1084. fundur

1084. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 12. apríl 2021 kl. 14:00 Ráðhúsi.

Fundarmenn

Friðrik Már Sigurðsson formaður, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir varaformaður og Magnús Magnússon, aðalmaður.

 

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri. 

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

1. Minjavörður Norðurlands vestra Guðmundur Stefán Sigurðarson kemur til fundar. Guðmundur Stefán fór yfir erindi frá eigendum Stóru-Borgar ytri 1 þar sem leitað er eftir ráðleggingum stofnunarinnar varðandi framtíð húss sem reist var um 1882 í landi Stóru-Borgar ytri. Eigendur hússins hafa lýst vilja sínum til að gefa húsið til uppgerðar með aðkomu Minjastofnunar Íslands. Guðmundur Stefán fór yfir sögu hússins og tengingu þess við sögu héraðsins ásamt því að velta upp möguleikum á aðkomu Húnaþings vestra að verkefninu. Byggðarráð þakkar Guðmundi Stefáni fyrir greinargóða yfirferð.
2. Betri vinnutími – Íþróttamiðstöð. Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti drög að nýju fyrirkomulagi vinnutíma í tengslum við styttingu vinnuvikunnar í íþróttamiðstöðinni. Ljóst er að nokkur kostnaðarauki mun hljótast af breyttu fyrirkomulagi. Byggðarráð þakkar Elínu Jónu greinargóða yfirferð.
3. 2104004 Lagt fram bréf frá Árborgu Ragnarsdóttur, dags. 7. apríl sl. þar sem hún vekur athygli á því að brýn þörf sé á að bæta aðstöðu fyrir smábáta og smábátaeigendur. Byggðarráð þakkar Árborgu ábendingarnar sem fram koma í bréfinu og tekur undir mikilvægi bættrar hafnaraðstöðu. Sveitarfélagið lét gera úttekt á hafnarmannvirkjum og í framhaldi var sótt um fjármagn á samgönguáætlun til viðhalds og endurnýjunar á hafnarmannvirkjum í Hvammstangahöfn. Ekki hefur enn fengist fjármagn til framkvæmda en hluti sveitarfélaga í hafnarframkvæmdum og sjóvörnum er 1/8 af heildarframkvæmdakostnaði.
4. 2103070 Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótarfélags Íslands, dags. 26. mars sl., þar sem vakin er athygli á að opið er fyrir umsóknir í styrktarsjóð EBÍ. Tilgangur sjóðsins er að styrkja með framlögum verkefni sem ekki teljast til almenns rekstrar sveitarfélagsins heldur sérstök framfaraverkefni í þágu byggðarlaganna. Sveitarstjóra falið að senda inn umsókn fyrir hönd sveitarfélagsins.
5. 2104013 Lagt fram tölvubréf, dags. 6. apríl sl., frá Vegagerðinni vegna sjóvarna í sveitarfélaginu. Í óveðrinu í desember 2019 urðu nokkrar skemmdir á sjóvörnum í sveitarfélaginu og í sumar er áætlað að fara í framkvæmdir við Reykjaskóla og á Borgum. Gróf kostnaðaráætlun er um 20 milljónir króna þar af er hlutur sveitarfélagsins 1/8 eða um 2,5 milljónir króna. Sveitarstjóra falið að kalla eftir endanlegri kostnaðaráætlun vegna verkefnisins og í framhaldinu leggja fram viðauka vegna framkvæmdanna.
6. 2104001 Lagt fram bréf frá Eldi í Húnaþingi þar sem óskað er eftir samningi um leigu á Félagsheimilinu Hvammstanga vegna hátíðarinnar og undirbúnings hennar. Sveitarstjóra falið að gera samning við stjórn Elds í Húnaþingi á grundvelli samnings síðasta árs.
7. 2103073 Lagt fram til kynningar bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og mat á stöðu verkefna í viðspyrnuáætlun sambandsins frá mars 2020 með aðgerðapakka fyrir sveitarfélög og sambandið við viðspyrnu gegn samdrætti í þjóðarbúskapnum. Einnig hvetur stjórn sambandsins sveitarfélög til að taka þátt í átakinu „Hefjum störf“.
8. 2103063 Fundargerð 896. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögð fram til kynningar.
9. 2104005 Fundargerð 65. fundar stjórnar SSNV lögð fram til kynningar.
Byggðarráð tekur undir bókun stjórnar SSNV varðandi staðsetningu starfa hjá Rarik. Lögð er fram eftirfarandi tillaga að bókun:
„Byggðarráð Húnaþings vestra skorar á stjórn RARIK að endurskoða fasta staðsetningu starfa í Reykjavík og auglýsa þess í stað störf án staðsetningar. Þannig stuðlar félagið að áframhaldandi uppbyggingu starfsstöðva sinna á landsbyggðinni, þar sem viðskiptavinir þess eru staðsettir. Þá ítrekar byggðarráð gagnrýni sveitarstjórnar hvað varðar lokun starfsstöðvar RARIK á Hvammstanga og hvetur stjórn RARIK til að endurvekja hana og tryggja þannig öryggi íbúa og þjónustu á Norðurlandi vestra.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með þrem atkvæðum.
10. Fundargerð 3. fundar starfshóps um fjölnota rými lögð fram til kynningar.
11. Drög að samningi vegna fjallskila, upprekstarréttar og nýtingarréttar milli Húnaþings vestra og eigenda jarðanna Efri- og Neðri- Fitja. Lögð voru fram drög að samningi á milli Húnaþings vestra og eigenda jarðanna Efri- og Neðri-Fitja um fjallskil, upprekstrarrétt og nýtingarrétt jarðanna á afréttum. Með samningum flytjast jarðirnar Efri- og Neðri- Fitjar yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga og hafa þær upprekstrar- og nýtingarrétt á afréttum Miðfirðinga á meðan samningurinn er í gildi. Samningurinn er tímabundinn og gildir til 5 ára. Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar til sveitarstjórnar. Sveitarstjóra er jafnframt falið að gera samhliða þessum samningi samkomulag við fjallskiladeildir Víðdælinga og Miðfirðinga vegna þeirra breytinga á deildunum sem leiða af samningnum.

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:53

Var efnið á síðunni hjálplegt?