28. ágúst 2023

Það er óhætt að segja að hægist á stjórnsýslunni yfir sumarmánuðina en hún er nú að komast á fulla ferð að nýju. Erindi eru farin að berast stríðum straumum frá ráðuneytum og stofnunum, fundadagskráin farin að þéttast og þar með fundalausum dögum að fækka. Starfsmenn sveitarfélagsins eru að tínast inn eftir frí og starfsemi stofnana að komast í samt horf eftir sumarleyfi. Ég verð nú að viðurkenna að ég fagna rútínunni og gat ekki betur séð en að börnin mín væru því sammála þegar þau byrjuðu í skólanum í vikunni.

Mánudagurinn var þó óhefðbundinn fyrir þær sakir að ekki var framkvæmdaráðsfundur að morgni né byggðarráðsfundur eftir hádegið eins og alla jafna. Sem fyrr þá fundar byggðarráð ekki ef ekki þykir tilefni til og fá mál lágu fyrir og ekkert þeirra aðkallandi. Fundi var því frestað. Ég fundaði með verkefnisstjóra umhverfismála um morguninn en við erum með fasta fundi til að fara yfir verkefni á dagskrá. Verkefnisstjóri umhverfismála heldur m.a. utan um störf vinnuskólans og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem störfuðu við vinnuskólann í sumar fyrir vel unnin störf. Þó stóðu sig með stakri prýði.

Þar sem ekki voru fleiri bókaðir fundir á mánudeginum sinnti ég ýmsum málum, Leigufélagið Bústaður kom við sögu, Vegagerðin sömuleiðis sem og fjallskilamál, starfsmannamál og fjármál. Eftir vinnu sat ég áhugaverðan fund Bændasamtakanna í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Til fundarins voru boðaðir bændur á svæðinu og ég laumaði mér með til að heyra hvað á þeim brennur. Fundurinn var upplýsandi um starf Bændasamtakanna og sköpuðust líflegar umræður eins og jafnan þegar landbúnaðarmál ber á góma.

Þriðjudagurinn var sömuleiðis skrifborðsdagur að mestu. Starfsmannamál voru áberandi, einnig mál sem tengjast skjalakerfi sveitarfélagsins og samskipti við þjónustuaðila en við erum að taka upp fundakerfi og svokallaða fundagátt fyrir nefndarmenn í nefndum sveitarfélagsins. Mun það spara okkur sem vinnum að undirbúningi funda með nefndum mikla handavinnu við útsendingu fundargagna og ritun fundargerða en ekki síst mun kerfið auka öryggi í miðlun gagna. Kerfið tengist skjalakerfi sveitarfélagsins svo það er í viðmóti sem við þekkjum vel. Engu að síður er að mörgu að hyggja í uppsetningunni sem mikilvægt er að huga vel að frá upphafi. Kynningarmál fengu jafnframt nokkra athygli fréttir á heimasíðu og auðvitað dagbók sveitarstjóra fyrir vikuna á undan. Það er að mínu mati mikilvægt að miðla sem mestum upplýsingum um hvað er að frétta í sveitarfélaginu á heimasíðunni. Oft er heilmargt í gangi sem snertir ekki nema hluta sveitarfélagsins en mikilvægt fyrir aðra að fylgjast með. Dæmi um það eru framkvæmdir RARIK í sveitarfélaginu í sumar og var sú frétt ein þeirra sem birt var á þriðjudaginn. Lesendur dagbókarinnar eru að líkum fréttaþyrstir og ég hvet þá til að láta mig vita af hugmyndum um hvernig við getum gert betur í miðlun upplýsinga. Önnur frétt sem birt var á þriðjudaginn var fyrirkomulag gæsaveiða í löndum sveitarfélagsins. Það verður með sama móti og undanfarin ár. Ég fékk fyrirspurn frá veiðimanni á dögunum af hverju hundar væru bannaðir við veiðarnar. Rétt er að árétta að bannað er að vera með hunda við veiðarnar þar til fyrstu göngum er lokið. Helgast það af hættu á að hundar fari í fé sem því miður hafa verið brögð að. Við biðjum veiðimen að virða það og þökkum þeim skilninginn á því.

Framkvæmdir við lagningu jarðstrengs við Hvalshöfða í Hrútafirði.

Á miðvikudeginum brá ég mér af bæ eftir hádegið með Ólöfu verkefnisstjóra umhverfismála. Við fórum að Ósum og í Borgarvirki til að skoða aðstæður á þessum vinsælu ferðamannastöðum. Deiliskipulag fyrir Hvítserk er á lokametrunum og vinna við framkvæmdaáætlun í tengslum við það að hefjast. Hvítserkur er á landsáætlun innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og fékkst 15 millj. króna framlag á þessu ári til framkvæmda. Það er því miður dropi í hafið en betra en ekkert og því brýnt að setja niður plan til næstu ára. Borgarvirki er á forræði Minjastofnunar en við höfum verið í samskiptum við þau um þær úrbætur sem nauðsynlegar eru þar.

Fyrri hluta miðvikudags sinnti ég ýmsum málum, fundaði með skólastjórnendum grunnskóla, samþykkti reikninga, fór yfir tímaskráningar vegna launavinnslu og ýmislegt fleira.

Á fimmtudeginum voru sorpmál áberandi. Bæði fundaði ég stuttlega með kollegum sem eru í vinnu við að útbúa útboðsgögn og eins með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna niðurstöðu útboðs okkar, Skagastrandar og Skagabyggðar sem er verið að leggja mat á þessa dagana. Því miður er það svo að þær breytingar sem færðar voru í lög um áramót eru að reynast hinum dreifðari byggðum afar kostnaðarsamar. Niðurstaða útboðsins sýndi það berlega. Málið er í vinnslu og við erum eins og ég segi að leggja mat á niðurstöðuna en Skagabyggð hefur þegar hafnað tilboðinu.

Eftir hádegi á fimmtudeginum renndi ég á Blönduós þar sem Íslandsstofa var með vinnustofu um útflutningsstefnu. Á hana voru boðaðir fulltrúar atvinnulífsins og sveitarstjórar. Um þrjátíu manns sátu vinnustofuna og sköpuðust líflegar umræður um útflutnings og fjárfestingatækifæri í landshlutanum.

Frá vinnustofu Íslandsstofu á Blönduósi.

Á föstudeginum lagði ég af stað suður til Reykjavíkur í bítið. Á dagskrá var vinnufundur stjórnar Íslandsstofu en ég hef um 2ja ára skeið verið fulltrúi í stjórninni. Ég var því ekki fyrir sunnan í embættiserindum sveitarstjóra en nýtti ferðina engu að síður til að sitja einn fund á vegum sveitarfélagsins áður en ég lagði af stað heim aftur. Ég leit svo stutt við í Ráðhúsinu þegar ég kom til baka seinnipart dags.

Ég var mætt snemma til vinnu á laugardagsmorgni – það kom mér verulega á óvart að líta á hitatöluna á Ráðhúsklukkunni. Það er ekki algengt að klukkan 6:30 sé hitastigið um 15 gráður. Hlýindin undanfarna daga hafa verið kærkomin og gott að fá svona góða daga í blálok sumars. Vonandi að framhald verði á. Megin ástæða þess að ég kom til vinnu á laugardegi var að næsta vika verður óheðbundin vegna kynnisferðar sveitarstjórnarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og Vesturlandi til Skotlands í komandi viku. Því þurfti ég að koma nokkrum málum í farveg. Það er nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhringinn og læra af nágrönnum okkar og vonandi komum við til baka uppfull af hugmyndum um hvernig má efla sveitarfélagið okkar enn frekar. Flyt ykkur fréttir af því í næstu dagbókarfærslu.

Var efnið á síðunni hjálplegt?