1200. fundur

1200. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 18. desember 2023 kl. 14:00 Ráðhúsi.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,

Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg
1. Minnisblað um skólaakstur í Helguhvamm - 2312019
Á 1175. fundi byggðarráðs var tekið fyrir bréf frá foreldrum barna við Vatnsnesveg þar sem gerð var athugasemd við að börn yrðu sótt að Helguhvammi. Var það mat þeirra að sú breyting leiddi til umtalsverðar lengingar á aksturstíma auk þess sem heimreiðin geti verið hættuleg. Ákveðið var að gera ekki breytingar á leiðinni en endurskoða hana fyrir lok árs 2023. Nú liggur fyrir minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs og skólastjóra vegna málsins. Í minnisblaðinu er lagt til að fallið verði frá akstri að Helguhvammi og samið við foreldra um akstur barna til skóla. Byggðarráð samþykkir tillögu sviðsstjóra og skólastjóra og felur sveitarstjóra að ganga frá samkomulagi við foreldra barna í Helguhvammi.
 
2. Fyrirhuguð viðbygging við verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra - 2312024
Á 1045. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra var lagt fram erindi frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem óskað var eftir afstöðu sveitarfélaganna í landshlutanum til aðkomu að framkvæmdum við viðbyggingu við verknámshús Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra. Tók ráðið jákvætt í erindið og fagnaði áformum um stækkun verknámshússins (mál nr. 205036). Nú er lagt fram erindi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna málsins ásamt samningsdrögum milli sveitarfélaganna og ráðuneytisins um framkvæmdina. Einnig lagt fram minnisblað frá sveitarstjóra þar sem fram kemur hugsanlegur hluti Húnaþings vestra í kostnaði við framkvæmdina. Í því kemur fram að miðað við kostnaðaráætlun ráðuneytisins er áætlað að kostnaður við bygginguna verði á bilinu 637-1010 millj. kr. skv. frummati Framkvæmdasýslu ríkisins. Miðað við þá kostnaðarskiptingu sem tilgreind er í samningsdrögunum mun kostnaður Húnaþings vestra við framkvæmdina vera á bilinu 43,1 millj. kr. til 68,4 millj. kr. en ríkið ber, skv. 47. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, 60% kostnaðar en sveitarfélögin sem aðilar eru að skólanum 40%.
Byggðarráð undrast það breiða bil kostnaðar sem áætlað er að af framkvæmdinni hljótist og hvetur Framkvæmdasýsluna til að vinna nákvæmari áætlun hið fyrsta. Ráðið samþykkir engu að síður þátttöku í verkefninu og felur sveitarstjóra að undirrita samning þar um. Sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs er jafnframt falið að gera viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2024 þegar nákvæmari kostnaðaráætlun liggur fyrir sem og áfangaskipting greiðslna.
 
3. Barnvænt- og heilsueflandi sveitarfélag, minnisblað um erindisbréf - 2312020
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra fjölskyldusviðs vegna skipunar stýrihóps um innleiðingu barnvæns- og heilsueflandi sveitarfélags. Í bréfinu eru drög að erindisbréfi hópsins. Byggðarráð fagnar því að innleiðing þessa tveggja verkefna verði samþætt enda augljós samlegð milli þeirra. Einnig fagnar ráðið því að ungmennaráð verði í heild sinni þátttakandi í verkefninu en lagt er til að fundir hópsins verði á reglubundnum fundartíma ungmennaráðs. Skv. tillögunni munu eftirtaldir sitja í stýrihópnum:
Einn fulltrúi úr fræðsluráði
Einn fulltrúi úr félagsmálaráði
Einn fulltrúi úr byggðarráði
Ungmennaráð
Íþrótta- og tómstundafulltrúi
Sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Verkefnastjóri umhverfismála
Skipulags- og byggingafulltrúi
Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Viðbótarkostnaður vegna funda stýrihópsins er óverulegur og rúmast innan fjárhagsáætlunar ársins 2024.
Byggðarráð samþykkir tillögu að skipan stýrihópsins og drög að erindisbréfi hópsins. Fulltrúi ráðsins í hópnum er skipaður Magnús Vignir Eðvaldsson.
 
4. Fundargerð 101. fundar stjórnar SSNV frá 5. desember 2023 - 2312016
Lögð fram til kynningar.
 
5. Fundargerð 459. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 8. desember 2023 - 2312022
Lögð fram til kynningar.
 
 
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 14:46.
Var efnið á síðunni hjálplegt?