1203. fundur

1203. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 22. janúar 2024 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður. 

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg.

1.

Málstefna Húnaþings vestra 2024-2028 - 2401027

 

Lögð fram drög að Málstefnu Húnaþings vestra í samræmi við 130. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Byggðarráð samþykkir drögin ásamt áorðnum breytingum og þau verði sett í opið samráð á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

   

2.

Fundargerð 941. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 12. janúar 2024. - 2401052

 

Lögð fram til kynninngar.

 

   

3.

Fundargerð stjórnar Byggðasafns Húnvetninga og Strandmanna frá 12. desember 2023 - 2401036

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

4.

Umsagnarbeiðni um skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu mál í samráðsgátt stjórnvalda nr. 2382023. Umsagnarfrestur til 7. febrúar 2024 - 2311047

 

Byggðarráð fagnar vinnu þeirri sem farið hefur fram við mótun stefnu um opinbera grunnþjónustu og jafnt aðgengi. Löngu tímabært var að mismunandi aðgengi íbúa í landinu að opinberri grunnþjónustu yrði tekið til skoðunar. Einnig vill ráðið fagna þeim rúma fresti sem gefinn var til umsagnar um málið og er öðrum ráðuneytum og stofnunum ríkisins til eftirbreytni.

Byggarráð Húnaþings vestra vill koma eftirfarandi athugasemdum við framlögð drög á framfæri:

Á bls. 2 er fjallað um að þar sem grunnþjónustu verði ekki komið við á nærsvæði eða með sambærilegum hætti í fjarþjónustu eigi íbúar að njóta stuðnings við þjónustusókn sem tekur til kostnaðar við að sækja hana í tilteknum þjónustuþáttum eftir því sem við á. Að mati byggðarráðs er brýnt að þegar talað er um kostnað við þjónustusókn fjarri nærsvæði íbúa að slíkur kostnaður er margþættur og verður ekki bættur að fullu með greiðslum fyrir akstur líkt og verið hefur. Eins og fram kemur í greinargerð þar sem samfélagslegur kostnaður er skilgreindur (bls. 3) og síðar í drögunum (bls. 9) ber samfélagið allt kostnað við þjónustusókn fjarri heimahögum. Íbúinn sjálfur, atvinnurekendur o.s.frv. Brýnt er að slíkur kostnaður verði tekinn með í reikninginn þegar metið er hvort hagkvæmra er að flytja þjónustuna á nærsvæði eða að íbúar sæki hana annað. Á þetta bendir Dalabyggð í umsögn sinni um málið og tekur byggðarráð Húnaþings vestra heilshugar undir þau sjónarmið. Í einhverjum tilfellum kann að vera hagkvæmara að sérfræðingar sæki byggðarlög heim reglulega og þjónusti þá nokkra þjónustuþega í einu. Dæmi um þetta má nefna heimsóknir augnlæknis í Húnaþing vestra sem hafa tíðkast reglulega þar til nýverið. Kom augnlæknir á heilsugæsluna í 2-3 daga í senn einu sinni til tvisvar á ári og var í hvert skipti full bókað. Heimsóknir þessar hafa nú lagst af vegna „kvóta“ sérfræðilækna sem gerir það að verkum að enginn hagur er af því fyrir þá að fara í slíkar ferðir. Af því leiðir að íbúar, einkum eldra fólk, sækir þjónustuna síður sem þegar til langs tíma er litið verður til þess að kostnaður hins opinbera verður í raun enn meiri en ella. Í samtölum við viðkomandi lækni kom fram að eldra fólk fer síður til augnlæknis ef það þarf að sækja þjónustuna um langan veg sem leiðir til þess að sjúkdómar eru lengra gengnir þegar þeir loks eru meðhöndlaðir. Á það t.d. við um gláku sem viðkomandi augnlæknir sagði áberandi alvarlegri í þeim samfélögum þar sem heimsóknir augnlæknis hafa lagst af eða þeim fækkað en öðrum þar sem þjónustan er aðgengileg reglulega.

Nokkuð er fjallað um möguleika sem felast í stafrænni þjónustu í framlögðum drögum. Byggðarráð tekur undir að stafrænar leiðir geta leyst mörg vandamál sem upp koma varðandi aðgengi að þjónustu. Hún mun þó aldrei koma í staðinn fyrir hefðbundin samskipti - maður á mann. Einnig þarf að hafa í huga að þó grettistaki hafi verið lyft í fjarskiptamálum á landinu á undanförnum árum eru enn svæði sem búa ekki við viðunandi fjarskipti, hvað þá netsamband, sem takmarkar verulega notkun stafrænna lausna eða kemur alfarið í veg fyrir þær. Úr því þarf að bæta ef þessi leið á raunverulega að jafna aðstöðu um land allt.

Þó gott sé að ganga út frá ákveðnum skilgreiningum á stærð mismunandi þjónustusvæða og þeirri þjónustu sem vera á í boði á hverju þeirra verður að vera rými til að taka tillit til ólíkra aðstæðna. T.d. geta vegasamgöngur verið afar mismunandi. Þó vegalengdir séu innan skilgreindra viðmiða getur ástand vega verið með þeim hætti að þeir geri þjónustuþegum ómögulegt að sækja þjónustu með öruggum hætti og/eða innan viðunandi tímamarka. Það styrkir stoðir nauðsynlegrar uppbyggingar á samgöngukerfum landsins.

Þá verður að hafa í huga að mismunandi aðstæður í atvinnulífi geta líka skapað þörf fyrir að ákveðin þjónusta sé veitt umfram það sem tilgreint er í viðmiðum. Rými þarf að vera í stefnu um þjónustustig til að taka tillit til slíkra þátta.

Byggðarráð hvetur til þess að ráðist verði í að greina hvar samlegð er milli ólíkra stofnana í veitingu þjónustu, þar með talið milli ríkis og sveitarfélaga.
Til dæmis þjónustu sýslumanna og skrifstofa sveitarfélaga um land allt. Á undanförnum árum hefur þjónusta sýslumanna verið skorin niður í flestum landshlutum. Augljós tækifæri eru til að samnýta aðstöðu og starfsfólk sveitarfélaga til afgreiðslu einfaldra erinda, eins og t.d. afhendingu vegabréfa sem ekki eru lengur send heim til fólks heldur þarf að sækja til sýslumanns. Íbúar í Húnaþingi vestra þurfa því að fara tvær ferðir til sýslumannsins á Blönduósi þurfi þeir að endurnýja vegabréf sitt. Fyrri ferðina til að sækja um bréfið og hina seinni til að ná í bréfið. Vegalengdin á Blönduós fyrir þá íbúa sveitarfélagsins sem lengst eiga að fara er um 130 km. Einfaldur hlutur eins og afgreiðsla nýs vegabréfs kallar því á 520 km akstur. Verði farið út í slíka samþættingu verður engu að síður að huga að skiptingu kostnaðar og brýnt að hið opinbera taki fullan þátt í þeim kostnaði sem slíkar breytingar hafa í för með sér fyrir sveitarfélögin og eða aðra þá sem taka að sér þjónustuhlutverk fyrir hönd þess. Hvort sem um er að ræða laun starfsmanna eða kostnað vegna aðstöðu.

Að síðustu vill ráðið leggja áherslu á að þau drög sem framlögð eru verði ekki til þess að þjónusta sem í dag er veitt umfram það sem skilgreint er í viðmiðum stefnunnar verði lögð af. Það er að ekki verði um frekari skerðingu þjónustu að ræða í byggðum landsins þrátt fyrir að sú þjónusta sem veitt er í dag sé umfram þau viðmið sem skilgreind eru í framlögðum drögum.

 

   

5.

Trúnaðarmál - 2401058

 

Fært í trúnaðarbók.

 

   

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 14:46.

Var efnið á síðunni hjálplegt?