1153. fundur

1153. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 17. október 2022 kl. 14:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Magnús Magnússon formaður, Elín Lilja Gunnarsdóttir varamaður og Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg.

Magnús Magnússon formaður setti fund.

Afgreiðslur:

1.  Erindi frá stjórn Elds í Húnaþingi. Valdimar Gunnlaugsson, Herdís Harðardóttir og Jóhanna Sigtryggsdóttir komu til fundar við byggðarráð og fóru yfir framkvæmd Elds í Húnaþingi. Byggðarráð þakkar þeim komuna.

2.  2210015 Erindi frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra ásamt drögum að samstarfssamningi. Byggðarráð samþykkir að vísa erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2023.

3.  2210016 Styrkbeiðni frá Leikflokki Húnaþings vestra vegna áfallins kostnaðar vegna handritsgerðar á söngleiknum Himni og jörð sem sýna átti á árinu en frestaðist til komandi páska. Byggðarráð samþykkir að framlag ætlað til leikfélaga á fjárhagsáætlun ársins 2022 verði veitt Leikflokki Húnaþings vestra, samtals kr. 225.000. Sveitarstjóra er jafnframt falið að óska eftir ársreikningi félagsins.

Magnús Magnússon vék af fundi byggðarráðs og Magnús Vignir Eðvaldsson tók við stjórn fundarins.

4.  2210017 Erindi frá Veiðifélagi Miðfirðinga þar sem óskað er leyfis til hæðarmælinga við Kvíslarvatn á Núpsheiði. Tilgangur mælinganna er að kanna möguleika á vatnsmiðlun úr Kvíslarvatni með því að hækka á vatninu. Byggðarráð veitir leyfi til hæðarmælinga en tekur fram að í því felist ekki leyfi til umræddrar framkvæmdar fari svo að hún komi til álita. Slíka leyfisveitingu þarf að taka fyrir sérstaklega og leggja mat á áhrif hennar.

Magnús Magnússon kom aftur til fundar við byggðarráð og tók við stjórn fundar að nýju.

5.  Afskriftarbeiðni frá sýslumanni. Fram lagðar tvær beiðnir um afskrift vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda frá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra. Annars vegar vegna dánarbús og hins vegar fyrndrar kröfu, samtals kr. 72.006. Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við afskriftarbeiðnirnar.

6.  2210023 Fundargerð 84. fundar stjórnar SSNV lögð fram til kynningar.

7.  Umsagnarbeiðnir:

a)   2210018 Áætlun um loftgæði. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

b)  Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðar-umhverfi sjókvíaeldis, 9. mál. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

c)  Frumvarp til laga um almannatryggingar (skerðing á lífeyri vegna búsetu), 44. mál. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

d) Drög að umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða), 144. mál.  Lögð fram tillaga að svohljóðandi umsögn:

Einn af hornsteinum sjálfsstjórnarvalds sveitarfélaga er skipulagsvaldið. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er að mati byggðarráðs Húnaþings vestra vegið stórlega að því valdi. Ráðið tekur undir sjónarmið um að nauðsynlegt sé að einfalda regluverk til að flýta megi framkvæmdum við uppbyggingu raforkuinnviða. Það dregur hins vegar í efa að þær breytingar sem kynntar eru í frumvarpsdrögunum leiði til einföldunar og hraðari afgreiðslu mála en nú er.

Ráðið gerir eftirfarandi athugasemdir við einstaka liði:

Í 8. gr. frumvarpsdraganna kemur fram að raflínuskipulag sé rétthærra svæðis-, aðal- og deiliskipulagi. Í grein 9c kemur hins vegar fram að leyfisveitanda, sem samkvæmt frumvarpsdrögunum er raflínunefnd, heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru fram í gildandi skipulagsáætlunum. Skipuðum raflínunefndum er því falið skipulag sem rétthærra er gildandi skipulagsáætlunum samþykktum af sveitarstjórnum. Í næstu grein er svo veitt heimild til að skilyrði gildandi áætlana eigi við. Þar er um mótsögn að ræða.

Í 7. gr, lið c. (11.gr.c.) segir: ,,Raflínunefnd auglýsir tillögu að raflínuskipulagi og fer um auglýsinguna skv. 31. gr. Þá skal tillagan send til umsagnar hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum og umsagnaraðilum.“ Hér er sveitarstjórn orðin umsagnaraðili máls í sínu eigin sveitarfélagi og þannig gengið fram hjá skipulagsvaldi þess.

Í 9. gr. eru breytingar á 13. gr. laganna skýrðar: ,,Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Afla skal framkvæmdaleyfis raflínunefndar vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku þegar slík nefnd hefur verið skipuð vegna viðkomandi framkvæmdar.“ Hér er því enn gengið framhjá valdi sveitarstjórnar þar sem raflínunefnd gefur út framkvæmdaleyfi en ekki sveitarstjórn á grundvelli aðalskipulags.

Í greinum 10, 11, 12, 17 og 18 er margítrekað að raflínunefnd fer með leyfisveitingar og eftirlit með framkvæmdum. Raflínunefnd er því falið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir í stað sveitarstjórnar.

Framangreind dæmi sýna svo ekki er um villst að með frumvarpinu er gengið á skipulagsvald og sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga. Við það verður ekki unað. Byggðarráð Húnaþings vestra leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga í óbreyttri mynd. Ráðið gerir að síðustu athugasemd við skamman umsagnarfrest í eins viðamiklu máli og hér um ræðir. Jafnframt áskilur það sér rétt til umsagnar á síðari stigum málsins.

Byggðarráð samþykkir tillöguna samhljóða og felur sveitarstjóra að koma henni á framfæri við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:11.

Var efnið á síðunni hjálplegt?