1206. fundur

1206. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 19. febrúar 2024 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður. 

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Formaður setti fund. Valur Freyr Halldórsson kom til fundar við byggðarráð kl. 14:02.

1.

Ársskýrsla Brunavarna Húnaþings vestra 2023 - 2402023

 

Valur Freyr Halldórsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Húnaþings vestra kom til fundar við byggðarráð og fór yfir starfsemi Brunvarna. Byggðarráð þakkar slökkviliðsstjóra fyrir greinargóða yfirferð.

Valur vék af fundi kl. 14:37.

 

   

2.

Heimild til að framselja nafnarétt Hvammstangavallar til styrktar starfi meistaraflokks árið 2024 - 2401073

 

Áður á dagskrá 1205. fundar byggðarráðs þar sem kallað var eftir samþykki Ungmennafélagsins Kormáks og USVH. Samþykki beggja liggur nú fyrir. Í ljósi þess samþykkir byggðarráð að veita Meistaraflokksráði Kormáks Hvatar heimild til að framselja nafnarétt Hvammstangavallar til styrktar starfi meistaraflokks árið 2024. Um er að ræða heimild til eins árs og skal ráðið hafa samráð við sveitarstjóra um endanlegt val á kostunaraðila.

 

   

3.

Þjóðlendumál eyjar og sker - 2402022

 

Lagt fram erindi frá óbyggðanefnd varðandi kröfur fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist eyjar og sker. Tekur það til landsvæða innan landhelgi Íslands en utan meginlandsins. Byggðarráð lýsir furðu á þeim kröfum sem nú eru settar fram og fær ráðið ekki séð hvaða hagsmunum þær þjóna. Kröfuskjalið er að mati ráðsins óljóst og m.a. vísað í heimildir sem vart geta talist áreiðanlegar. Einnig gerir ráðið athugasemd við skamman frest sem landeigendum er gefinn til að lýsa kröfum á móti, eða til 15. maí 2024. Mikil vinna getur legið að baki gagnaöflun til að bregðast við kröfum ríkisins og líklegt að í einhverjum tilfellum verði þörf á lengri fresti.
Sveitarstjóra er falið að kalla eftir korti frá óbyggðanefnd yfir þær eyjar og sker sem falla undir kröfur nefndarinnar. Eftir því sem næst verður komist er ekki um að ræða kröfu á hendur sveitarfélaginu en ljóst að allnokkrir landeigendur í Húnaþingi vestra fá á sig kröfu frá nefndinni. Því er sveitarstjóra jafnframt falið að kalla þá landeigendur sem málið varðar saman til fundar til umræðna um málið og skoðunar á sameiginlegri vinnu við að svara kröfum óbyggðanefndar.

 

   

4.

Styrkur úr C-1 lið byggðaáætlunar 2024 - 2401060

 

Sveitarstjóri upplýsir um styrkúthlutun innviðaráðuneytis úr lið C1 á byggðaáætlun, sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Húnaþing vestra sendi inn umsókn og hlýtur styrk upp á kr. 10,5 milljónir til uppsetningar tæknismiðju í Félagsheimilinu Hvammstanga í anda FabLab smiðja. Um er að ræða styrk til tækjakaupa í smiðjuna. Er verkefninu ætlað að hvetja nýsköpun og auka fjölbreytni í atvinnulífi í sveitarfélaginu. Byggðarráð fagnar styrkveitingunni og felur sveitarstjóra undirritun samnings þar um.

 

   

5.

Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (greiðsla meðlags), mál nr. 112. Umsagnarfrestur til 27. febrúar 2024 - 2402024

 

Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

 

   

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:14.

Var efnið á síðunni hjálplegt?