20. febrúar 2023

Vikan 13. -19. febrúar 2023

Vinnuvikan hófst á þriðjudegi í þetta skiptið vegna vetrarfrís barnanna. Eins og ég sagði frá í síðustu dagbókarfærslu skruppum við suður yfir helgina og vorum komin heim seinnipartinn á mánudaginn. Vinnuvikan hófst á starfsmannafundi með mínu ágæta samstarfsfólki í Ráðhúsinu. Við hittumst öll mánaðarlega, gjarnan í kjölfar sveitarstjórnarfunda og förum yfir helstu mál sem þar eru tekin fyrir. Ég hef sagt það áður og segi aftur að ég vinn með einvala liði sem sinnir störfum sínum af mikilli kostgæfni. Að starfsmannafundi loknum tók við undirbúningur fundar veituráðs sem var á dagskrá í lok dags. Til umfjöllunar þar var m.a. vatnslögn frá Hvammstanga að Laugarbakka en undirbúningur hennar er á lokametrunum. Þau ánægjulegu tíðindi bárust einmitt í vikunni að sveitarfélagið fékk styrk upp á kr. 15 milljónir til framkvæmdarinnar úr byggðaáætlun. Þó framkvæmdin sé nokkuð dýrari en það þá munar svo sannarlega um þessa upphæð.

Nokkur tími fór í það að skoða neysluvatns mál á þriðjudeginum en það ætti flestum að vera kunnugt um vandræði tengd vatnsveitunni undanfarið. Sýni voru tekin á miðvikudag sem svo óheppilega vildi til að fóru á flakk hjá flutningsaðilanum. Því þurfti að taka ný sýni á föstudeginum sem var brunað með í greiningu sem kom vel út og því ekki þörf á því að sjóða vatnið lengur. Ég vil ítreka þakkir til íbúa fyrir biðlund og skilning á meðan á þessu stóð. Sú lind sem reyndist menguð af yfirborðsvatni verður ekki tekin í notkun aftur fyrr en búið er að byggja hana upp að nýju. Þrátt fyrir það er nóg vatn þar sem lindin er sú minnsta sem var í notkun. Einnig fóru okkar menn úr áhaldahúsinu og gerðu við gat á lögn úr Grákollu. Gatið gerði það að verkum að við vorum ítrekað að fá loft inn á kerfið svo þrýstingur féll æ ofan í æ. Það vandamál ætti því að vera úr sögunni líka. Vonum við að ekki komi upp frekari vandamál tengd vatnsveitunni í bráð.

Nú en aftur að þriðjudeginum. Það sem var á borðinu þann daginn til viðbótar var skoðun á mögulegum áhrifum verkfalls á okkar svæði og hvort grípa þyrfti til einhverra ráðstafana. Svo reyndist ekki vera, í bili a.m.k. Dagbókarskrif voru að sjálfsögðu á dagskrá, loftslagsstefna, fræðslustyrkir til starfsmanna svo fátt eitt sé til talið.

Á miðvikudeginum var ég svo aftur komin suður. Tilgangur ferðarinnar var að sitja fund stjórnar Íslandsstofu. Þess utan sat ég ráðstefnu um hringrásarhagkerfi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldin var á netinu. Umfjöllunarefnið var hlutdeild Úrvinnslusjóðs í kostnaði sveitarfélaga. Ég sat í pallborði á ráðstefnunni og sagði frá stöðu þessara mála í Húnaþingi vestra. Það er skemmst frá því að segja að ég lýsti yfir áhyggjum af stöðu dreifbýlli sveitarfélaga þar sem keyra þarf um langan veg til að sækja og farga sorpi. Auka þarf framlög verulega til þesskonar sveitarfélaga til að íbúar þeirra sitji við sama borð og íbúar þéttbýlli svæða. Áður en ég brunaði heim aftur fór ég í mikilvæga sendiferð fyrir sveitarfélagið og sótti öskudagsnammi fyrir Ráðhúsið. Þau eru margskonar verkefni sveitarstjórans.

Á fimmtudeginum sat ég við skrifborðið fram að hádegi þegar ég fór á Hótel Laugarbakka á opinn fund með hluta þingflokks framsóknarflokksins. Að fundi loknum fórum við á Heilbrigðisstofnunina en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var með í för. Að þeirri heimsókn lokinni settumst við svo niður í fundarsal Ráðhússins og fórum yfir helstu mál með þingmönnum og ráðherra. Virkilega ánægjuleg heimsókn. Ráðherra hafði sérstaklega orð á því að gott orð færi af heilsugæslunni hér í Húnaþingi vestra og getum við verið stolt af því. enda hafa íbúakannanir sýnt mikla ánægju íbúa með þjónustuna. Um morguninn vann ég í samantekt helstu áhersluatriðia fyrir heimsókn þingmannanna, átti gott samtal um fjallskilamál, yfirfór gögn vegna ræstingaútboðs og fór í stutt útvarpsviðtal vegna gruns um mengun í neysluvatni. Eðlilega þykir það fréttnæmt þegar svona kemur upp. Það sem eftir lifði dags hreinsaði ég svo til í tölvupóstinum – það er einhvern veginn sama hvað maður gerir, það safnast alltaf eitthvað upp þar sem gott er að taka rassíur í að hreinsa upp reglulega.

Ráðherra, þingmenn og frítt föruneyti með Tungukots-Móra eftir Ólöfu Nordal.

Á föstudeginum fundaði ég eins og jafnan með oddvita og formanni byggðarráðs. Við förum yfir fundarefni komandi byggðarráðsfundar og hin ýmsu mál sem ég er búin að safna saman á lista yfir vikuna. Ég fundaði einnig með Örvari Eiríkssyni, nýjum framkvæmdastjóra Selasetursins. Ræddum við málefni setursins sem ég þekki ágætlega til frá því að ég var þar framkvæmdastjóri. Örvar hefur ýmsar góðar hugmyndir sem verður gaman að sjá verða að veruleika í náinni framtíð. Ég setti upp og sendi út fundarboð byggðarráðsfundar mánudagins átti nokkur símtöl vegna stöðunnar á vatnssýnunum sem höfðu farið á flakk eins og ég rakti hér að framan. Eðlilega var ég ekki sátt við það en lítið við því að gera úr því sem komið var. Ný sýni voru tekin og niðurstaðan fékkst á mánudagsmorgun og var góð svo hægt var að aflétta kröfu um að sjóða neysluvatnið.  Það góða við þetta er að allt fór vel og eitthvað verður að gera svo þorrablótsnefndin hafi efnivið í næsta annál :) 

Þar sem fremri hluti vikunnar var styttri en vanalega varði ég hluta helgarinnar við tölvuna við hin ýmsu verkefni. Ég fór yfir tímaskráningar starfsmanna vegna launaútreiknings, setti upplýsingar um sveitarstjórnarmenn inn á heimasíðuna, vann í ýmsum starfsmannamálum, var í samskiptum við ráðningastofuna sem aðstoðar okkur við ráðningu sviðsstjóra, skoðaði aðeins málefni slökkviliða, byrjaði að vinna drög að viðverustefnu sveitarfélagsins og margt fleira.

Þetta var vikan í hnotskurn – ekki er allt til talið enda ansi margt sem drífur á daga. Ég sé á undanförnum færslum að ég er ekki að standa mig í myndatökum. Ég ákvað að bæta úr því í göngutúr með ömmustelpuna mína á laugardagsmorgunin. Smellt af þessari fínu mynd af henni Bínu vinkonu okkar allra.

 

Og líka þessari af byggingarframkvæmdum í Grundartúni. Þar rýkur upp fjögurra íbúða raðhús á methraða.

Var efnið á síðunni hjálplegt?