Verndarsvæði í byggð á Borðeyri staðfest

Verndarsvæði í byggð á Borðeyri staðfest

Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkti á fundi sínum þann 8. mars 2018 að leggja tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan Borðeyrar í Hrútafirði, sbr. 4.gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

Markmið þess að gera hluta Borðeyrar að sérstöku verndarsvæði er að viðhalda og styrkja byggð á Borðeyri með þeim hætti að söguleg arfleifð kaupstaðarins fái notið sín og gildi hennar undirstrikað gagnvart heimamönnum jafnt sem aðkomufólki en þó ekki síst gagnvart komandi kynslóðum.

Til grundvallar tillögunni var Húsakönnun á Borðeyri frá 2017 ásamt ítarlegri umfjöllun um sögu Borðeyrar sem unnin var af dr. Vilhelm Vilhelmssyni sagnfræðingi vegna tillögunnar og fornleifaskráning fyrir Borðeyri frá 2008. Einnig er byggt á greiningu á svipmóti byggðarinnar í sögu og samtíð. Ítarlegri rökstuðningur með tillögu um verndarsvæði á Borðeyri ásamt fyrrnefndri umfjöllun um sögu byggðarinnar og greining á heildarsvipmóti er að finna í greinargerð sem fylgir tillögunni. 

Tillagan er staðfest að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands sem meðal annars horfir til afmörkunar verndarsvæðis, og gagna sem liggja til grundvallar greinargerð sem fylgir tillögunni, þ.m.t. fornleifaskráningar, húsakönnunar, mats á varðveislugildi og skilmála um verndun og uppbyggingu innan marka verndarsvæðisins.

Á fundi sveitarstjórnar þann 10. apríl 2019 var tekið fyrir bréf Mennta- og menningarmálaráðherra þar sem staðfest er tillaga um Verndarsvæði í byggð á Borðeyri.
"Sveitarstjórn fagnar staðfestingu ráðherra á ósk sveitarstjórnar um að hluti Borðeyrar verði skilgreindur sem verndarsvæði í byggð í samræmi við lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015."
 
"Staðfestingin mun vernda sérkenni byggðakjarnans í komandi skipulagsvinnu.“
 
 
Myndir úr skýrslunni
 

Var efnið á síðunni hjálplegt?