1173. fundur

1173. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn þriðjudaginn 11. apríl 2023 kl. 13:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Magnús Magnússon formaður, Friðrik Már Sigurðsson varaformaður og Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri.
Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.


Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg.

Magnús Magnússon formaður setti fund.

Afgreiðslur:

1. Ársreikningur Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2022. Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir drög að ársreikningi sveitarfélagsins og undirfyrirtækja fyrir árið 2022. Byggðarráð þakkar Elínu Jónu greinargóða yfirferð og vísar ársreikningnum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Magnús Vignir Eðvaldsson vék af fundi kl. 13:34.

2. Ráðning skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra. Staða skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra var auglýst laus til umsóknar 17. mars sl. með umsóknarfrest til 3. apríl sl. Ein umsókn barst frá Eydísi Báru Jóhannsdóttur starfandi skólastjóra. Sveitarstjóri leggur fram mat á umsókn Eydísar Báru ásamt mati eftir viðtal og umsagnir meðmælenda. Í framhaldi þess að byggðarráð hefur kynnt sér öll gögn málsins og samþykkt matið leggur ráðið til við sveitarstjórn að Eydís Bára Jóhannsdóttir verði ráðin í starf skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra.

Magnús Vignir Eðvaldsson kom aftur til fundar kl. 13:39.

3. Umsagnarbeiðnir:
a.  2304002 Tillaga til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, 914. mál. Umsagnarfrestur til 17. apríl 2023. Byggðarráð ítrekar umsögn sveitarstjórnar sem veitt var þegar málið var birt á Samráðsgátt stjórnvalda:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra tekur heilshugar undir umsögn sveitarfélagsins Skagafjarðar um málið þar sem segir: „Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og leggur áherslu á að staðinn sé vörður um innlenda búvöruframleiðslu, mikilvægi hennar er óumdeilt. Í tillögunni koma fram mörg mikilvæg og góð markmið sem öll lúta meira og minna í þá átt að efla enn frekar innlenda framleiðslu landbúnaðarvara en um leið að það verði gert á sem umhverfisvænastan hátt með bæði hagsmuni neytenda, dýra og framleiðenda að leiðarljósi. Byggðarráð vill minna á að í heiminum er hörð samkeppni um framleiðslu á matvælum. Jafnframt er hið alþjóðlega regluverk flókið samhliða þeirri staðreynd að framleiðsluskilyrði, umhverfi og regluverk í löndum eru mismunandi. Til að stefna sem þessi nái markmiðum sínum verður tvennt að gerast. Annars vegar er nauðsynlegt að fyrir liggi samþykkt og fjármögnuð aðgerðaáætlun um hvernig stjórnvöld ætli að ná settum markmiðum í landbúnaðaráætluninni. Hitt sem einnig er mikilvægt er að stjórnvöld hverju sinni hafi kjark til að taka mið af íslenskum aðstæðum við setningu laga og reglugerða þannig að innlend framleiðsla líði ekki fyrir legu landsins, vegalengdir og þær litlu framleiðslueiningar sem hér eru í samanburði við öll okkar helstu nágrannalönd. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að stjórnvöld vandi sig betur en gert hefur verið þegar lög og reglugerðir erlendis frá eru innleidd fyrir íslenskar aðstæður en þá virðist oft skorta að horft sé til íslenskra staðhátta. Það að framleiða heilbrigðar og góðar landbúnaðarvörur með jafn heilbrigðum framleiðsluaðferðum og hér eru notaðar, og stefnt er að gera ennþá betri, kostar líka bæði rannsóknir og vinnu sem verður að fjármagna af hálfu hins opinbera. Byggðarráð styður einnig aukna aðkomu hins opinbera að aukinni framleiðslu korns, grænmetis og fleiri vöruflokka sem ekki hafa hlotið tilhlýðilegan stuðning til jafns við það sem gert er erlendis. Það er mikilvægt að efla þessa framleiðslu en það má ekki gerast á kostnað þeirra greina sem fyrir eru í framleiðslu búvara en standa þarf vörð um grundvöll þeirra. Gerum Ísland sjálfbært í sem allra flestum vöruflokkum.”

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur jafnframt höfuðáherslu á að gætt verði að varðveislu landbúnaðarlands. Í því felst meðal annar að skýrt verði hverjar skyldur landeigenda eru sem og að allra leiða verði leitað til að tryggja búsetu á vænlegum landbúnaðarjörðum og eins og fram kemur í stefnunni að búvöruframleiðsla hafi forgang á góðu ræktunarlandi. Einnig er brýnt að huga vel að skiptingu í ræktunar- og beitiland annars vegar og skógrækt hins vegar. Í samhengi við þetta er ítrekað að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt í hvívetna.

Þegar fjallað er um alþjóðleg markaðsmál og tollastefnu sem tryggi stöðu innlendrar landbúnaðarframleiðslu er afar brýnt að tryggt verði að sömu kröfur séu gerðar til erlendrar og innlendrar framleiðslu. Á það við um alla þætti framleiðslunnar, aðbúnað dýra, kröfur við vinnslu matvælanna sem og merkinga á umbúðum. Ef ekki eru gerðar sömu kröfur til erlendrar og innlendrar framleiðslu mun landbúnaðarstefnan ekki ná fram að ganga.

Sömuleiðis er það eindregin krafa landbúnaðarsveitarfélaga að upprunamerkingar matvæla verði tryggðar með skýrum hætti með aðkomu og samstarfi við afurðastöðvar.

Brýnt er að land haldist í byggð og því þarf að gæta að því að fyrirkomulag stuðnings við landbúnað taki mið af byggðasjónarmiðum. Aðeins þannig verður unnt að tryggja byggðafestu og byggð í hinum dreifðari byggðum landsins.

Í tengslum við áherslu á sjálfbærni og minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda, takmörkun neikvæðra áhrifa á vistkerfi, líffræðilega fjölbreytni og eflingu hringrásarhagkerfis vill sveitarstjórn Húnaþings vestra leggja ríka áherslu á að í aðgerðum til að ná fram þessum mikilvægu markmiðum verði miðað við íslenskar aðstæður. Svo sem við útreikninga á kolefnisspori.

Að síðustu leggur sveitarstjórn Húnaþings vestra áherslu á að framkvæmdaáætlun sú sem vinna á í framhaldi samþykktar stefnunnar verði unnin í ríku samráði við framleiðendur og landbúnaðarsveitarfélög. Einnig er brýnt að fjármagn fylgi þeim aðgerðum sem skilgreindar verða. Aðeins þannig munu markmið stefnunnar ná fram að ganga.

Auk ofangreinds er vísað til atriða í umsögn sveitarfélagsins um drög að þingsályktunartillögu um matvælastefnu, mál nr. 30/2023, sem í meginatriðum er samhljóða ofangreindri umsögn.“

b.  2304001 Tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040, 915. mál. Umsagnarfrestur til 17. apríl 2023. Byggðarráð ítrekar umsögn sveitarstjórnar sem veitt var þegar málið var birt á Samráðsgátt stjórnvalda: „Ástæða er til að fagna því að lögð er fram í fyrsta skipti matvælastefna fyrir Ísland. Húnaþing vestra er eitt mesta matvælahérað landsins og fagnar því áherslu stjórnvalda á eflingu innlendrar matvælaframleiðslu svo Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum matvælum í sátt við umhverfi og samfélag. Í bókunum sínum um landbúnað undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra ítrekað lagt áherslu á að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla og þeirra innlendu. Er ástæða til að leggja enn og aftur áherslu á það í tengslum við framlögð drög að matvælastefnu. Á það við um alla þætti í framleiðslunnar, aðbúnað dýra, kröfur við vinnslu matvælanna sem og merkinga á umbúðum. Ef ekki eru gerðar sömu kröfur til erlendrar og innlendrar framleiðslu mun matvælastefnan ekki ná fram að ganga.

Í tengslum við áherslu á sjálfbærni og minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda, takmörkun neikvæðra áhrifa á vistkerfi, líffræðilega fjölbreytni og eflingu hringrásarhagkerfisins vill sveitarstjórn Húnaþings vestra leggja ríka áherslu á að í aðgerðum til að ná fram þessum mikilvægu markmiðum verði miðað við íslenskar aðstæður. Svo sem við útreikninga á kolefnisspori.

Að síðustu leggur sveitarstjórn Húnaþings vestra áherslu á að framkvæmdaáætlun sú sem vinna á í framhaldi samþykktar stefnunnar verði unnin í ríku samráði við framleiðendur og sveitarfélög. Einnig er brýnt að fjármagn fylgi þeim aðgerðum sem skilgreindar verða. Aðeins þannig munu markmið stefnunnar ná fram að ganga.

Auk ofangreinds er vísað til atriða í umsögn sveitarfélagsins um drög að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu, mál nr. 31/2023, sem í meginatriðum er samhljóða ofangreindri umsögn.“

c. 2303060 Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024-2028, 860. mál. Umsagnarfrestur til 12. apríl 2023. Byggðarráð fagnar framlagðri aðgerðaáætlun en leggur áherslu á mikilvægi þess að fjármagn fylgi þeim metnaðarfullu aðgerðum sem skilgreindar eru í áætluninni. Jafnframt lýsir ráðið yfir áhuga á að Húnaþing vestra verði eitt þeirra sveitarfélaga sem taka þátt í þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu.

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 14:08.

Var efnið á síðunni hjálplegt?