27. nóvember 2023

Vikan 20. – 26. nóvember 2023

Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs með kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga um nokkur atriði er lúta að kjarmálum. Þar á eftir fundaði ég með umhverfisstjóra um helstu mál á döfinni. Í kjölfarið tók við skrifborðsvinna, undirbúningur byggðarráðsfundar eftir hádegið, samskipti við þjónustuaðila vegna vankanta í fundagerðakerfi, skipulag suðurferðar með oddvita og formanni byggðarráðs, starfsmannamál, frágangur auglýsingar til birtingar í stjórnartíðindum vegna starfa sem undanþegin eru verkfallsheimild o.fl. Byggðarráðsfundurinn var svo eftir hádegið. Þar hófust leikar á samtali við rekstrarstjóra um þær framkvæmdir sem verið hafa í gangi í sumar og eru á döfinni. Einnig var farið yfir niðurstöðu kæru vegna fjallskilagjalda þar sem sýslumaður úrskurðaði að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að leggja á fjallskil á landverð. Hins vegar var grunnur útreiknings rangur svo álagningin var of há sem verður leiðrétt. Þá var einni lóð úthlutað sem alltaf eru ánægjulegir liðir á fundum byggðarráðs. Að síðustu var samþykkt tilboð í íbúðina að Lindarvegi 3a en hún var auglýst á dögunum og bárust þá engin tilboð. Það tilboð var metið ásættanlegt og því samþykkt. Fundargerð fundarins í heild sinni er hér.

Þriðjudagurinn hófst á spjalli við kjörinn fulltrúa. Síðan tók við ýmis skrifborðsvinna. M.a. sendi ég inn umsögn um þingmál sem samþykkt var á byggðarráðsfundinum deginum áður um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Ég vil nota tækifærið til að benda á að allar innsendar umsagnir sveitarfélagsins eru aðgengilegar á heimasíðunni. Ég átti einnig gott samtal við framkvæmdastjóra Bríetar leigufélags um mögulega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Brýnt verkefni sem vonandi fer að þokast áfram. Ég undirbjó fund föstudagsins með nemendaráði grunnskólans til að fara yfir hugmyndir sem nemendur sendu byggðarráði í kjölfar umhverfisdags á dögunum. Einnig undirbjó ég heimsókn Áslaugar Örnu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem var á dagskrá á fimmtudeginum. Ég hóf einnig undirbúning næsta landbúnaðarfundar sem er á dagskrá 6. desember en vegna fjarveru komandi tvær vikur var nauðsynlegt að vera tímanlega með þann undirbúning. Þar verða óvenju mörg mál á dagskrá. Þá sinnti ég málum er varða yfirtöku Brákar íbúðafélags á íbúðunum á Lindarvegi 5 sem áður hefur verið fjallað um í dagbókarfærslum – en því er nú lokið og þær komnar í umsjá þeirra.

Á miðvikudeginum fórum við af stað til Reykjavíkur í bítið, oddviti sveitarstjórnar, formaður byggðarráðs og ég. Áttum við fundi, annars vegar með formanni umhverfis- og samgöngunefndar, Bjarna Jónssyni og hins vegar með formanni fjárlaganefndar, Stefáni Vagni Stefánssyni. Áttum við gott samtal við þá báða um þau mál sem brýnust eru í sveitarfélaginu. Samgöngumál að sjálfsögðu, úrgangsmál bar á góma, atvinnumál, málefni fatlaðs fólks og margt fleira. Það er nauðsynlegt að vera í góðu samtali við þingmenn okkar svo þeir séu meðvitaðir um raunverulega stöðu í kjördæminu.

Funduðum með Bjarna Jónssyni formanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Vatnsnesveginn bar auðvitað á góma.

Á fimmtudeginum kom Áslaug Arna, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar svo í heimsókn ásamt aðstoðarmanni sínum Áslaugu Huldu. Hún fundaði með sveitarstjórn þar sem við kynntum sveitarfélagið og þau áform sem uppi eru um hin ýmsu verkefni. Björn Líndal kaupfélagsstjóri kom og kynnti skógarplöntuverkefnið sem miklar vonir eru bundnar við. Þá fórum við í heimsókn í sláturhúsið þar sem Davíð framkvæmdastjóri tók á móti okkur og sagði okkur frá starfseminni. Við fórum svo í Stúdíó Handbendi og hittum Gretu og Sigurð sem þar ráða ríkjum. Þaðan fórum við í Kidka þar sem Kiddi sagði okkur frá sínum rekstri og að því loknu sýndum við ráðherra Kaupfélagið. Eftir opinn viðtalstíma í Útibúinu lá leið að Búrfelli en Jón og Áslaug Arna eru frændfólk. Þar var gaman að koma eins og alltaf. Ég þakka þeim sem tóku á móti okkur fyrir góðar móttökur. Við hefðum getað sýnt ráðherra svo margt fleira en tíminn var knappur.

Jón á Búrfelli segir Áslaugu Örnu og Áslaugu Huldu frá verkum sínum á vinnustofunni.

Á föstudeginum hófust leikar á vikulegum fundi með oddvita og fomanni byggðarráðs. Þar sem ekkert aðkallandi lá fyrir byggðarráðsfundi í komandi viku var honum frestað – það er engin ástæða til að funda bara til þess að funda. Því næst lá leið upp í skóla þar sem ég átti frábæran fund með nemendaráði. Fórum við yfir þau mál sem þau vilja setja á oddinn af þeim lista sem nemendur unnu í kjölfar umhverfisdags. Ég fór stuttlega yfir verkefni sveitarfélaga og fjárhagsáætlunarferlið til að þau áttuðu sig á hvað af því sem þau settu fram væru raunveruleg verkefni sveitarfélaga og hvernig fjármögnun verkefna er háttað. Margt af því sem þau nefndu voru atriði sem maður skyldi ætla að ungt fólk væri ekki endilega að spá í - eins og t.d. að koma fráveitumálum í lag. Ég get fullyrt að á grunnskólaárum mínum hafi ég ekki verið að spá í fráveitumál. Er þetta til marks um aukna umhverfismeðvitund ungs fólks. Fráveitan er vissulega stórt verkefni sem við stöndum frammi fyrir og er fyrsta skrefið að greina stöðuna sem verður ráðist í á næstunni og í framhaldinu skoðaðar þær aðgerðir sem ráðast þarf í. Við töluðum einnig um hopphjól, krossarabraut, leiksvæði við skólann, ljósastaura við hestuhúsahverfi, flokkunartunnur, laun unglinga í vinnuskóla, sorpmál, trjáplöntun, úrval íþróttaæfinga, rafíþróttir, klúbbastarf og margt margt fleira. Ég er óskaplega montin af unga fólkinu okkar og hversu vel þau eru meðvituð um samfélagið sitt. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni með þennan mannskap – það er ljóst.

 

Með nemendaráði grunnskólans. Heldur betur flottir krakkar.

Seinni hluta föstudags nýtti ég í frágang ýmissa mála og hreinsaði upp nokkur atriði á verkefnalistanum. Næstu tvær vikur verða óvanalegar þar sem á sunnudeginum lagði ég af stað til Finnlands í boði Húnaklúbbsins. Klúbburinn hefur um þriggja ára skeið unnið að verkefni sem miðar að aukinni samfélagsþátttöku ungmenna í samstarfi við sveitarfélagið Pythää. Í framhaldi af heimsókn þangað sit ég ráðstefnu í Helsinki um nýsköpun og atvinnuuppbyggingu henni tengdri, nokkuð sem er brýnt að efla í sveitarfélaginu okkar. Vikuna þar á eftir mun ég svo vera í fríi að mestu leyti ef frá er talinn mánudagurinn. Þegar aðeins er einn hefðbundinn vinnudagur á dagskrá næstu tvær vikurnar þarf að hnýta ýmsa hnúta. Ég bý hins vegar svo vel að í Ráðhúsinu er einvala lið sem sér u að allt gangi snuðrulaust fyrir sig. Eins og ég hef oft sagt – ég reyni bara að vera ekki fyrir þessum afburða mannskap í sínum störfum.

Var efnið á síðunni hjálplegt?