1169. fundur

1169. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 6. mars 2023 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon formaður, Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður og Elín Lilja Gunnarsdóttir varamaður.

Starfsmenn

Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg.

Afgreiðslur:
Sigurður Þór Ágústsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs kom til fundar við byggðarráð kl.
14:04.
1. 2303003 Útboð skólaaksturs 2023-2027. Sigurður Þór fór yfir útboðsgögn vegna útboðs skólaaksturs skólaárin 2023-2024 til og með 2026-2027. Byggðarráð samþykkir gögnin og felur sviðsstjóra auglýsingu þeirra.
2. 2303004 Útboð aksturs fyrir eldri borgara 2023-2027. Sigurður Þór fór yfir útboðsgögn vegna útboðs aksturs með eldri borgara í dagvistun frá 1. ágúst 2023 til 31. júlí 2027. Byggðarráð samþykkir gögnin og felur sviðsstjóra auglýsingu þeirra.
Sigurður Þór vék af fundi kl. 14:33.
3. 2303001 Bréf frá Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga lagt fram til kynningar. Í bréfinu er m.a. bent á að undanþágur frá fjármálareglum sveitarfélaga falla úr gildi frá og með árinu 2026.
4. 2211008 Afrit af bréfi frá sýslumanni vegna fjallskila. Lagt fram til kynningar.
5. Tilkynning frá Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um styrkveitingu til aðgengismála þar sem tilkynnt er um styrkveitingu vegna framkvæmda á árunum 2021 og 2022 við Grunnskólann á Hvammstanga og við Íþróttamiðstöð. Nemur framlagið kr. 2.529.020.
6. 2303006 Fundargerð 919. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. febrúar 2023 lögð fram til kynningar.
7. Umsagnarbeiðnir:
a. 2303002 Tillaga til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf, 25. mál. Umsagnarfrestur til 14. mars 2023. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
b. 2303005 Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um samgöngu-framkvæmdir (samfélagsvegir), 485. mál. Umsagnarfrestur til 15. mars 2023.
Lögð fram eftirfarandi tillaga að umsögn:
Ljóst er að um langt skeið hefur uppbygging samgöngumannvirkja verið stórlega vanfjármögnuð. Um land allt er brýn þörf á uppbyggingu stofn- og tengivega sem miðað við það fjármagn á samgönguáætlun er áætlað til slíkra verka, mun taka áratugi að ljúka. Húnaþing vestra hefur ekki farið varhluta af skorti á uppbyggingu vega. Þess vegna er framlagningu frumvarpsins fagnað þar sem í því eru kynntar leiðir sem stuðla eiga að tækifærum til flýtingar stærri framkæmda sem uppfylla ákveðin skilyrði. Með því losna fjármunir til annarra verka.
Þó svo að frumvarpinu sé fagnað er þó vert að undirstrika það sem tekið er fram í greinargerð að ekki sé gerð krafa um framlög sveitarfélaga til slíkra framkvæmda heldur forystu þeirra um stofnun félaga til að hraða framkvæmdum. Ekki er hlutverk sveitarfélaganna að bera kostnað af slíkum framkvæmdum heldur er það ábyrgð ríkis. Hins vegar þekkja sveitarfélögin vel hvar þörfin er brýnust og því er aðkoma þeirra að félögum sem kunna að vera stofnuð um tilteknar framkvæmdir mikilvæg. Flestir landshlutar hafa unnið staðbundnar samgönguáætlanir og er Norðurland vestra einn þeirra. Því miður hefur borið á því að þær áherslur sem lagðar eru fram í þeim áætlunum eru ekki virtar í ákvörðunum um framkvæmdir. Í greinargerð með frumvarpinu er lögð áhersla á vilja heimamanna og tekur byggðarráð heilshugar undir mikilvægi þess að sá vilji sé virtur.
Brýn nauðsyn er til að leita nýrra leiða til að bæta vegi á Íslandi. Því ber að fagna framlagningu frumvarpsins sem kynnir nýja og framsækna leið til að flýta brýnum framkvæmdum á landsbyggðinni. Því styður byggðarráð Húnaþings vestra að frumvarpið nái fram að ganga.
Byggðarráð samþykkir tillöguna samhljóða og felur sveitarstjóra að senda hana til umhverfis- og samgöngunefndar.
Magnús Vignir Eðvaldsson vék af fundi kl. 15:09.
8. Ráðning sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs var auglýst laust til umsóknar í byrjun febrúar með umsóknarfresti til 24. febrúar 2023. Fjórar umsóknir bárust. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka að afloknum viðtölum. Umsækjendur voru eftirfarandi: Eiríkur Steinarsson, Erla Björgvinsdóttir og Sigurður Þór Ágústsson. Lagt fram minnisblað frá Unni Valborgu Hilmarsdóttur sveitarstjóra ásamt samantekt Thelmu Kristínar Kvaran ráðgjafa frá Intellecta, þar sem farið er yfir ferlið og mat á umsækjendum að afloknum viðtölum og umsögnum meðmælenda. Byggðarráð hefur kynnt sér öll gögn málsins og samþykkir fyrirliggjandi mat. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að Sigurður Þór Ágústsson verði ráðinn í starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs Húnaþings vestra.
Magnús Vignir Eðvaldsson kom aftur til fundar kl. 15:13.

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:26.

Var efnið á síðunni hjálplegt?