáltíða fyrir Grunnskóla Húnaþings vestra. Í samningi um framleiðsluna er heimild til framlengingar tvisvar sinnum til þriggja ára í senn. Samningurinn var framlengdur í fyrra skiptið árið 2021. Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að fara yfir forsendur samningsins og leggja fyrir byggðarráð.

Gunnar Páll Helgason vék af fundi kl. 14:15.

 

   

2.

Starfshópur um dreifnám - 2402060

 

Lögð fram samantekt með niðurstöðum starfshóps um dreifnám sem skipaður var á 1207. fundi byggðarráðs þann 4. mars sl. Í samantektinni koma fram nokkrar aðgerðir sem miða að eflingu dreifnámsins, svo sem aukin kynning þess, endurskoðun markmiða, endurskoðun aðstöðu og húsnæðis og skoðun möguleika á aukinni félagslegri virkni nemenda. Sveitarstjóra er falið að vinna málið áfram í samræmi við tillögur starfshópsins.

 

   

3.

Beiðni um leyfi fyrir litahlaupi í tengslum við 17. júní hátíðarhöld - 2405053

 

Lagt fram erindi frá Kristínu Guðmundsdóttur umsjónaraðila 17. júní hátíðarhalda í ár þar sem óskað er eftir leyfi til að halda litahlaup (e. color run) í tengslum við hátíðarhöldin. Með erindinu fylgir kort af fyrirhugaðri hlaupaleið. Litahlaup einkennast af því að lituðu dufti er kastað yfir þátttakendur í upphafi hlaups, við miðbik þess og lok. Er liturinn lituð kornsterkja. Byggðarráð samþykkir að veita leyfi fyrir hlaupinu en áréttar við skipuleggjanda mikilvægi góðrar umgengni og frágangs að hlaupi loknu. Einnig er skipuleggjanda bent á að tilkynna þarf um leið hlaupsins til lögreglu.

 

   

4.

Beiðni um endurnýjun á knattspyrnumörkum á Kirkjuhvammsvelli - 2405056

 

Lögð fram beiðni frá Ungmennafélaginu Kormáki um endurnýjun knattspyrnumarka á íþróttavellinum í Kirkjuhvammi. Áætlaður kostnaður við endurnýjun markanna er krónur 499.700. Byggðarráð felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga frá félaginu.

 

   

5.

Umsókn um námsstyrk - 2405059

 

Sabah Mostafa starfsmaður Leikskólans Ásgarðs óskar eftir styrk til náms í leikskólakennarafræðum við Háskólann á Akureyri. Fyrir liggur jákvæð umsögn sviðsstjóra fjölskyldusviðs og leikskólastjóra vegna umsóknarinnar. Byggðarráð samþykkir veitingu námsstyrks skólaárið 2024-2025 í samræmi við reglur um námsstyrki til starfsmanna Húnaþings vestra.

 

   

6.

Ályktun Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra vegna skertrar þjónustu á hjúkrunardeild HVE á Hvammstanga - 2405061

 

Lögð fram ályktun stjórnar Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra þar sem lýst er verulegum áhyggjum af skertri þjónustu á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Hvammstanga í sumar. Hefur hjúkrunarrýmum fækkað um 20% og ekki verða í boði hvíldarinnlagnir í sumar.

Byggðarráð tekur heilshugar undir áhyggjur Félags eldri borgara og felur sveitarstjóra að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands um málið.

 

   

7.

Fundargerð 108. fundar stjórnar SSNV, 23. maí 2024 - 2405058

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

8.

Fundargerðir 462. og 463. funda stjórnar Hafnasambands Íslands frá 22. mars og 7. maí sl. - 2405044

 

Lagðar fram til kynningar.

 

   

9.

Beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030, 1036. mál. Umsagnarfrestur til 5. júní nk. - 2405043

 

Lögð fram beiðni atvinnuveganefndar Alþingis um umsögn um tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðir til ársins 2030.
Byggðarráð fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar sem unnin var með víðtæku samráði við hagaðila. Ráðið vill leggja áherslu á að brýnt er að nægjanlegt fjármagn fylgi áætluninni til að aðgerðir hennar geti komið til framkvæmda.
Ráðið gerir sérstaka athugasemd við aðgerð B4 - afnám gistináttaskatts. Þó áformum um lækkun gjalda á atvinnugreinina sé fagnað vill ráðið benda á að á undanförnum árum hefur verið í umræðunni að tekjur af gistináttaskatti renni til sveitarfélaga til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þó svo að þær hugmyndir hafi ekki komið til framkvæmda kallar ráðið eftir því að í ferðamálastefnunni komi fram tillögur að tekjustofnum sveitarfélaga í tengslum við ferðaþjónustu til að mæta auknum kostnaði vegna aukins álags á innviði sem henni óhjákvæmilega fylgja.

 

   

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:34.

Var efnið á síðunni hjálplegt?