Framkvæmdaáætlun RARIK fyrir árin 2023-2025 í Húnaþingi vestra

Sveitarstjórn og fulltrúar RARIK sem fundinn sátu.
Sveitarstjórn og fulltrúar RARIK sem fundinn sátu.

Á dögunum sótti sveitarstjórn forsvarsfólk RARIK heim í höfuðstöðvum þeirra í Reykjavík. Tilgangur fundarins var að fara yfir helstu framkvæmdir undanfarinna missera sem og áætlanir um framkvæmdir á komandi árum. Flýtingar á lagningu jarðstrengja í kjölfar óveðursins í desember 2019 hafa gert það að verkum að stór skref hafa verið stigin á þeim tíma sem liðinn er en enn er þónokkuð verk óunnið. Fundurinn var hinn ágætasti og fengust góðar upplýsingar um áætlanir komandi ára. 

Í ár hefur verið unnið að strenglögn út Vatnsnes að austanverðu ásamt álmum á þeirri línu. Sem nýframkvæmd var lagður strengur frá Þorfinnsstöðum að Vatnsenda og línunni þaðan að Stóru-Borg skipt út fyrir streng.

Í athugun er að leggja streng frá Ásbjarnarstöðum að Þorgrímsstöðum.

Áætlun RARIK fyrir árin 2023-2025 

Vert er að taka fram að þær upplýsingar sem hér eru settar fram eru áætlanir sem geta breyst af ýmsum orsökum. Hins vegar er gott að sjá að áætluð eru nokkur verk á næstu þremur árum þó vissulega væri betra að sjá alla strengi í jörð á þeim tíma. Það verður því baráttumál að fá því sem eftir stendur flýtt. 

2023

Lagt verður í allan Fitjárdal.

Í Miðfirði verður lagt að Réttarseli.

Í Hrútafirði er stefnt að lögn frá Reykjaskóla að Hvalshöfða.

2024

Áfram verður haldið með Vatnsneslínu að austan, að Tjörn.

Línur á Heggstaðanesi sem eftir eru verða lagðar í jörð.

2025

Áfram verður haldið með strengi í Miðfirði.

Til viðbótar má nefna að stefnt er að lagningu strengs frá Hrútatungu að Staðarskála til að mæta álagsaukningu og ef áform um áningarstað við Hvammstangavegamót ganga eftir getur komið til þess að kerfið frá Laugarbakka að vegamótunum verði endurnýjað með sverari streng.

Samtal við Landsnet um nýtt úttak byggðalínu nálægt Laugarbakka er í gangi. Verði sú stöð ekki að veruleika verður lagður 33 kV strengur frá Hrútatungu til að mæta álagsaukningu á svæðinu næst Laugarbakka. RARIK og Landsnet munu komast að sameiginlegri niðurstöðu um bestu lausn á þessu máli

Línurnar frá Hrútatungu að Hvalshöfða (3-fasa) og frá Tjörn að Krossanesi (1-fasa) voru reistar eftir árið 1970 og leggjast í streng á tímabilinu 2026-2035 samkvæmt endurnýjunaráætlun RARIK.

Staða jarðstrengjalagningar í Húnaþingi vestra og áætlun komandi ára.

Var efnið á síðunni hjálplegt?