1018. fundur

1018. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 21. október 2019 kl. 14:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Friðrik Már Sigurðsson, formaður, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, aðalmaður og Magnús Magnússon, aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.

 

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

Afgreiðslur:

 

1. 1903006  Lagt fram til kynningar bréf frá Skipulagsstofnun, vegna nýs deiliskipulags fyrir skólasvæði og breyting á deiluskipulagi austan Norðurbrautar. Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiluskipulagsins og deiluskipulagsbreytingarinnar í B deild stjórnartíðinda.

 2. 1910039  Afrit af bréf frá Þroskahjálp, lagt fram til kynningar.  Í bréfinu fer Þroskahjálp þess á leit við félagsmálaráðuneytið að það upplýsi hvort Sveitarfélagið Skagafjörður hafi haft samráð við ráðuneytið varðandi ákvörðun um að endurnýja ekki samstarfssamning við nágrannasveitarfélög um málefni fatlaðs fólks.

3. 1910036  Flugklasinn 66N, starf flugklasans frá 1. apríl – 11. október 2019. Lagt fram til kynningar.

4. 1910032  Lögð fram styrkumsókn frá Samtökum um stuðningssetur fyrir ungt fólk.  Erindinu er vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

5. 1910038  Soroptimistaklúbbur við Húnaflóa, styrkumsókn.  Soroptimistaklúbburinn við Húnaflóa óskar eftir 50.000 kr. styrk í verkefnið „Stelpur geta allt“ sem er helgarnámskeið fyrir stúlkur á 12. aldursári sem haldið verður nú í haust.  Markmið verkefnisins er að styrkja sjálfsmynd ungra stúlkna. Byggðarráð samþykkir styrkbeiðnina.

6. 1910047  Lögð fram styrkumsókn frá Körfuboltaskóla Norðurlands.  Sótt er um styrk til að halda körfuboltanámskeið á Hvammstanga í vetur.  Erindinu er vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

7. 1910048  Lögð fram styrkumsókn frá Stígamótum vegna almenns rekstrarkostnað samtakanna. Erindinu er vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

8. 1910003  Lögð fram umsókn frá Guðmundi Hauki Sigurðssyni um lóð undir einbýlishús að Bakkatúni 4, til vara Bakkatún 3.  Lóðinni Bakkatún 4 hefur þegar verið úthlutað. Byggðarráð samþykkir að úthluta lóðinni Bakkatúni 3 til umsækjanda.

9. 1909077  Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Á síðustu misserum hefur farið fram undirbúningur innan Húnaþings vestra vegna mögulegrar yfirtöku á málaflokknum þar sem samningur um sameiginlegt þjónustusvæði um þjónustu við fatlað fólk rennur út um n.k. áramót. Á 1008. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra þann 12. ágúst sl. var ákveðið að endurnýja ekki núgildandi samning.  Sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa lýst áhuga á að áfram verði samstarf á öllu svæðinu.  Í ljósi þessa felur byggðarráð sveitarstjóra að kanna grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi með ákveðnum breytingum frá núgildandi samningi.

10. 1812025 Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. 

Lögð er fram eftirfarandi bókun:

„Byggðarráð Húnaþings vestra ítrekar ósk sína að land innan marka Húnaþings vestra verði ekki hluti fyrirhugaðs þjóðgarðs á miðhálendinu. Á þetta bæði við um land í beinni eigu sveitarfélagsins og þjóðlendur í afréttareign innan marka Húnaþings vestra.

 

Byggðarráð vill árétta að samkvæmt lögum er skipulagsvald, þ.e. vinnsla og samþykkt svæðis-, aðal- og deiliskipulags í höndum sveitarfélaga. Það er því ekki í verkahring ráðherraskipaðar nefndar, ráðherra eða Alþingis að hafa með beinum hætti áhrif á skipulag sveitarfélaga með því að gera tillögu að legu þjóðgarðs á miðhálendinu innan marka þeirra.

 

Áherslur er varða stjórnskipun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands fela í sér flutning á stefnumörkun, umsjón og rekstri frá sveitarfélögum til svæðisráða. Þessar hugmyndir takmarka áhrif sveitarfélaga til þess að móta sér stefnu til að mynda hvað varðar uppbyggingu innviða, atvinnumál, landnýtingu og landvernd.  Byggðarráð gagnrýnir að fyrirliggjandi textadrög feli í sér hugmyndir um færslu á valdheimildum sveitarstjórna til svæðisráða. Þannig flyst ákvarðanataka frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum sveitarfélaga til kjörinna fulltrúa annarra sveitarfélaga, embættismanna og hagsmunahópa. Byggðarráð leggur áherslu á að í dag ríkir engin óvissa um stjórn svæða innan marka sveitarfélagsins.

 

Byggðarráð telur að fyrirliggjandi tillaga nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands feli í sér verulega skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga og réttindum íbúa þeirra. Í fyrirliggjandi textadrögum þar sem fjallað er um markmið með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er ekki lýst brýnni nauðsyn fyrir stofnun hans. Hugmyndir um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu virðast fyrst og fremst tilkomnar til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi á hálendi Íslands.“  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 3 atkvæðum.

11. Húsnæðisáætlun fyrir Húnaþing vestra. Fyrir fundinum lágu þrjú tilboð í gerð húsnæðisáætlunar fyrir Húnaþing vestra.  Byggðarráð samþykkir að ganga til samninga við Ráðrík ehf. sem var með lægsta tilboðið að upphæð kr. 750 þúsund auk virðisaukaskatts.  Friðrik Már Sigurðsson vék af fundi undir þessum lið.

 

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl.: 15:30

Var efnið á síðunni hjálplegt?