Heimsókn frá Viðlagatryggingu Íslands

Heimsókn frá Viðlagatryggingu Íslands

Fulltrúar frá Viðlagatryggingu Íslands (VTÍ ) komu í heimsókn í dag en heimsóknin er liður í átaki stofnunarinnar til að bæta þekkingu á hlutverki hennar og skráningu opinberra mannvirkja í eigu sveitarfélaganna sem vátryggð eru hjá VTÍ.

Helstu breytingar sem gera þarf á tryggingum Húnaþings vestra hjá Viðlagatryggingu eru vegna hitaveituframkvæmda síðustu þriggja ára en um 90 kílómetrar af hitaveitulögnum hafa verið lagðir á síðustu 3 árum og til stendur að leggja um 30 kílómetra í ár.  Þá hafa 5 dæluhús hafa bæst við þau sem fyrir voru. 

Fundarmenn áttu góðar og markvissar samræður um vátryggingavernd mannvirkja í eigu sveitarfélagsins og um mikilvægi þess að skráð verðmæti þeirra sé uppfært reglulega til að tryggja að eignirnar séu vátryggðar að fullu áður en vátryggingaratburður á sér stað. Einnig var rætt um mikilvægi samvinnu sveitarfélagsins og VTÍ til að stuðla að markvissri endurbyggingu sveitarfélagsins ef til tjónsatburðar kemur.

Húnaþing vestra er á landi sem talið er nokkur öruggt með tilliti til náttúruhamfara. Hér eru ekki virk eldfjöll, ekki hætta á jarðskjálftum og ekki hætta á snjó- eða vatnsflóðum svo talið sé.  En náttúran er óútreiknanleg eins og eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 sýndi eftirminnilega en þá gaus úr fjalli sem átti að vera óvirkt og jarðskjálftinn í Christchurch í Nýja Sjálandi árið 2014 en borgin var talin vera á öruggu svæði.

Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að íbúar séu meðvitaðir um hvort  vátryggingavernd þeirra sé í lagi. Fram kom á fundinum að ef innbú er vátryggt almennri lausafjártryggingu hjá vátryggingafélagi rennur hluti iðgjaldsins til VTÍ og tryggir þannig vátryggingavernd innbúsins komi til tjóns af völdum jarðskjálfta, eldgosa, vatns-, aur- eða snjóflóða skv. skilgreiningum laga um VTÍ (55/1992). Ef slík vátrygging er ekki til staðar greiðast engar bætur vegna innbús ef til tjóns kemur. Allar fasteignir eru hins vegar skylduvátryggðar gegn náttúruhamförum og eru iðgjöldin innheimt samhliða brunatryggingum fasteigna hjá almennu vátryggingafélögunum.“

Var efnið á síðunni hjálplegt?