1213. fundur

1213. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 13. maí 2024 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður. 

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Elín Lilja Gunnarsdóttir sat fundinn í fjarfundi.

1.

Úthlutun leiguíbúðar að Garðavegi 20, neðri hæð - 2311044

 

Byggðarráð samþykkir að leigja Weliam Ghanem íbúðina að Garðavegi 20, neðri hæð, tímabundið frá 15. maí nk. til 30. nóvember nk.

 

   

2.

Beiðni vegna Höfðabrautar 6 skilti, bílastæði ofl. - 2405000

 

Lögð fram beiðni lögreglustjórans á Norðurlandi vestra um uppsetningu skiltis og merkingu bílastæða fyrir embættið á Höfðabraut 6. Byggðarráð gerir ekki athugasemd við beiðnina fyrir sitt leyti.

 

   

3.

Bændadagar í Víðidalsá og Fitjaá - 2405004

 

Lagt fram erindi frá Veiðifélagi Víðidalsár með upplýsingum um bændadaga í ánni að afloknu veiðitímabili ár hvert sem felast í að landeigendur geti keypt veiðileyfi í ánni samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Byggðarráð samþykkir að sveitarfélagið muni ekki nýta sér rétt til kaupa á veiðileyfum á bændadögum.

 

   

4.

Félagsheimilið Hvammstanga vegna leigu 17. júní 2024 - 2405011

 

Lögð fram beiðni Kristínar Guðmundsdóttur umsjónaraðila 17. júní hátíðarhalda í ár, um niðurfellingu leigu á Félagsheimilinu Hvammstanga vegna afnota af húsinu í tengslum við hátíðarhöldin. Samkvæmt gjaldskrá Félagsheimilisins hefur byggðarráð heimild til að veita afslátt vegna viðburða í samfélagsþágu sem nemur 25% af leiguverði. Ekki er heimild til niðurfellingar leigu. Hins vegar er afstaða byggðarráðs sú að hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta, sjómannadaginn og 17. júní fari fram með sóma. Því leggur ráðið til við sveitarstjórn að gerð verði breyting á gjaldskrá Félagsheimilisins þess efnis að notkun Félagsheimilisins verði umsjónaraðilum hátíða þessa þrjá daga á ári, án endurgjalds. Nái niðurfellingin til notkunar á efri hæð hússins á viðkomandi hátíðardegi, vegna gjaldfrjálsrar dagskrár fyrir alla fjölskylduna.

 

   

5.

Samkomulag um afnot af fjöldahjálparstöðvum - 2405012

 

Við skilgreiningu fjöldahjálparstöðva er sveitarfélögum skylt að útvega húsnæði og er gerður samningur milli sveitarfélags og Rauða krossins um afnot af því á neyðartímum. Sé viðkomandi húseign ekki í eigu sveitarfélagsins gerir það samning um afnotin við viðkomandi húseigendur.

Lagðir fram þrír samningar milli Húnaþings vestra og Rauða krossins vegna fjöldahjálparstöðva í sveitarfélaginu. Um er að ræða fjöldahjálparstöðvar í Félagsheimilinu Hvammstanga, í húsnæði skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði og í Ásbyrgi á Laugarbakka. Fyrir liggur samþykki húsnefndar Ásbyrgis og rekstraraðila skólabúðanna á Reykjum. Byggðarráð veitir samþykki vegna Félagsheimilisins Hvammstanga.

Byggðarráð samþykkir framlagða samninga og felur sveitarstjóra undirritun þeirra.

 

   

6.

Tjón á búnaði slökkviliðs - 2405002

 

Lagt fram minnisblað sveitarstjóra vegna tjóns á búnaði Brunavarna Húnaþings vestra til reykköfunnar. Um er að ræða tjón á loftpressu og 20 loftkútum til reykköfunar. Er búnaðurinn dæmdur ónýtur. Nauðsynlegt er að endurnýja búnaðinn svo slökkviliðið sé fært um að rækja hlutverk sitt. Heildarkostnaður við endurnýjun er kr. 3.302.943 án vsk. Óskar sveitarstjóri ásamt slökkviliðsstjóra eftir að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna þessa.

Byggðarráð samþykkir beiðnina þar sem um afar brýnt öryggismál er að ræða. Er sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs falið að undirbúa gerð viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2024 vegna búnaðarkaupanna.

 

   

7.

Atvinnu- og nýsköpunarsjóður Húnaþings vestra, úthlutunarreglur og úthlutun 2024 - 2405014

 

Lagðar fram úthlutnarreglur Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs Húnaþings vestra. Byggðarráð samþykkir óbreyttar reglur frá árinu 2023. Sveitarstjóra er falið að auglýsa úthlutun styrkja úr sjóðnum með umsóknarfresti til og með 5. júní nk.

 

   

8.

Fundargerð 106. fundar stjórnar SSNV frá 10. apríl 2024 - 2404126

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

9.

Fundargerð 947. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 19. apríl 2024 - 2404127

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

10.

Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um lagareldi, 930.mál. Frestur til umsagnar veittur til 13. maí 2024 - 2405009

 

Lögð fram beiðni atvinnuveganefndar Alþingis um umsögn um frumvarp til laga um lagareldi, 930. mál. Umsögn byggðarráðs er svohljóðandi:

Byggðarráð fagnar því að nú sé sett fram heildstæð löggjöf um lagareldi. Einkum vill ráðið fagna því að friðunarsvæði til verndar villtum laxi eru færð í lög (7. gr.).

Markmið frumvarpsins sem hér er lagt fram er að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Markmiðið í sjálfu sér er góðra gjalda vert. Hins vegar er það mat ráðsins að lengra þurfi að ganga en gert er í frumvarpinu til að tryggja að markmið þess nái fram að ganga, einkum til verndunar villtra nytjastofna. Vill ráðið gera eftirfarandi athugasemdir:

Ótímabundið rekstrarleyfi
Ráðið gerir alvarlegar athugasemdir við að rekstrarleyfi verði ótímabundin líkt og fram kemur í 33. gr. Eðlilegt er að leyfi sem þessi séu gefin út til ákveðins árafjölda í senn. Við endurnýjun leyfis þurfi lagareldisfyrirtæki að fara í gegnum leyfisveitingaferlið að nýju sem gefur tækifæri til grandskoðunar á starfseminni sem að mati ráðsins er nauðsynlegt til að auka líkur á að markmið frumvarpsins náist. Þó að í frumvarpinu séu settar fram heimildir til afturköllunar leyfa þá er slík aðgerð afar íþyngjandi, tímafrek og krefst mikils eftirlits. Vandséð er að núverandi eftirlitskerfi hefði burði til slíkra aðgerða.

Kostnaður vegna leitar og veiða á strokulaxi
Ítarlega er fjallað um aðgerðir til að koma í veg fyrir og bregðast við stroki úr sjókvíum enda ljóst að ómögulegt er að koma í veg fyrir slysasleppingar. Í 45. gr. er fjallað um leit og veiði í veiðiám eða vötnum við strok. Þar kemur fram að allan kostnað Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða skuli rekstrarleyfishafi greiða. Byggðarráð leggur áherslu á að í þessa grein verði bætt við að rekstrarleyfishafi skuli jafnframt greiða veiðifélögum/veiðiréttarhöfum þann kostnað sem til fellur við leit/veiðar á strokulaxi. Í þeirri stórfelldu slysasleppingu sem upp kom haustið 2023 reyndist sá kostnaður umtalsverður.

Kynþroska lax
Í XI. kafla laganna er fjallað um kynþroska eldislax og takmarkanir ræktunar hans og aðgerðir til að seinka kynþroska. Í ljósi þeirrar slysasleppingar sem átti sér stað sl. haust og leiddi til umtalsverðrar göngu kynþroska eldislaxs í verðmætar laxveiðiár vill byggðarráð leggja ríka áherslu á að sett verði ákvæði í frumvarpið þess efnis að innan 10 ára verði óheimilt með öllu að rækta frjóan lax. Með því má minnka til muna þá áhættu sem af eldinu stafar gagnvart villta laxastofninum.

Á 371. fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem haldinn var þann 14. september 2023 var svohljóðandi bókað í kjölfar stórfelldrar slysasleppingar í Patreksfirði:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í húnvetnskum laxveiðiám þar sem veiðst hafa allmargir eldisfiskar á undanförnum dögum og vikum. Í fyrsta lagi veldur þessi staða áhyggjum hvað varðar erfðablöndun við villta laxveiðistofninn eins og margoft hefur verið ítrekað á síðustu árum. Í öðru lagi er áhætta vegna smitsjúkdóma alltaf fyrir hendi og ef slíkir sjúkdómar breiðast út í stofn viðkomandi ár getur það gert út af við ána á stuttum tíma. Í þriðja og síðasta lagi hefur þessi alvarlega staða mikil áhrif á ímynd og gæði þeirra villtu laxveiðiáa sem fyrir þessu verða. Allir þessir þættir geta valdið miklum búsifjum með tilheyrandi tekjufalli landeigenda og samfélags. Sveitarstjórn Húnaþings vestra skorar á matvælaráðherra að beita þeim valdheimildum sem hann hefur í gegnum undirstofnanir sínar til að tryggja að fiskeldisfyrirtækin greiði kostnað vegna mótvægisaðgerða sem veiðifélögin neyðast til að fara í til að verjast strokulaxi úr opnum sjókvíum.“

Ástæða er til að ítreka ofangreinda bókun.

Byggðarráð áskilur sér rétt til umsagnar um málið á seinni stigum og lýsir sig tilbúið til samtals við atvinnuveganefnd um málið.

 

   

Bætt á dagskrá:

11.

Vegglistaverk við Hvammstangahöfn - 2405026

 

Lögð fram beiðni verkefnisstjóra umhverfismála um leyfi byggðarráðs fyrir gerð vegglistaverks á vigtarskúr hafnarinnar að Hafnarbraut 1. Um er að ræða málað verk sem unnið er fyrir styrk sem fékkst úr styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótar Íslands á árinu 2023. Byggðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að gert verði vegglistaverk á vigtarskúrinn. Ráðið bendir á að óska þarf leyfis byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdinni.

 

   

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:08.

Var efnið á síðunni hjálplegt?