977. fundur

977. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 24. september 2018 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Ingveldur Ása Konráðsdóttir, aðalmaður, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, varamaður og Sigríður Ólafsdóttir, varamaður

Starfsmenn

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri.
Ingibjörg Jónsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs

Fundargerð ritaði: Ingibjörg Jónsdóttir

Afgreiðslur:

 

1.  Umhverfisstjóri Ína Björk Ársælsdóttir mætir til fundar við byggðarráð.   Farið yfir helstu verkefni s.s. dýpkun á höfninni, starfsemi Hirðu og aðalskipulag Húnaþings vestra.

2.  Rekstrarstjóri Unnsteinn Andrésson mætir til fundar við byggðarráð.  Farið yfir viðbyggingu íþróttamiðstöðvar.  Framkvæmdir hafa gengið vel á árinu og hefur tekist að vinna upp þær tafir sem urðu á árinu 2017 með tilheyrandi aukinni fjárþörf en ekki náðist að fullnýta það fjármagn sem áætlað var í verkið á árinu 2017.  Á því ári voru settar 30 milljónir króna í verkefnið en aðeins 12 milljónir króna nýttar.  Beðið er um viðbótarfjármagn að upphæð 21 milljón króna.  Samþykkt að vísa erindinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.  Sviðsstjóra falið að gera viðauka við fjárhagsáætlun 2018 vegna framkvæmda við íþróttamiðstöð.

3.  1809049  Lagt fram erindi frá leikskólastjóra um auka starfsdag fyrir starfsfólk leikskólans 19. október nk.  Um er að ræða ferð starfsmanna á ráðstefnuna „Hugarástand í leik og starfi“ þar sem aðalfyrirlesari er frumkvöðull þeirrar hugmyndafræði sem skólinn vinnur eftir.  Fyrir liggur umsögn sviðsstjóra þar sem fram kemur mikilvægi þess fyrir starfsfólk að dýpka skilning sinn á þeirri kenningu, Flæði, sem leikskólinn starfar eftir til að geta haldið áfram að vinna og byggja upp það faglega starf sem unnið er í skólanum.  Einnig kemur fram að þessi viðbótardagur er einstakt tilfelli og því undantekning. Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra afgreiðslu málsins að undangenginni kynningu í fræðsluráði.

4.  1809062  Lagt fram erindi frá Fasteignafélaginu Borg um skipti á hlutabréfum á Borg ehf. og Hæðinni á Höfðabraut ehf.  Borg á 25,7% í Hæðinni en sveitarfélagið 6,9% í Borg.  Byggðarráð ákveður að fresta erindinu. 

Samþykkt að taka á dagskrá

5.   Lokun útibús Vís á Hvammstanga
Byggðarráð Húnaþings vestra mótmælir harðlega lokun útibús VÍS í Húnaþingi vestra sem boðuð hefur verið. Aðgerðir sem þessar bitna verulega á íbúum landsbyggðarinnar sem þurfa sífellt að sækja þjónustu um lengri veg.  Með lokun útibúsins er engin þjónusta frá Vís aðgengileg á atvinnusvæði íbúa Húnaþings vestra. 

Ljósleiðaravæðingu landsins er meðal annars ætlað að gera fólki kleift að stunda vinnu sína hvar á landi sem er. Þrátt fyrir þessa mikilvægu tæknibyltingu virðist gæta þess misskilnings hjá stjórnendum stórfyrirtækja að hennar helsta hlutverk sé að safna sem flestu starfsfólki undir sama þak og þá helst á dýrasta stað í höfuðborg landsins, frekar en að gera fólki alls staðar að af landinu kleift að sinna viðkomandi störfum. Erfitt er að sjá að þessi þróun sé viðskiptavinum í vil, enda hefur hvergi komið fram að þessi þróun verði til að lækka iðgjöld þeirra. Byggðarráð hvetur stjórn VÍS til að endurskoða þessa ákvörðun með það að markmiði að viðhalda góðri þjónustu við landsbyggðirnar.

Sveitarstjóra falið að segja upp samningum við VÍS fyrir 1. júlí 2019 og leita tilboða í tryggingar hjá þeim tryggingarfélögum sem treysta sér til að þjónusta samfélagið með viðunandi hætti.  

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl: 14:54

Var efnið á síðunni hjálplegt?