20 ára afmælistónleikar Kammerkórs Norðurlands

Á haustdögum 2018 stóðu félagar í Kammerkór Norðurlands frammi fyrir þeirri staðreynd að kórinn var að nálgast tvítugt. Þótti við hæfi að efna til sérstakra tónleika af því tilefni og kom fljótt upp sú hugmynd að minnast þess jafnframt að 100 ár eru liðin síðan ljóðabók Davíðs Stefánssonar „Svartar fjaðrir“ kom út við fáheyrðar vinsældir. Fljótlega eftir útgáfu hennar var farið að semja lög við ýmis ljóð úr bókinni og lifa þau lög enn í dag líkt og ljóðin sjálf.

Okkur þótti freistandi verkefni að sjá hvernig tónskáld hafa litið - og líta enn í dag á ljóð Davíðs sem viðfangsefni fyrir tónlist. Þess vegna var ákveðið að setja saman efnisskrá með eldri lögum og nýjum við ljóð Davíðs og fengum við nokkur tónskáld til að semja ný lög við ljóð úr „Svörtum fjöðrum“ fyrir kórinn. Tónskáldin völdu sjálf ljóðin og í sumum tilfellum er sama ljóðið valið tvisvar. Styrkur fékkst til þessa verkefnis frá Tónlistarsjóði og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og erum við afar þakklát fyrir það.

Efnt verður til þriggja tónleika á norðurlandi:
Félagsheimilinu Hvammstanga, 22. feb. kl 16:00
Frímúrararsalnum Sauðárkróki, 22. feb. kl 20:30
Þorgeirskirkju Bárðardal, 23. feb. kl. 16:00

Var efnið á síðunni hjálplegt?